Draumasveitarfélagið:

„Mikil viðurkenning fólgin í því að vera efst á lista"

- segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.

24.Október'16 | 09:59

Líkt og við greindum frá fyrir helgi var Vestmannaeyjabær valið draumasveitarfélagið þegar metinn er fjár­hags­legur styrkur sveit­ar­fé­laga. Um er að ræða árlega úttekt Vísbendingar. Eyjar.net ræddi þessa viðurkenningu við Elliða Vignisson bæjarstjóra.

„Auðvitað er mikil viðurkenning fólgin í því að vera efst á lista sveitarfélaga þar sem þeim er raðað niður eftir rekstrarstyrk.  Staðreyndin er nefnilega sú að góður rekstur og góð þjónusta er sitthvor hliðin á sama peningnum.  Á undanförnum árum höfum við kappkostað að tryggja stöðu okkar til langs tíma í stað þess að kaupa vinsældir tímabundið.  Við höfum nánast greitt niður öll lán og skuldbindingar sveitarfélagsins, straumlínulagað rekstur og hagrætt með það fyrir augum að efla þjónustu við bæjarbúa til langs tíma.  Þetta er ekki alltaf auðvelt og stundum gleymist að forsenda allrar þjónustu er að sveitarfélagið sé vel rekið." segir Elliði.

Gátum aukið sérstaklega þjónustu við okkar helstu þjónustuþega

„Það kom mér ekkert sérstaklega á óvart að við skyldum mælast sterk hvað rekstrarstöðu okkar varðar þetta árið þótt ég hafi nú ekki sérstaklega átt von á því að við yrðum í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að hljóta viðurkenningu sem draumasveitarfélagið.  Við höfum verið með mjög trausta tekjustofna og hagræðingaraðgerðir seinustu ára, eins og að losa okkur undan oki Fasteignar, hefur skilað sér í traustari stöðu.  Vegna þessa var okkur mögulegt að auka verulega þjónustu við bæjarbúa eins og ákvörðun var tekin um fyrr á þessu ári.  Við höfum því haft þau forréttindi að geta aukið sérstaklega þjónustu við okkar helstu þjónustuþega svo sem barnafjölskyldur, aldraða og fatlaða. Í því samhengi má til að mynda nefna ákvörðun um heimagreiðslur til foreldra barna undir 18 mánaða aldri, fjölgun leikskólaplássa, niðurgreiðslur til dagmæðra, frístundakort, byggingu nýrrar deildar við Hraunbúðir fyrir fólk með Alzheimer, fjölgun hjúkrunarplássa við Hraunbúðir, fjölgun þjónustuíbúða fyrir aldraða, byggingu 4 til 6 íbúða fyrir fatlaða og margt annað má til telja.  Þetta hefði ekki verið hægt nema vegna þess að reksturinn stendur sterkt.  Á sama tíma höfum við getað haldið áfram að styrkja innri gerð samfélagsins með það fyrir augum þróa samfélagið og bregðast við breytingum í atvinnulífinu.  Þannig höfum við getað komið að uppbyggingu á Þekkingarsetri Vestmannaeyja, stutt við bakið á nýju háskólanámi, byggt upp stoðkerfi ferðaþjónustu eins og með Eldheimum og nýja útisvistarsvæðinu við sundlaugina svo eitthvað sé til talið." 

Full ástæða að vera á varðbergi

Þá segir bæjarstjóri að það samt sé eftir sem áður full ástæða fyrir okkur Eyjamenn að vera á varðbergi.  Sterk staða kemur og fer og það er ekki á vísan að róa.  Þetta er því hvatning fyrir okkur að gera enn betur og tryggja að við getum hér átt draumasamfélag til langs tíma.

Eyðum ekki orkunni í að takast á innbyrðis

„Það er mín bjargfasta afstaða að Vestmannaeyjar séu frábært samfélag að búa í, svo fremi sem við eyðum ekki orkunni í að takast á innbyrðis.  Það er fráleitt þegar upp kemur einhver neikvæðni bylgja sem gengur út á að ekki megi tala um það sem betur má fara.  Auðvitað bæði má og á að tala um hvað betur má fara, en við gerum ekkert annað en að skaða okkur sjálf ef við rífum um leið niður það sem vel er gert.   Við vitum öll að það sem upp á vantar hér í Eyjum er fyrst og fremst að ríkið sinni þeirri lágmarkskröfu að tryggja okkur Eyjamönnum boðlegar samgöngur og heilbrigðisþjónustu.  Þá fyrst getum við sagt að Vestmannaeyjar séu alvöru draumasamfélag." segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri að endingu.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.