Ásmundur Friðriksson:

Eigum við von á lakari þjónustu og meiri frátöfum?

- við þurfum að fá svör við því

5.Desember'17 | 06:45
herjolfur_nyr_cr_sa_c

Lengja þarf nýju ferjuna auk þess sem breyta þarf stefni skipsins. Mynd/Crist SA.

Í gær var greint frá að gera þyrfti umtalsverðar breytingar á nýjum Herjólfi. Fram kom að lengja þyrfti skipið auk þess sem breyta þarf stefni skipsins. Eyjar.net ræddi málið við Ásmund Friðriksson, þingmann Suðurkjördæmis og formann Samgönguráðs.

Nú er byrjað að smíða nýjan Herjólf og enn er verið að breyta hönnun skipsins. Hvað viltu segja um það?

Það kemur á óvart að enn verði að grípa til þess að breyta hönnun skipsins og lengja það. Höfuðmarkmið nýs skips var djúpristan og hönnunarforsendur miðuðust við 2.8 m. Nú hefur skipið verið lengt tvisvar sinnum á hönnunar- og smíðatíma um samtals 6 metra. Fyrst vegna þess að skipið stakk niður stefni þess við ákveðnar aðstæður við Landeyjarhöfn og nú vegna þess að höfuðmarkmiðið 2.8 metrar náðist ekki. Lenging skipsins er því til þess fallin að ná þeirri djúpristu sem stefnt var að. Breytingin á stefni skipsins er til þess að ná markmiðum  um siglingahraða þesss.

 

Áður var okkur bæjarbúum tjáð að ef skipið yrði stækkað myndi það auka frátafir skipsins í Landeyjahöfn. Síðan þá hefur skipið tvisvar verið lengt. Er með þessu verið að segja okkur að frátafirnar aukist enn?

Síðasta breytingin um lengingu um 1.8 metra hefur ekki mikil áhrif á frátafir eða vindfang skipsins. Aftur á móti lengingin um samtals 6 metra hefur töluverð áhrif sem ég kann ekki að meta í frátöfum eða lakari þjónustu eins og nefndarmenn í smíðanefndinni notuðu í umræðum gegn lengingu skipsins á sínum tíma.

En til að rifja það stuttlega upp, þá voru ríkar kröfur í umræðunni um að það ætti að byggja lengra og stærra skip en upphaflegar áætlanir voru um. Það var slegið út af borðinu með þeim rökum að þá verði frátafir meiri og þjónustan lakari í færri ferðum. Nú sitjum við uppi með skip sem verður lengra en núverandi Herjólfur og þá spyr ég hvort rökin á móti stærra skipi standi enn og við eigum von á lakari þjónustu og meiri frátöfum? Við þurfum að fá svör við því.

 

Nú er vitað að skipið verður verr í stakk búið til siglinga í Þorlákshöfn. Er ekki full ástæða til að tryggja að núverandi skip verði haft til taks óbreytt næstu árin?

Núverandi Herjólfur verður ekki seldur úr landi og til taks fyrir Eyjamenn, en ég veit ekki nákvæmlega hvernig verkefni því skipi verður látið annast.

 

Munt þú sem þingmaður fara fram á að málið verði skoðað af óháðum aðilum?

Ég vil gefa nýjum samgönguráðherra svigrúm til að setja sig inn í málin og sjá hver viðbrögð hans verða við breytingum á hönnun skipsins og hvert hlutverk gamla Herjófs verið þegar nýtt skip verður komið, en sú ákvörðun liggur í hendi ráðherrans, segir Ásmundur Friðriksson.

 

Þessu tengt:

Ferjan lengd

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.