Ásmundur Friðriksson fer yfir samgönguvandamál Eyjamanna

Vandi Landeyjahafnar verður ekki leystur með þögn eða aðgerðarleysi

2.Október'17 | 06:55
asi_lan_2

Ásmundur segir að vandi Landeyjarhafnar verður ekki leystur með þögn eða aðgerðarleysi. Samsett mynd.

Ásmundur Friðriksson er fyrsti flutningsmaður af þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela samgönguráðherra að skipa starfs­hóp sem skoða á jarðgöng milli lands og Eyja. Eyjar.net ræddi þetta mál við þingmanninn, auk stöðunnar á samgöngunum í dag.

Nú lögðuð þið þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fram tillögu þess efnis að farið verði í Alþingi álykti að fela samgönguráðherra að skipa starfs­hóp sem ger­ir ít­ar­lega fýsi­leika­könn­un á gerð ganga milli Heima­eyj­ar og Kross í Land­eyj­um.

Nú spyrja margir, hvers vegna er þessi tímapunktur valinn til að leggja fram slíka tillögu?

Það er búið að vera lengi í deiglunni að skoða þessi mál. Nú liggur fyrir að ný ferja kemur að sumri, en samt er tilfinningaþrungin umræða um stöðuna í samgöngumálum milli lands og Eyja. Sú umræða er skiljanleg í ljósi þeirra ótrúlegu mistaka og stjórnleysi þegar Herjólfur er tekin úr umferð áður en varahlutir eru komnir til landsins sem eiga að fara í skipið.

Þetta tengist ferju sem fengin var að leigu vegna bilana í gír Herjólfs en ferjan hefur C-leyfi til siglinga og má því ekki sigla í Þorlákshöfn og ekki í Landeyjarhöfn eftir 1 október. Það átti í tímaþröng að þröngva þessu máli í gegn í afar þröngu tímabelti sem því miður gekk ekki upp. Nær hefði verið að gefa þessu sinn tíma og leigja hingað ferju sem ræður við siglingar í Landeyjar- og Þorlákshöfn. 

Sannarlega hefði þar verið tækifæri sem margir vildu sjá áður en ákveðið var að smíða ferju að skoða með rekstur tvíbyttnu á milli lands og Eyja, bæði í Landeyjarhöfn og Þorlákshöfn. Þá má vera að það sé ekki kostur en það hefði getað svarað mörgum spurningum sem brenna á vörum okkar sem vildum sjá meiri framfarir með nýrri ferju, en raunin verður.

Varðandi spurninguna þá er ljóst að það er mikilvægt að hafa tímann fyrir sér til að skoða hvaða kostir verða í stöðunni þegar nýja ferjan sem kemur næsta sumar siglir sínar síðustu ferðir eftir 20-25 ár. Ef ríkisstjórnir á Íslandi verða ekki lengur en 1-2 ár við stjórn á næstu árum vegna þess glundroða sem 8-10 þingflokkar og 3-5 flokka ríkisstjórnir skapa er mikilvægt að koma umræðunni af stað.  Umræðan getur tekið jafnvel nokkur ár í þinginu miðað við þann hraða sem þingsályktanir þingmanna hafa fengið í þinginu síðustu ár og aðeins örfáar komist á mælendaskrá, hvað þá afgreiddar en í upphafi hvers þings þarf að endurflytja mál sem ekki hafa fengist afgreidd.

 

Það vakti athygli að formaður bæjarráðs Vetmannaeyjabæjar lagði til að þið mynduð draga þessa tillögu til baka. Hverju svarar þú því?

Ég ber fulla virðingu fyrir afstöðu formanns bæjarráðs Vestmannaeyja, en hann hefur ekki verið í sambandi við mig vegna tillöguflutningsins frekar ég ég við hann. Ég hef fengið fleiri athugasemdir og þá frá öðrum stöðum í kjördæminu að gera Eyjamönnum hærra undir höfði en öðrum stöðum sem líka berjast fyrir bættum samgöngum.

Það er því vandlifað í þessu sem öðru, en stundum verður maður að þora að taka næsta skref í umræðunni. Ef formaður bæjarráðs telur það skaða Landeyjahöfn og nýja ferju að blanda þessum málum saman þá er það gild skoðun fyrir mér. Ég held að vandi Landeyjahafnar verði ekki leystur með þögn eða aðgerðarleysi frekar en önnur vandamál. Ég hef sagt samþingsmönnum mínum, ráðherrum og yfirmönnum samgöngumála í landinu að sú gífurlega þunga umræða sem núna er í Vestmannaeyjum um klúðrið í samgöngumálum við Eyjar og getur haft afar alvarleg áhrif fyrir atvinnulífið, afkomu ferðaþjónustunnar og fjölskyldur í Eyjum, sé aðeins hjóm þegar kemur að fyrstu vonbrigðum nýrrar ferju.

Það rann mörgum ráðamanninum kalt vatn á milli skins og hörunds þegar Röstin tók niðri við Landeyjarhöfn á dögunum, það átti engin von á því að það gerðist. Hvernig fer fyrir ferju þar sem neðsti punktur skipsins er skrúfubúnaðurinn fyrir neðan kjöl þegar slíkt atvik gerist. Ég vona þó að allt sem ég segi um það rætist aldrei. Það gæti því flýtt fyrri að umræða um nýja framtíðarsýn verði komin í gang.

Ég held að við þingsályktunina um göngin ættum við að bæta skoðun á háhraðaferju sem gengi í Þorlákshöfn á 50-70 mínútum og 10 mínútur í Landeyjarhöfn, ferju eins og hópur áhugamanna hefur marg bent á að sé álitlegur kostur til að skoða og prufa sem fyrst. Framtíð atvinnulífs og íbúa í Eyjum gæti oltið mikið á því hvernig tekst til með nýja framtíðarsýn og hvaða væntingar íbúar fá þegar þau mál fara í alvöru umræðu um nýja framtíð í samgöngum við Eyjar sem ekki er í spilunum eins og staðan er í dag með Landeyjarhöfn óbreytta.

 

En hvað segirðu um stöðuna sem Eyjamenn hafa staðið frammi fyrir síðustu daga (þegar Röst var) í sjósamgöngum?

Staðan er algjörlega óviðunandi, hún er ekki boðleg og til skammar fyrir okkur öll sem berum ábyrgð á samgöngum við Vestmannaeyjar, segir Ásmundur Friðriksson þingmaður.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.