Áskorun til innanríkisráðherra:

Fáum óháða aðila til að gera úttekt á Landeyjahöfn

og koma með tillögur um bætta aðkomu að höfninni

13.Febrúar'16 | 14:48

Ég hef lengi haldið því fram að hvorki núverandi smíðanefnd eða forverar þeirra hjá Siglingastofnun gæti sett upp í siglingahermum raunöldu við Landeyjahöfn og er þá sama hvort um er að ræða fullkominn Forshermi eða vatnstankasiglingahermi. Hafa þessir aðilar jafnan komið sér undan að svara mér með þetta, þegar eftir því er leitað.

Á fundi síðastliðið haust (15.10.2015) með smíðanefndinni og bæjarstjórn Vestmannaeyja viðurkenndi smíðanefndin fyrst að þeir gætu ekki sett upp raunöldu við Landeyjahöfn heldur einungis raunöldu eins og er fyrir utan rifið við Landeyjahöfn.

Yfirskipaverkfræðingur að nýrri ferju og smíðanefndin fullyrtu að þeir gætu brúað þetta bil, það er að segja frá rifinu og að hafnarmynninu með hundruðum mynda og myndbanda teknum úr landi, úr þyrlum og flugvélum og einnig með upplýsingum úr radarnum sem er í höfninni.

Með þessum upplýsingum gætu þeir fundið út hvernig nýja ferjan kæmi til með að bregðast við þeim brotöldum sem koma á rifinu og að hafnarmynninu. Þeirra samhljóða niðurstaða væri sú að nýja ferjan gæti siglt með öryggi í 3,5m kenniöldu skv. duflum utan við Landeyjahöfn.

Á áðurnefndum fundi spurði undirritaður Jóhannes Jóhannsson skipaverkfræðing smíðanefndarinnar að eftirfarandi:

„Þar sem fólk á erfitt með að skilja muninn á kenniöldu og raunöldu, en allflestir Vestmannaeyingar kunna að fara inná vef Vegagerðarinnar og skoða ölduduflin við Landeyjahöfn. Í framhaldi af því til að hafa þetta einfalt og þannig að allir skilji þetta rétt.

Þegar ölduduflin við Landeyjahöfn sýna 3,5m öldu þá er semsagt fært fyrir nýju ferjuna?“

Svar skipaverkfræðingsins var mjög skýrt „JÁ, ÞAÐ ER RÉTT SKILIГ og tók formaður smíðanefndar undir með honum og ekki kom nokkur athugasemd frá öðrum í smíðanefndinni við þetta svar skipaverkfræðingsins.

 

Ekki samræmi í svörum

Stuttu eftir þennan fund hafði blaðamaður Eyjar.net samband við mig og bað mig um að setja upp spurningu fyrir sig um öldu af SA og með vind uppá 20m/s í 3,5m samkvæmt duflinu fyrir utan Landeyjahöfn.

Sett var upp dæmi sem rúmast vel innan þeirra marka þegar duflin sýna  3,5m öldu. Fulltrúi Vegagerðarinnar sagði þessar spurningar þess eðlis að erlendu ráðgjafarnir yrðu að svara þeim. Skemmst er frá því að segja að svarið sem barst er í engu samræmi við fyrri yfirlýsingar skipaverkfræðingsins og smíðanefndarinnar.

Svar erlendu sérfræðinganna sem setja upp prófanir í Forsherminum og vatnslýkanunu voru á ensku, en í íslenskri þýðingu eftirfarandi:

„Svarið við spurningunni er sú að þetta hefur ekki verið reynt í herminum eða reiknað hvorki fyrir Herjólf eða nýju ferjuna, þannig að það er ekki hægt að svara spurningunni. Þetta yrðu því meira pólitísk svör en raunveruleg svör!“

Þetta stangast algerlega á við fullyrðingar smíðanefndar og skipaverkfræðingsins, það er að segja að  þetta hefur aldrei verið prófað eða reiknað út! Allaveganna ekki í herminum eða vatnslíkaninu?

Þannig að það er ekki hægt að svara þessari spurningu nema sem einskonar pólitísku svari?

 

Svör óskast

Í beinu framhaldi af þessu þá spyr ég nú forsvarsmann bæjarstjórnar Vestmanneyja hvort hann hafi þetta pólitíska svar? 

Einnig spyr ég innanríkisráðherra hvort hún hafi þetta pólitíska svar, þar sem hún ber pólitíska ábyrgð á smíðanefndinni og málaflokknum í heild sinni?

