Elís Jónsson skrifar:

Hvert stefnir bæjarstjórn?

16.Nóvember'17 | 03:49

Mikið hefur verið rætt um samgöngumál undanfarið þ.e. samgöngur á sjó. Eðlilega skipta sjósamgöngur okkur sem búum í Vestmannaeyjum gríðar miklu máli og það á ekki sýna okkur þá óvirðingu að nota svo 2-3 vikur til greina þarfir okkar í sjósamgöngum!

Það þarf enginn að hafa áhyggjur að ég hafi sagt skilið við samgöngumál enda löngu búinn að lofa birtingu á gögnum sem ég m.a. bjó til sjálfur.

Það sem brennur á mér nú er þessi óskiljanlega stefna Vestmannaeyjabæjar í ýmsum málum og nú í kynningarmálum… Ég sótti skemmtilegt málþing í Einarsstofu í Safnahúsi á sunnudaginn sl. Tilefnið var að nú árið 2017 eru liðin 100 ár frá því blaðaútgáfa og prentsmiðjurekstur hófst í Eyjum. Það er því alveg óhætt að segja að opnunarteiti ,,EY‘‘ hafi verið köld vatnsgusa á þá aðila sem komið hafa að útgáfustarfsemi og kynningarmálum í Eyjum. Þrátt fyrir að hafa leitað til fagaðila utan Vestmannaeyja þá má segja að það sé töluverð óheppni að hafa yfirsést að umrætt ,,EY‘‘ er það sem alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki ,,Ernst & Young‘‘ notar til að auglýsa sig en fyrirtækið er einmitt með starfsemi á Íslandi og það þarf ekki að koma neinum á óvart að heimasíða þeirra er www.ey.is.

Ég veit ekki hvort löngunin hafi verið svona gríðarlega mikil að æðsti embættismaður Vestmanneyjabæjar fengi upphafsstafi sína á bol ,,e.v‘‘ að haldið var áfram þó annað fyrirtæki notaðist við ,,EY‘‘. Þó þetta eigi að vera fyrsta skref áður en þetta markaðsátak verður fært til Eyja þá er upphafið á þessu átaki frekar neyðarlegt, eiginlega grátlegt. Með auknu samráði við íbúa hefði mátt komast hjá þessu. Við eigum flott fólk og fyrirtæki í Eyjum og óumdeilt að það hefði mátt nálgast þessi mál á annan hátt. Í fjárhagsáætlun 2017 fyrir Vestmannaeyjabæ: ,,21-189-4990 City Branding, markaðsátak fyrir Vestmannaeyjar sem stað til að búa á og heimsækja“ er gert ráð fyrir 14 milljónum.

Það má til dæmis benda kjörnum fulltrúum á ,,íbúaþing‘‘ sem er vettvangur til að fá fram vilja og óskir íbúa hvað varðar stefnu og framkvæmdir innan sveitarfélags. Þær upplýsingar sem til verða á þinginu geta nýst sveitarstjórn þegar kemur að hinni eiginlegu ákvörðunartöku sem stuðlar svo að því að ákvörðun sé tekin í sátt við íbúa. Hefði ekki verið upplagt að halda slíkt í haust? Kanna vilja íbúa til hinna ýmsu mála? M.a. að Vestmannaeyjabær reki Herjólf, markaðsátakið ,,EY‘‘ og annara atriða sem hægt væri þá að taka tillit til m.a. við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2018?

Hefði frekar mátt notast við ,,TIL EYJA‘‘ og útlínur Eyjanna? Nota frábæra listamenn, ljósmyndara, frétta- og margmiðlunarfyrirtæki í Eyjum til að búa átakið til. Það þarf jú samráð, samvinnu og samheldni til að valda ekki þeirri sundrung sem bæjarfulltrúar standa sjálfir fyrir!

Við þurfum að gera betur, miklu betur! Með því viðhorfi sem æðstu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar sýna okkur íbúum þá kemur það ekkert á óvart að í árlegri þjónustukönnun Capacent hafi Vestmannaeyjar hafi farið úr 4,5 fyrir árið 2008 í 4,1 árið 2016. Þar með er Vestmannaeyjar komið undir landsmeðaltal 19 stærstu sveitarfélaga landsins sem er 4,2 þegar kannað er: ,,Á heildina lítið, hversu ánægð(ur) eða óánægður(ur) ert þú með sveitarfélagið sem stað til að búa á?‘‘

 

Elís Jónsson

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.