Ásmundur Friðriksson skrifar:

Sanngjarnar kjarabætur til eldra fólks

25.Október'16 | 16:43
IMG_1392

Ásmundur Friðriksson

Í tæp þrjú ár starfaði svokölluð Pétursnefnd, sem kölluð er í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, að einföldun á bótakerfi eldra fólks og öryrkja. Nefndin skilaði af sér tillögum sem einfalda bótakerfið og hækka lífeyrir, tekur í burtu krónu á móti krónu skerðinguna og bætir í heild kjör eldra fólks verulega. 

Það skyggði þó á að öryrkjar tóku ekki þátt í lokaafgreiðslu málsins úr nefndinni og þess vegna fá öryrkjar ekki sambærilegar kjarabætur og einföldun á kerfi sínu eins og eldra fólk. Það er auðvitað mjög bagalegt og mikilvægt að forysta ÖBÍ komi strax að samningaborðinu að loknum kosningum og lokið verði við samninga við þá svo öryrkjar megi njóta sömu kjara og einföldunar á bótakerfinu eins og til stóð.

 

300 þúsund lágmarkslífeyrir

Með lögunum sem samþykkt voru í lok þings af ríkisstjórnarflokkunum eru eldra fólki tryggðar mestu kjarabætur í áratugi með kerfisbreytingum á almannatryggingakerfinu. Minnihlutinn í þinginu gat ekki stutt kjarabæturnar og sat hjá við afgreiðslu laganna.

 

Með samþykktinni verður almannatryggingakerfið einfaldara og gagnsærra, sanngjarnara og skiljanlegra. Mikilvægustu áherslur nýrra laga utan kerfisbreytingarinnar eru;

  • 300 þúsund króna lágmarksbætur einstaklinga frá og með 1. janúar 2018
  • Frítekjumark, 25.000 kr. óháð tegund tekna tryggt
  • Bótaflokkar sameinaðir.
  • „Króna á móti krónu“ skerðingin er afnumin.
  • 45% skerðingahlutfall allra tekna gagnvart  greiðslum almannatrygginga.

Frumvarpið felur í sér afar jákvæðar breytingar og kerfisbreytingin skilar eldra fólki kjarabótum, en þessi hópur fólks á þessar kjarabætur svo sannarlega inni. Þá er mikilvægt skref stigið með því að frítekjumark er nú sett á allar tekjur, atvinnutekjur, lífeyri og fjármagnstekjur og sama skerðingarhlutfall gagnvart lífeyri Tryggingastofnunnar sem er 45%. Hér er um að ræða mjög sanngjarna leiða að gera ekki mismun á þeim tekjum sem fólk aflar sér. Stærsti kosnaður við kerfisbreytinguna og hækkanir koma til framkvæmda strax um áramótin og nemur heildarkostnaður vegna þeirra 10.800 milljónum, 10,8 milljörðum króna.

 

Liprara og sveigjanlegra kerfi

Eitt af helstu verkefnum Pétursnefndarinnar var að gera lífeyriskerfið sveigjanlegara og nú má frá og með áramótum fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs, rétt eins og flýta má lífeyristöku, en þó er það ekki hægt fyrir 65 ára aldur.  Bæði frestun og flýtir lífeyristöku hafa varanleg áhrif á fjárhæð lífeyrisins. Byrji fólk að taka hann snemma er upphæðin lægri, en hækkar sé hann tekinn síðar. Sá sem á rétt á ellilífeyri frá lífeyrissjóði getur tekið hálfan lífeyri, en frestað töku hins helmingsins, sem þá hækkar í samræmi við reglur viðkomandi lífeyrissjóðs. Samhliða lífeyristöku að hluta má  sækja um hálfan lífeyri frá almannatryggingum.

Á sama tíma er gert ráð fyrir að lífeyrisaldur hækki úr 67 ára í 70 ár. Þessu til viðbótar var frumvarp um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,  sem unnið var í framhaldi af samstarfi aðila vinnumarkaðarins um að stuðla að samræmingu réttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði,  afturkallað á síðustu stundu vegna ósættis hjá opinberum starfsmönnum. Lífeyrisréttindi eru einn mikilvægasti þátturinn í slíkri samræmingu og verður það brýnasta verkefni nýs þings að ljúka málinu fyrir næstu áramót svo koma megi einni mikilvægustu kjarabót allra tíma í framkvæmd.

 

Dæmi um kjarabætur eldra fólks

Með nýju lögunum verður eins og áður hefur komið fram einn ellilífeyrir sem verður 227.883 kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2017. Hjón fá því samtals tvöfalda þá upphæð, alls 455.766 kr. Þeir sem búa einir fá því til viðbótar heimilisuppbót, sem verður 52.117 kr. á mánuði. Þetta þýðir að heildargreiðslur til þeirra sem lægstar bætur hafa verða 280 þúsund í byrjun næsta ár og 300 þúsund frá 1. janúar 2018.

Dæmi um hjón þar sem eiginkonan er með 100 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði, en eiginmaðurinn hefur 150 þúsund í lífeyristekjur.

Heildartekjur þessara hjóna með ellilífeyri og að teknu tilliti til teknanna verða 15% hærri í byrjun næsta árs. Hækkunin nemur 81 þúsund krónum á mánuði eða tæpum 978 þúsund krónum á ári. Það munar um minna.

Annað dæmi af einstaklingi sem býr einn.  Hann gæti verið 70 ára og fær 52.117 kr heimilisuppbót og er með 50 þúsund í atvinnutekjur og 50 þúsund í lífeyrisgreiðslur.

Heildartekjur hans munu hækka um 42%. Það eru rúmlega 70 þúsund á mánuði eða 840 þúsund á ári. Í upphafi árs 2018 verða tekjur hans tæplega 1,1 milljón króna hærri á ári en nú er.

 

Gott skref til betri kjara

Með þessum lögum eins og hér er lýst er það klárt að kjör eldra fólks eru að batna verulega og kerfið að auki einfaldara, gagnsærra og skírara á allan hátt. Það er mikilvægt að einfalda flækjustigið um leið og við bætum kjörin. Við eru þó sammála um að við ætlum að halda áfram á sömu braut, og taka næstu skref til bættra kjara á næsta kjörtímabili. Heilbrigðiskostnaður mun lækka á næsta ári þegar 60.000 kr. þak kemur á greiðslu sjúkrakostnaðar og næsta skref er að taka lyfjakostnað inn í þá mynd og gera enn betur.

 

Við fögnum hverju skrefi og sýnum í verki að við viljum halda áfram að bæta kjör eldra fólks og öryrkja sem nú verða að koma að samningaborðinu svo þeir njóti líka þeirra bættu kjara sem þeim ber.

 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

 

-höfundur skipar 2.sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...