Ásmundur Friðriksson skrifar:

Hjálp

Eða er ekkert í þessu fyrir mig?

26.Júní'16 | 22:10

Þjóðin er að fagna sigrum á öllum vígstöðvum og við syngjum hástöfum nýja „þjóðsönginn“ Er völlur grær og vetur flýr. Birtan og gróðurinn sigra myrkrið og kuldann á sólstöðum og völlur grær og vetur flýr.

Landsliðið í knattspyrnu þjappar okkur öllum saman í sigurvímu sem þjóðin er þátttakandi í og í hálfleik fögnum við nýjum forseta. Óskum honum og fjölskyldu hans góðs gengis í nýju verkefni.

 

Get ekki lýst ástandinu.

Þrátt fyrir alla gleðina í þjóðfélaginu renna tár vonleysis þar sem sterk fíknin leggst svo þungt á foreldra og fjölskyldur fíkla að þau eru að bugast á sama tíma og þjóðin öll spratt á fætur til að fagna frábærum sigri á EM í fótbolta. Það er löng leið frá grænum völlum Frakklands í Konukot, Skýlið eða runna við Kjarvalsstaði þar sem lítil sál sefur úr sér vímuna, sundurbarin í blóðugum fötum og líkaminn er fullur af ólæknandi kvillum en fíknin svo sterk að engu tauti er viðkomandi. Heima sitja foreldrarnir, afinn og amman með barnabarnið sem má engan tíma missa í undirbúningi að farsælu lífi. Þátttaka í knattspyrnumótum um allt land setur afann og ömmuna á sama stað og fyrir 35 árum síðan, keyrandi á milli tjaldstæða og undirbúa ömmustrákinn fyrir næsta mót. Það er mikil ábyrgð að vera pabbi og mamma, afi og amma, fjölskylda. Halda andlitinu heima með barnabarnið þegar síminn hringir og fréttir „úr hinum heiminum“ af barninu berast. Svo svakalegar að það er ekki hægt að setja sig í þessi spor og ég reyni ekki að lýsa ástandinu. Þetta er sagan sem ég fékk að heyra í símtali þegar hjartað var að ná jafnvægi eftir sigurmarkið á þriðjudaginn. Ein saga af mörgum og ég hef hugsað lítið um annað síðan og reyni stöðugt að setja mig í spor góðra vina, en get það ekki og grúfi andlitið í blautan koddann til að sofna. Stutt frétt úr langri sögu þar sem kerfið er vanmáttugt og fjölskyldan oftast ein að berjast áfram án þekkingar eða verkfæra til lækninga.

 

Rennur ábyrgð foreldranna aldrei út?

Ég var að koma úr sunnudagsheimsókn á Heilbrigðisstofnun á dögunum þegar eldri kona vindur sér að mér í anddyrinu og þakkar fyrir að fá að hitta þingmanninn sinn. Hún hallar sér að mér og ég tek utanum hana um leið og gráturinn tekur völdin. Hún var að leita læknis vegna vandamála sonar síns en fann mig. Við gengum saman út og hún sagði mér söguna löngu og erfiðu. Sonurinn á sextugs- eða sjötugsaldri, óreglumaður sem hafði dvalið í hegningarhúsinu síðust nætur og á sunnudagsmorgni var hringt í aldraða foreldrana og þau beðin að sækja drenginn sinn. Ég sem hélt að slíkar hringingar ættu bara við með börn undir lögaldri. Lögreglan í Reykjavík vildi ekki lengur skjóta undir hann skjólshúsi, meðferðastofnanir vildu ekki taka við honum, Gistiskýlið eða önnur sambærileg úrræði voru honum lokuð. Kjarrið við Kjarvalsstaði vildi hann ekki, þjóðfélagið gafst upp á vandamálinu og hringdu í aldraða foreldrana sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Mér datt í hug hvort ábyrgðin rynni aldrei út? Í bíl fyrir utan sat óttasleginn og boginn faðirinn en í aftursætinu sat svo illaútlítandi vera að mér fannst hún vart af þessum heimi. Ég reyni ekki að lýsa því ástandi. Þetta var á sunnudagsmorgni sem samfélagið gafst upp á verkefninu og sendi „drenginn“ aftur í hendurnar á mömmu og pabba. Þau eru líklega nær áttræðu.