Fulltrúi smíðanefndar svaraði þessari spurningu á þessa leið:

„Styttri útgáfa af ferjunni hélt stefnu vel í siglingaherminum en lenti í erfiðleikum með dýpið en þá við svipaðar aðstæður og þú ert að spyrja um.“

Fulltrúi smiðanefndar bað um nafnleynd og veit ég því ekki hver af þeim svaraði!

En spurningar mínar til smíðanefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Hvernig og einnig hverjir settu þá upp þessar viðbótar upplýsingar frá myndum-myndböndum og upplýsingum úr radarnum?
  • Einnig hvar var þetta gert fyrst það var ekki í dönsku siglingahermunum?
  • Eða voru þessar upplýsingar ekki notaðar til að brúa bilið frá rifinu að hafnarmynninu, eins og haldið var fram á fundinum góða?

Það liggur fyrir að erlendu ráðgjafarnir kannast ekki við að hafa sett upp þessa öldu né reiknað þetta út á nokkurn hátt, sem þó er innan marka 3,5m öldu á duflinu við Landeyjahöfn sem smíðanefndin fullyrðir að verði fært fyrir nýju ferjuna.

Þetta uppsetta dæmi er ekki óeðlileg á neinn hátt, heldur er þessi öldustefna og ölduhæð einnig öldulengdirnar mjög vanalegar, þegar duflin sýna 3,5m ölduhæð. Hvernig ætlar smíðanefndin að standa við þá fullyrðingu að þegar duflin við Landeyjahöfn sýna 3,5m öldu sé fært fyrir nýju ferjuna?

Þetta er lykilatriði og  lagt  til grundvallar frá upphafi sem forsenda fyrir nýrri ferju og þeirri samgöngubót sem hún á að tryggja okkur Vestmanneyingum. Það er ábyrgðarhluti að halda að okkur fullyrðingum sem þessum,  ef þær eru ekki á rökum reistar.

Það er ekki einungis verið að vekja upp falskar væntingar um bættar samgöngur, sem við þurfum sannarlega á að halda, en ef ferjan stenst ekki ykkar fullyrðingar sitjum við uppi með litla ferju og verri aðbúnað til siglinga yfir vetrartíman næstu 15 til 20 árin. 

Er ekki komin tími til að þeir sem  bera pólitíska ábyrgð á þessu máli hlusti eftir þeim fjölmörgu  rökstuddu ábendingum og athugasemdum um ágæti þessarar leiðar sem Vegagerðin er að fara í þessu máli?

 

Skipstjórar sammála um að vandi Landeyjahafnar verður ekki leystur með nýrri ferju

Landeyjahöfn verður sex ára í sumar. Strax fyrsta haustið varð öllum ljóst að það yrði að gera úrbætur að aðkomu hafnarinnar til að höfnin gæti þjónað sínum tilgangi. Allir skipstjórar sem hafa unnið við þessa höfn eru sammála um að vandi Landeyjahafnar verður ekki leystur með nýrri ferju.

Vandamál Landeyjahafnar liggja fyrst og fremst í aðkomu að höfninni, brjóta niður úthafsölduna til að tryggja örugga siglingu skipa inní höfnina. Hafa menn bent á þekktar aðgerðir til að brjóta niður ölduna, en Siglingastofnun og nú Vegagerðin hefur verið á móti öllum slíkum hugmyndum.

Eins og áður sagði þá verður höfnin sex ára í sumar og engar hugmyndir í gangi varðandi að laga aðkomu að höfninni. Reyndar það nýjasta frá Vegagerðinni í þessum efnum að það taki að lámarki 5 - 7 ár að reikna það út hvernig og þá hvort að hægt verði að laga aðkomuna að höfninni!

Það er búið að eyða bráðum sex árum í það að horfa á þetta vandamál sem allir eru sammála um að þurfi að laga, enn ekkert gert vegna tregðu frá Vegagerðinni.  Er ekki mál að linni?

Ég skora á innanríkisráðherra að fá óháða aðila til að gera úttekt á fyrirliggjandi gögnum um Landeyjahöfn og koma með tillögur um bætta aðkomu að höfninni. Setja nýsmíðina til hliðar á meðan á úttektinni stendur.  Bráðann vanda í samgöngummálum Vestmanneyinga getum við leyst með leigu á afkastameiri ferju en núverandi Herjólfur.

 

 

Virðingarfyllst.

Sveinn Rúnar Valgeirsson

Skipstjóri á Lóðsinum

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).