Grímur Gíslason skrifar:

Leysum verkefnin með hagsmuni Vestmannaeyja í forgangi

15.Október'17 | 08:45
IMG_5271-001

Herjólfur heldur hér úr höfn. Ljósmynd/TMS.

Elís Jónsson ritaði grein hér á eyjar.net í vikunni undir fyrirsögninni; Hver á að reka Herjólf? Pistillinn fannst mér svolítið mengaður af andúð á meirihluta bæjarstjórnar og hagsmunagæslu fyrir vinnuveitanda hans, Eimskip, frekar en að verið sé að hugsa um hagsmuni Vestmannaeyja eða Vestmannaeyinga.

Er einu best rekna sveitarfélagi landsins ekki treystandi?

Ég er ekki og hef ekki alltaf verið sammála meirihluta bæjarstjórnar í einstökum ákvörðunum en ég held að flestir geti verið sammála um að erfitt sé að halda því fram að rekstur Vestmannaeyjabæjar hafi verið slæmur undanfarin ár. Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar sýnir að sveitarfélagið er eitt það best rekna á landinu og því hálfgerð öfugmæli að gera því skóna að það geti ekki annast rekstur, af hvaða toga sem er, með skikkanlegum hætti.

Fagna ber áhuga Vestmannaeyjabæjar

Ég fagna áhuga Vestmannaeyjabæjar á því að taka yfir rekstur siglinga milli lands og Eyja og tel það skref í rétta átt til að nálgast þá þjónustu með hagsmuni Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga í huga en ekki gróðasjónarmið fyrirtækis á hlutabréfamarkaði. Samgöngur milli lands og Eyja eru grunnþjónusta og ég held allir ættu að geta verið sammála um það að slíkri þjónustu er best stjórnað af heimafólki, með hagsmuni notenda í huga.

Þarfir samfélagsins eiga að vera í forgrunni

Hingað til hafa flestir Eyamenn verið því sammála að mikilvægt sé að forræði á rekstri samgangna milli lands og Eyja sé á forræði heimamanna, til að þjónusta betur á samgönguleiðinni. Nú þegar að slíkt er loksins í farvatninu spretta upp einhverjar óánægjuraddir sem reyna að tortryggja það að slíkt sé til bóta. Það skildi þó ekki vera að þær raddir séu knúnar áfram að núverandi rekstraraðila sem á auðvitað mikilla hagsmuna að gæta að halda í þennan gullmola sem skilar honum ekki bara milljónum á ári í hagnað heldur amk. tugum ef ekki hundruðum milljóna. Einhverjar þessara radda hafa amk mjög sterka tengingu við núverandi rekstraaðila. Það er slæmt ef að tryggð þeirra Eyjamanna sem eru að tjá sig um þetta er sterkari við hlutabréfaeigendur í Eimskipum en hagsmunum Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga.

Samgöngur milli lands og Eyja eiga að stjórnast af þörfum samfélagsins í Eyjum, fólksins, fyrirtækjanna og þeirra sem sækja vilja Eyjarnar heim en ekki rekstraraðilans eða starfsmanna hans. Grunnþjónusta eins og samgöngur eiga ekki að stjórnast af slíku.

Hver er tilgangurinn með sáningu efasemdarfræja?

Af hverju ætti það að vera svo áhættusamt fyrir Vestmannaeyjabæ að taka að sér umsjón á rekstri samgönguleiðar sem að í dag skilar ríflegum hagnaði til rekstraraðila?

Hvernig er hægt að túlka vilja Vestmannaeyjabæjar til að sýna ábyrgð og áhuga á samgöngumálum og að koma þeim í betra horf sem einhverja rykþyrlun í augu bæjarbúa, sem fyrir löngu eru komnir með upp í kok af þeirri þjónustu sem í boði er? Eru það ekki bara eðlileg og nauðsynleg viðbrögð?

Hvernig getur það talist röng stefna að bregðast við á þann hátt sem bæjarstjórn gerir? Væri betra að halda sig við óbreytt ástand af því að kosningar eru á næsta ári.? Hvaða bull er þetta eiginlega?

Hvers vegna ætti Vestmanneyjabær að getað hækkað gjaldskrá á samgönguleiðinni milli lands og Eyja meira en gert hefur verið af núverandi rekstaraðila. Væntanlega hafa hækkanir undanfarinna ára verið hluti af samkomulagi milli rekstraraðila og ríkisvaldsins og hefur flestum þótt nóg um þær hækkanir á sama tíma og ljóst er að afkoman af rekstrinum hefur verið mjög góð. Hvurslags hræðsluáróður er hér í gangi?

Væri ekki gott að líta aðeins inná við varðandi verkefni sem fara úr böndum?

