Georg Eiður Arnarson skrifar:

Sjómannadagurinn 2016

30.Maí'16 | 06:23
einsi-kaldi-8882

Georg, hér á bryggjuspjalli við Einsa Kalda

Sjómannadagshelgin fram undan og því rétt að fara yfir fiskveiðiárið að venju. Þetta er 29. fiskveiðiárið sem ég geri út hér í Eyjum og það lang, lang erfiðasta.

Tíðin hefur reyndar verið mjög góð og nóg af fiski í sjónum, en eins og ég hef áður sagt í greinum um sjávarútvegsmálin, þá eru inngrip núverandi ríkisstjórnar með því verra sem ég hef upplifað.

Eins og ég spáði fyrir um, þá hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leyfa stækkun krókaaflamarks báta gert það að verkum að slagurinn um kvótann hefur aldrei verið meiri, auk þess sem stórútgerðin er komin með áhuga á króka kerfinu og er byrjuð að kaupa það upp.

Færsla veiðigjalda frá og með 1. sept. sl. frá úthlutuðum aflaheimildum yfir í landaðan afla hefur nánast algjörlega gert út af við alla leiguliða og ótrúlegt, að þeir sem hafa mest út úr kvótanum í dag séu þeir, sem eru hvað harðastir í að spila á kerfið.

Það er einnig ljóst að hrunið á mörkuðum Íslendinga í Nígeríu hefur  haft mikil og slæm áhrif og leitt til verulegrar lækkunar á fiskmörkuðum, en svona til gamans fyrir þá sem ekki þekkja til hvernig dæmið lítur út í dag með þorskkvótann og leiguliðann, þá er leiga á þorsk kílóinu rétt tæplega 230 kr (af því greiðir eigandinn af kvótanum ekkert til ríkisins). Veiðigjaldið sem leiguliðinn þarf svo síðan að skila til ríkisins eru tæpar 17 kr og með sölukostnaði inni á markaði, þá er er ljóst að kostnaður leiguliðans við að veiða og landa einu þorsk kílói er í kringum 250 kr, en þá á leiguliðinn að sjálfsögðu eftir að borga sinn eigin kostnað við að veiða þetta kíló. Veruleikinn er síðan sá, að meðalverð á þorski á fiskmörkuðunum á vertíðinni er ekki nema rétt í kring um 250 kr.

Í febrúar sl. mætti þáverandi sjávarútvegsáðherra á fund til Eyja og ég náði honum á eintal eftir fundinn og spurði hann ma. þessara spurninga:

Hvers vegna ertu búinn að færa veiðigjöldin yfir á leiguliðana?

Svar: Ég hef ekki gert það,

Þessu svaraði ég þannig:

En þú færðir veiðigjöldin yfir á landaðan afla.

Svar: Það er reyndar rétt.

Þá spurði ég: Ertu ekki hræddur um að veiðigjöldin verði til þess að brottkast á verðlausum fiski aukist verulega?

Svar: Nei, það er bannað með lögum, en það er leiðinlegt að heyra ef svo er.

Þessi fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands er núna forsætisráðherra Íslands.

Það er frekar dapurlegt að fylgjast með hvernig starfsumhverfi sjómanna hefur þróast síðustu árin. Skipin stækka, sjómönnum fækkar og sjómenn sem að ráða sig í pláss hjá útgerðum með litlar aflaheimildir, þurfa orðið oft að sætta sig við það, að um leið og þeir eru búnir að fá ráðningarsamninginn, þá fá þeir oft uppsagnarbréfið, sem miðast þá við að búið sé að veiða aflaheimildir útgerðarinnar. Ekki beint spennandi framtíð þar.

Þetta erfiða ár hefur gert það að verkum að áhugi minn í að starfa í útgerð hefur minnkað stórlega, auk þess sem að núna í maí kom að því, sem ég vissi alltaf að kæmi að fyrr eða síðar, að ég yrði sjálfur að fara í slipp. Ég get ekki svarað því í dag, hvort ég hreinlega leggi það á mig að hefja aftur róðra með haustinu, þökk sé kvótakerfinu og núverandi ríkisstjórn.

En þar sem kosningar eru nú fram undan og sumir flokkar eru farnir að tala um breytingar á kvótakerfinu, og sjálfur veit ég ekkert hvað ég á að kjósa í haust, þá langar mið að koma með smá hugmynd um það, hvernig stefnu og tillögur ég t.d. gæti hugsað mér að styðja og kjósa og það meira að segja þrátt fyrir að ég myndi sjálfur ekki nenna að starfa í slíku kerfi, en það eina jákvæða sem við sjáum í Íslenskum sjávarútvegi i dag og m.a. hér í Vestmannaeyjum er, að bátum í strandveiðum fjölgaði í vor. Reyndar fengu strandveiðibátar í D svæði ekki góða sendingu frá ríkisstjórninni, enda voru aflaheimildir í D svæði, eina svæðið þar sem þær voru minnkaðar.

En hvað hefði ég viljað sjá koma frá framboði næsta haust?

Ég hefði viljað sjá strandveiðitímabilið lengt um helming og t.d. hér í Vestmannaeyjum yrði það mjög vinsælt hjá strandveiðimönnum ef tímabilið stæði frá 1. jan og út ágúst. Veðurfarið er náttúrulega mjög erfitt oft á þessum vetrar mánuðum, en það vandamál væri t.d. hægt að leysa þannig, að hver bátur fengi úthlutað 3 veiðidögum á viku, sem þeir gætu valið sjálfir, sem myndi svo minnka hættuna stórlega á því að menn taki áhættuna á því að róa í slæmum veðrum.

Einnig teldi ég mjög sterkt til þess að auka líkurnar á því, að menn gætu farið langt með að lifa á þessu yfir árið, að aflinn yrði aukinn upp í 1 tonn af þorskígildi í róðri. Augljóslega, að mínu mati, myndi þetta gera það að verkum að möguleikar landsbyggðarinnar myndu aukast verulega. Að sjálfsögðu myndi öll stórútgerðin verða alveg brjáluð gegn öllum slíkum hugmyndum, en þá kemur einmitt, að mínu mati, að lykilatriðinu í hugmyndinni. Ég tel nú þegar verið orðnar það miklar skekkjur í flestum fiskistofnum á Íslandsmiðum, að það sé einfaldlega pláss fyrir svona kerfi og það þrátt fyrir að það færi jafnvel yfir 20 þúsund tonn, að það væri óhætt að hafa þetta kerfi utan úthlutaðra aflaheimilda, enda er ég algjörlega á móti öllu bulli um einhverja potta eða uppboð á öllum aflaheimildum eða einhverju slíku bulli.

Gleymum því ekki að auðlindin er sameign þjóðarinnar. Það þarf að gera ákveðnar breytingar á kerfinu en það er ekki sama hvernig.

Ég auglýsi hér með eftir stjórnmálaflokki eða hreyfingu, sem er tilbúin að vinna eftir svipuðum hugmyndum sem þessari og ég mun svo sannarlega styðja við og kjósa slíkt framboð.

Óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar sjómannadagshelgar.

 

Georg E. Arnarson

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).