Karl Gauti Hjaltason alþingismaður:

Spurði ráðherra um samgöngumál Eyjamanna

- skilst að í afleysingaferjunni séu engar kojur fyrir farþega, sem honum finnst algjörlega óboðlegt fyrir íbúa í Vestmannaeyjum

23.Janúar'18 | 16:01
bodo_vestm

Ferjan Bodo kom til Eyja í morgun. Ljósmynd/TMS.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra um stöðuna á samgöngumálum milli lands og Eyja, nú þegar afleysingarferjan Bodo er að hefja áætlun. 

Karl Gauti spurði um það skip sem á að leysa Herjólf af á meðan á viðgerð á Herjólfi stendur, sem gæti tekið tvær, þrjár vikur.

Hefur ríkisstjórnin eða samgönguráðherra ekki hugað að því að niðurgreiða flug?

Hvernig er aðbúnaður farþega um borð? Þetta er farþegaferjan Bodø sem kemur frá Noregi. Mér skilst að þar séu engar kojur fyrir farþega, sem mér finnst algjörlega óboðlegt fyrir íbúa í Vestmannaeyjum á meðan flug til Vestmannaeyja fram og til baka til Reykjavíkur kostar 36.000 kr.

Hefur ríkisstjórnin eða samgönguráðherra ekki hugað að því að niðurgreiða flug alla vega á meðan þessi óboðlegi farkostur er í boði, á meðan Herjólfur er í slipp? Hefur ekki hafi komið til greina að greiða niður flug fyrir íbúa Vestmannaeyja?

Ég veit að fólk sem er sjóveikt fer ekki þessa leið án þess að geta lagst í koju. Ef skipið er kojulaust, sem mér skilst að það sé, er algjörlega óboðlegt fyrir langflesta íbúa í Vestmannaeyjum að ferðast á milli nema borga stórfé fyrir að fljúga.

Svo er eitt annað, er það rétt að ferja geti ekki tengst landgöngubrúm í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum? Þurfa þá farþegarnir að ganga um bíladekkið upp á bryggjuna núna í janúar, í verstu vetrarveðrum?

 

Þekkir ekki nákvæmlega búnað afleysingaferjunnar

Ráðherra svaraði því til að hvað varðar nákvæmlega búnað þessa skips, Bodø, þá þekkir hann það einfaldlega ekki.

„Ég skal leita eftir upplýsingum hjá Vegagerðinni og umboðsaðila eða þeim aðila sem fer með ferjusiglingarnar hvernig skip þetta er. En ég þekki til þess að það var mjög erfitt að fá skip til siglinga hér. Við vorum að leita eftir því þegar Baldur á Breiðafirði fór í slipp að reyna að fá skip, m.a. þetta skip, Bodø, og reyna að fá það aðeins fyrr sem reyndist ekki vera hægt heldur vegna þess að einfaldlega væri erfitt um vik að fá skip til afleysinga á þessum tíma.

Ég get því einfaldlega ekki upplýst þingheim núna nákvæmlega hvaða búnaður er í þessu skipi, hvort engar kojur séu, hvað þá hvort ferjan geti ekki tengst landgöngubrúm báðum megin lands. En ég vonast nú til að þeir aðilar sem hafa farið með þessi mál séu ekki að bjóða upp á einhvern afleitan kost, en ég skal koma þeim upplýsingum að sjálfsögðu bæði til þingmannsins og þingheims um það hvernig búnaður á þessu afleysingaskipi er háttað.” segir Sigurður Ingi samgönguráðherra.

Þekkir það sjálfur að fólk sem er sjóveikt fer ekki með fjölskyldurnar, börnin eða konurnar, upp á land ef ekki eru kojur um borð

Karl Gauti þakkaði ráðherra þessi svör, sem hann telur raunar næsta lítil vegna þess að hann virðist ekki hafa kynnt sér þetta skip.

„En samkvæmt upplýsingum sem ég hef þá eru engar kojur um borð í norsku ferjunni. Menn verða að bera örlitla virðingu fyrir íbúum þessa lands í samgöngumálum. Við erum að tala um þrjár vikur sem íbúar í Vestmannaeyjum eru í fjötrum og komast ekki upp á land. Það er bara þannig. Ég þekki það sjálfur að fólk sem er sjóveikt fer ekki með fjölskyldurnar, börnin eða konurnar, upp á land ef ekki eru kojur um borð í skipunum. Þetta er tæplega þriggja tíma sigling. Ég vona og óska eftir því að hæstv. samgönguráðherra kanni það og hugi að því í framtíðinni að bjóða upp á almennilega ferju til Vestmannaeyja þegar Herjólfur þarf að fara í slipp.” segir Karl Gauti.

Horfa allir til nýrrar ferju sem kemur næsta sumar

Ráðherra sagðist getað tekið undir með þingmanninum að þegar kallað er eftir afleysingaskipum er rétt að þau séu af þeirri gerð og gæðum að þau séu boðleg í þær siglingar sem þær eiga að sinna.

„Það er bagalegt þegar það gengur ekki upp. Það var til að mynda mjög erfitt varðandi Baldur þegar hann fór í slipp. Þar kom reyndar óvænt upp bilun í Baldri þannig að hann var ónothæfur í nokkurn tíma — það hefur reyndar líka komið upp varðandi Herjólf — en þá var ekki hægt að fá neitt skip til siglinga. Baldur hefur stundum verið tekinn í afleysingar til siglinga frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn. Hann er auðvitað ekki skip af sambærilegum gæðum og gerð og Herjólfur, enda horfa allir til nýrrar ferju sem kemur næsta sumar og á að leysa þessi mál til lengri framtíðar heldur en við höfum þekkt núna í nokkur misseri.

Ég tek undir með þingmanninum að ef það reynist rétt að búnaður þessa skips sé ekki boðlegur er það auðvitað mjög bagalegt og ekki gott að bjóða almenningi í landinu upp á slíkan valkost. En ég skal kanna fyrirkomulagið á því og koma þeim upplýsingum til þingmanns og þingheims eins fljótt og auðið er.” segir Sigurður Ingi, samgönguráðherra.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).