Ég held að það væri nú ágætt fyrir starfsmann á Herjólfi að líta aðeins innávið þegar farið er að tala um að áætlanir gangi ekki upp og fari úr böndum. Það þarf ekki að líta margar vikur aftur í tímann til að finna dæmi um það að Herjólfur var sendur í viðgerð sem legið hafði fyrir í marga mánuði að fara þurfti í. Skip var leigt frá Noregi til að leysa Herjólf af en þegar búið var að rífa í sundur það sem lagfæra átti voru varahlutir ekki komnir og að endingu var allt sett saman á ný án viðgerðar og stoppa þarf á ný síðar til að framkvæma viðgerðina. Beinn kostnaður vegna þessa rugls nemur örugglega tugum milljóna og afleiddur kostnaður hleypur einnig á milljónatugum. Er þetta dæmi um góða stjórnun og rekstur? Er þetta bara allt í góðu? Ef að ég hefði verið rekstraraðili þá hefði mér amk. aldrei dottið svona della í hug.

Það var ekkert sukk í gangi við reksturinn hjá  Herjólfi hf.

Ekki veit ég hversu vel Elís þekkir til rekstrar Herjólfs hér á árum áður. Hef þó grun um að þekking hans á því sviði sé frekar grunn. Hvað hann á við með „bleikum miðum“ eða „hvern þarf að ræða við til að fá afnot af klefum“ veit ég ekki en mér finnst eins og verið sé að gefa í skyn að búast megi við einhverju óeðlilegu í rekstri á samgönguleiðinni ef að forræðið færist til heimamanna. Hvaða efasemdafræjum er verið að sá með svona bulli og hver er tilgangurinn?

Rekstur Herjólfs í höndum „einkaaðila“ hefur kostað ríkið meira

Ég þekki vel til rekstrar Herjólfs eins og hann var áður en ríkið ákvað að bjóða reksturinn út og get fullvissað Elís og aðra um að það var ekkert sukk í þeim rekstri og vert er að vekja athygli á þvi að ef skoðuð eru framlög ríkisins til rekstar Herjólfs síðustu árin sem að Herjólfur hf sá um reksturinn og þau framlög sem ríkið leggur til rekstrarins í dag þá hefur kostnaður ríkisins aukist mikið, að teknu tilliti til fjölgunar ferða og verðlagsbreytinga. Ef að enn væri unnið á sama grunni og gert var áður en reksturinn var boðinn út væri kostnaður ríkisins líklega mun minni en hann er í dag. Kostnaður ríkisins hefur aukis verulega þrátt fyrir gríðarlega aukningu tekna af rekstrinum vegna aukinna flutninga. Finnst einhverjum það virkilega vera eðlilegt?

Það er því raunverulega ástæða til að endurskoða það hvernig þessum rekstri er háttað. Ég þori að fullyrða að með óbreyttu ríkisframlagi má annað hvort fjölga ferðum til muna og jafnvel lækka gjaldskrá, án þess að efna til hallareksturs á ferjuleiðinni milli lands og Eyja, eða þá að spara ríkinu talsverða fjármuni til þessa rekstrar. Þeim fjármunum sem spara má þannig yrði þá amk. betur varið t.d. til framkvæmda í Landeyjahöfn í stað þess að þeir fjármunir sitji sem hagnaður hjá núverandi rekstraaðila.

Eigum við ekki frekar að standa saman um fjöreggið okkar?

Í ljósi reynslunnar trúi ég því varla að Eyjamenn vilji frekar hafa fjöreg sitt, samgöngurnar, í höndum „einkaaðila“ sem eru örugglega hvorki að hugsa um að bjóða hagstæðasta verðið né bestu þjónustuna, heldur fyrst og fremst að hámarka hagnaðinn af rekstrinum.

Er ekki kominn tími til að hætta neikvæðu blaðri og standa frekar saman um að ná forræðinu á rekstrinum heim þar sem að skilningur er á þörfum og nauðsyn þess að „þjóðvegurinn“ til Eyja sé fyrir notendur hans fyrst og fremst en ekki rekstraraðilann og starfsfólk hans.

Við getum verið ósammála um margt sem snýr að samgöngum milli lands og Eyja, Landeyjahöfn, nýsmíði ferju og margt annað en þetta er mál sem að fullkomin sátt ætti að geta verið um. Þverpólitísk samstaða í víðasta skilningi ætti að vera um þetta í Eyjum, amk. hjá þeim sem hafa það að markmiði að bæta samgöngur milli lands og Eyja og hafa hagsmuni Vestmannaeyja í forgangi en láta ekki aðra hagsmuni ráða för.

Þannig leysum við verkefnið best og látum verkin tala.

 

Grímur Gíslason

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...