Ásmundur Friðriksson skrifar:

Kostnaðurinn vegna hælisleitenda

Umræðan sem má ekki taka

14.Október'17 | 11:16
asmund_litil

Ásmundur Friðriksson.

Hælisleitendum sem koma til Íslands hefur fjölgað gríðarlega og ef ítrustu spár ganga eftir gætu þeir orðið allt að 2.000 á þessu ári. Sú fjölgun kemur í kjölfar ákvörðunar Alþingis um að taka hagsmuni einstaklinga fram yfir hagsmuni heildarinnar. 

Á lokadegi þingsins var lögum um útlendinga breytt þrátt fyrir varnaðarorð erlendra stofnana. Þær bentu á að ef Ísland lækkaði þröskuldinn gagnvart hælisleitendum meira en önnur ríki Evrópu gætum við átt von á mikilli fjölgun hælisumsókna. Í Þýskalandi er um ein milljón ríkisfangslausra hælisleitenda. Ekki er ólíklegt að einhverjir þeirra muni t.d. nýta sér það ef þröskuldurinn er lægri hér en annars staðar. Varnaðarorðin snúa að því að tugþúsundir hælisleitenda gætu mögulega leitað hingað.

Það hafa verið settar fram alvarlegar sviðmyndir um stóraukna fjölgun hælisleitenda til Íslands og kostnaðinn þeim samfara. Þar er verið að tala um jafnvel tugþúsundir hælisleitenda. Það myndi setja heilbrigðiskerfið í afar þrönga stöðu, húsnæðismarkaðurinn mundi springa og kostnaðurinn gæti orðið allt að 220 milljarðar króna. En hver hælisleitandi kostar þjóðarbúið um 3,8 milljónir króna á ári. En þegar kemur að þessum kostnaðarlið hefur umræðan verið þögguð niður.
 

Tökum vel á móti kvótaflóttafólki

Við tökum vel á móti fólki sem kemur til að taka þátt í atvinnulífinu og vera hluti af samfélaginu. Í landinu eru um 15,000 erlendir starfsmenn sem mæta þörfinni fyrir vinnuafl. Við sinnum einnig skyldum okkar og tökum vel á móti kvótaflóttafólki og hjálpum því til sjálfshjálpar og leggjum áherslu á að það aðlagist sem best. Þar eiga börn að njóta sérstaklega góðrar meðferðar. Við eigum að halda áfram á þeirri braut og vilji er til að auka framlög til þessa málaflokks verulega á næstu árum.

Þeir stjórnmálaflokkar sem tala fyrir því að lækka hér þröskuldana svo hælisleitendum verði gert auðveldara að koma til Íslands en annarra landa vilja ekki ræða kostnaðinn við málaflokkinn. Þeir líta á það sem áskorun að taka á móti þúsundum, jafnvel tugþúsundum hælisleitenda með algjörlega ófyrirséðum afleiðingum fyrir innviði heilbrigðiskerfisins og húsnæðismarkaðinn.

Við sjáum þegar afleiðingarnar af fjölgun hælisleitenda. Kostnaðurinn er kominn langt umfram fjárheimildir og stefnir í sex þúsund milljónir í ár. Þrengingar eru á  húsnæðismarkaði. Heimafólk er sett á götuna á meðan margar íbúðir, gistiheimili og gamlir skólar eru setin hælisleitendum. Nábýlið við suma þeirra er svo eldfimt að það dugar ekki minna en sérsveit lögreglunnar ef stilla þarf til friðar.
 

Ég ræði samt kostnaðinn

Í þinginu erum við sífellt að takast á um hvert við beinum fjármagninu. Hvað fari í heilbrigðiskerfið, samgöngur eða menntamál. En það má alls ekki bera saman kostnað við hælisleitendur og framlög til heilbrigðiskerfisins eða framfærslu eldri borgara og öryrkja. Hvers vegna ekki? Er ekki eðlilegt  að velta því fyrir sér hvernig farið er með opinbert fé?Er eðlilegt:

• Að hælisleitendur fái í mörgu betri framfærslu en eldri borgarar og öryrkjar?
• Að hælisleitendur fá frítt húsnæði þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða.
• Að að heimamenn búi á sama tíma í tjöldum vegna húsnæðiseklu?
• Að hælisleitendur fái ókeypis sálfræði-, læknis- og tannlæknaþjónustu þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða?

Er réttlátt að verja sex þúsund milljónum til móttöku hælisleitendenda þegar við neitum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og í Vestmannaeyjum, á Neskaupsstað og Ísafirði um fæðingarþjónustu í heimabyggð sem samtals kostar um einn milljarð á ári?

Hvernig telur þú lesandi góður að fólkið í landinu vilji forgangsraða þessum fjármunum? Það er mikil umræða um þetta á meðal almennings, en hún nær ekki upp á yfirborðið vegna þess að hún er þögguð niður. Það er nauðsynlegt að komast að niðurstöðu í þessum efnum svo  sátt skapist um þessi mál.
 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.