Ég reyndi allt, hringdi og leitaði ráða og endaði með því að senda þau með hann á Deild 33 á Landspítalanum. Þau keyrðu aftur til Reykjavíkur en þar var þeim neitað um hjálp þar sem ekki var hægt að svifta hann frelsinu og lendingin var að fara heim. Sorgleg niðurstaða hvernig brugðist er við. Ekki endilega ógæfusömum einstaklingi heldur öldruðum foreldrum sem eiga að leysa óleysanlegan vanda. Ég fylgdist með næstu daga og vikur með símtölum. Eina ráðið var að fara í ríkið á hverjum degi og kaupa eina flösku, halda vandamálinu í skefjum sem kostaði þau 50,000 kall á viku. Hvað áttu ráðþrota foreldrar að gera?

 

Birtum myndir af „Fjölskylduhryðjuverkamönnum“

Sölumennirnir sem standa efst í píramídanum og selja dóp dauðans, sleppa. Þeir hagnast á læknadópinu sem drepur og stráfellir unga fólkið. Gamlir neytendur segja ekki einu sinni til þeirra, það ríkir algjör þögn um þennan glæpalýð. Þingið með Pírata í broddi fylkingar og Persónuvernd ganga svo langt að það skal verja alla eins lengi og langt og hægt er. Það má ekki taka sjálfræðið af fólki þó það sé í orðsins fyllstu merkingu að drepa sjálft sig og foreldra sína. Af hverju má ekki grípa inní þegar fólki er algjörlega ósjálfrátt í neyslu og fíkn. Og hvers vegna að verja sölumenn dauðans með persónuverndarsjónarmið í huga? ÉG vil fá myndir af þessum „Fjölskylduhryðjuverkamönnum“ og hengja þær upp á öllum ljósastaurum í landinu. Byrjum þar og sjáum hvort við náum árangri í að minnka framboð á eiturlyfjum og bjarga mannslífum.

 

Er eitthvað í þessu fyrir mig?

Ég get ekki hætt að hugsa um þessa reynslu mína á liðnum vikum núna þegar gleðin ræður ríkjum í þjóðfélaginu og glansmyndirnar aldrei stærri. Við sem endalaust heimtum, betri kjör, hærri laun og meiri kaupmátt sjáum ekki út fyrir þægindaramman. Gætum við hætta að hugsa um okkur sjálf um stund og hugsa um stöðu þeirra sem eiga enga möguleika í samfélaginu. Sameinast um að bæta stöðu þeirra og fjölskyldna sem vita ekki sitt rjúkandi ráð. Fjölskyldurnar eru ekki bara þessar tvær sem ég minnist á, þær skipta hundruðum í landinu. Eða er kannski ekkert í þessu fyrir okkur? Er það kannski staðan í þjóðfélaginu að engin geri neitt nema það sé „eitthvað í þessu fyrir mig.“

Njótum áframhaldandi velgengni og vinnum stóra sigra, þjóðfélagið þarf á því að halda. En við megum aldrei gleyma eða missa sjónar af því að okkar veikustu systur og bræður þurfa á aðstoð samfélagsins að halda og vernd fyrir ógninni sem felst í fíkninni sem óvandaðir aðilar gera sér að féþúfu.

Hugsum um orðin í nýja „þjóðsöngnum“ og látum þau rætast þegar við tökum undir og hvetjum knattspyrnuliðið okkar til enn frekari dáða. Þá gætu líka unnist sigrar hjá þeim sem eru á kantinum í þjóðfélaginu í dag.

Við byggjum saman bæ í sveit

Sem blasir móti sól.

Þar ungu lífi landið mitt

Mun ljá og veita skjóla.

 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.