Smíði Herjólfs í skugga þrælahalds

- Ríkiskaup hyggst fara fram á enn frekari staðfestingu á því að norðurkóreskir verkamenn hafi ekki komið og muni ekki koma að smíði Herjólfs

27.September'17 | 19:20
_DSCNýr Herjólfur í brotum í Landeyjahöf

Nýr Herjólfur er í smíðum í Póllandi. Mynd/samsett.

Norðurkóreskir vinnuþrælar voru notaðir við smíði nýjasta herskips Dana sem smíðað var í Póllandi. Sama skipasmíðastöð vinnur nú að smíði nýs Herjólfs. Ríkiskaup segjast hafa gengið úr skugga um að ekkert þrælahald tengdist skipasmíðastöðinni þegar eftir undirritun samningsins.

Danska ríkissjónvarpið sýndi heimildamynd í gær þar sem fjallað er um smíði nýjasta herskips Dana. Það er smíðað í Póllandi, hjá Crist skipasmíðastöðinni, þeirri sömu og smíðar nýjan Herjólf. Í þættinum er fullyrt að norðurkóreskir verkamenn sem í raun séu í nauðungarvinnu líkt og 100.000 samlandar þeirra víða um heim, hafi komið að smíði herskipsins. Stjórnvöld þar í landi sendi æ fleira fólk úr landi til starfa, haldi fjölskyldum þeirra sem gíslum og öll launin renni til ríkisins.

Í myndinni kemur fram að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi lýst áhyggjum sínum af því að laun þessara verkamanna séu í raun notuð til að fjármagna kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu. Ruv.is greinir frá.

Vegagerðin gerði samning við pólsku skipasmíðastöðina Crist um miðjan janúar um smíði nýs Herjólfs. Smíði ferjunnar á að ljúka næsta sumar. Ríkiskaup sáu um útboðið og var tilboð Pólverjanna hagstæðast; 3,3 milljarðar íslenskra króna. 

Halldór Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa sagði í samtali við fréttastofu í dag að strax eftir undirritun samningsins hafi Ríkiskaup farið fram á vottorð og staðfestingu á því að ekki væru vinnuþrælar frá Norður-Kóreu í vinnu hjá fyrirtækinu.

Í svörum fyrirtækisins sem fréttastofa hefur undir höndum er fullyrt að skipasmíðastöðin noti aldrei þræla, allar ásakanir um slíkt séu ósannar og að engir verkamenn frá Norður-Kóreu hafi starfað við skipasmíðastöðina frá júlímánuði 2016, hálfu ári áður en skrifað var undir samning um smíði Herjólfs.

Halldór segist því ekki hafa nokkra ástæðu til að ætla að norðurkóreskir verkamenn komi að smíði nýs Herjólfs, en að í ljósi dönsku heimildamyndarinnar verði beðið um enn frekari staðfestingu á því að norðurkóreskir verkamenn hafi ekki komið og muni ekki koma að smíði Herjólfs.

 

Ruv.is

Sjá einnig: Skipasmíðastöðin sem smíðar nýjan Herjólf notar vinnuþræla

 

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is