Elliði Vignisson um samgöngmálin

Vill annan fund, síðar í maí

Fundaði með innanríkisráðherra um yfirtöku á rekstri Herjólfs. - Ráðherra jákvæður fyrir því að skoða málið af fullri alvöru

12.Maí'17 | 10:15

„Bæjarstjórn ræddi samgöngur á fundi sínum í gær, eins og hún gerir á nánast öllum sínum fundum. Þessi umræða var númer 117 síðan 2006.” segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í samtali við Eyjar.net. Tilefnið í þetta skipti var annarsvegar að ræða borgarafund þann sem fram fór í vikunni og hinsvegar að ræða þá ömurlegu staðreynd að Vestmannaeyjar skulu nú í fyrsta skipti þjónustaðar af bát sem ekki ræður við siglingar í Þorlákshöfn. 

Bæjarstjórn samþykkti síðan að gera ályktun borgarafundar að sínum enda þær efnislega í nánast fullkomnu samræmi við eldri ályktanir bæjarstjórnar, segir Elliði ennfremur.

Samstaða býr til kraft, sundrungin skaðar

„Borgarafundurinn á miðvikudaginn var prýðilegur og þeim sem að stóðu til sóma.  Fólk var málefnalegt og aðsóknin góð.  Það mikilvægasta fyrir mig og aðra sem erum í fremstu víglínu í baráttu fyrir bættum samgöngum var að fá fram sterka ályktun sem styður við okkar helstu kröfur.  Mér liggur nærri að kalla þetta aukið umboð í baráttunni.  Til dæmis má nefna að bæjarstjórn hefur verið að leggja sí aukinn þunga hvað varðar að heimamenn beri aukna ábyrgð hvað varðar til dæmis rekstur Landeyjahafnar og Herjólfs.  Þannig átti ég fund með Jóni Gunnarssyni fyrir rúmri viku þar sem ég gerði honum grein fyrir ályktunum bæjarstjórnar þess efnis.  Hann tók strax mjög vel í þessa hugmynd.  Það fylgir svo aukin kraftur í þessum viðræðum fyrir mig þegar borgarafundur styður undir og setur vind í seglin.  Það er nefnilega jafn gilt nú og áður að samstaða okkar hér heima skiptir sköpum.  Samstaðan býr til kraft en sundrungin skaðar.” segir bæjarstjóri.

Fólk vill ræða framtíðina frekar en að festast í söguskýringum og bölmóði

Ég fann sterkt á fundinum á miðvikudaginn að þótt fólki þætti sjálfsagt ágætt að heyra í sjónarmiðum þingmanns, bæjarstjóra, húsmóður og íbúa þá er annað sem brennur heitar á þeim.  Fólk vill ræða framtíðina en það er nokkuð sem ekki gafst nægt tilefni til á þessum fundi.  Það er nefnilega þannig að eins og ég hef í ótal skipti bent á þá kemur ekkert út úr því að við skömmumst hvert í öðru.  Þingmennirnir okkar vita jafn vel í dag og þeir vissu fyrir þennan fund að það þarf að lækka gjaldskránna, fjölga ferðum og ýmislegt fl. sem hægt er að gera í dag.  Mér fannst fundurinn mjög góður og nauðsynlegur undanfari að næsta fundi.  Nokkurskonar fyrri hálfleikur.

Byrjaður að undirbúa næsta fund, seinni hálfleik.

Það sem út af borðinu stendur er að ræða framtíðina.  Ræða hina nýja ferju, hvað hún á að geta gert og hverju hún á að geta breytt.  Við viljum líka beinar og milliliðalausar upplýsingar um hvaða vinna á að eiga sér stað hvað höfnina varðar.  Hvernig á að tryggja dýpi í innsiglingunni?  Hvernig á að draga úr ókyrrð innanhafnar?  Hvenær á að fara í frekari í rannsóknir á því hvernig hægt er að veita skipinu skjól í aðkomu hafnarinnar?  Fáum við að halda núverandi Herjólfi?  Þetta og margt annað vill fólk ræða og mitt fyrsta verk að afloknum þessum góða fundi á miðvikudaginn var óska eftir slíkum fundi og nú standa vonir til að slíkur fundur geti farið fram miðvikudaginn 24. maí. 

Það er kominn tími til að við sjálf hér heima hættum bölmóði og söguskýringum.  Við vitum öll hvernig ástandið er og hvernig það hefur verið og það þarf ekki endalaust að vera að lýsa vandanum.  Nær og mikilvægara er að horfa til þess hvernig við vinnum okkur út úr þessu.  Ályktun fundarins á miðvikudaginn er góð uppskrift að því.  Stöndum nú saman, rýnum til gagns og sameinumst í kröfunum, segir Elliði að endingu.

 

Bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn ræddi borgarafundinn sem fram fór í gær þar sem samþykktar voru eftirfarandi lágmarkskröfur til samgönguyfirvalda:

1. Að þegar siglt er til Landeyjahafnar skulu ávallt vera 6 ferðir á dag að lágmarki   alla daga ársins. 
2. Að þegar verði hafnar rannsóknir á Landeyjahöfn með það að markmiði að bæta innsiglingu hafnarinnar þannig að hægt verði að nýta höfnina sem heilsárshöfn. 
3. Að fargjöld til Þorlákshafnar verði þau sömu og til Landeyjahafnar. 
4. Að núverandi ferja verði áfram nýtt til fraktflutninga á milli lands og Eyja eftir að ný ferja kemur. Þá verði núverandi ferja einnig nýtt sem varaskip fyrir nýja ferju. 
5. Að ávallt verði ákveðinn fjöldi bílaplássa frátekin fyrir heimamenn fram að degi fyrir brottför. 
6. Að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna og hagnaður af rekstrinum verði nýttur til að lækka fargjöld, auka þjónustu og skili sér þannig beint til heimamanna. 

Bæjarstjórn lýsir yfir fullum stuðningi við þessa áherslupunkta enda þeir efnislega í samræmi við margítrekaðar samþykktir bæjarstjórnar.


Ályktunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.