Halldór Bjarnason skrifar:

Ágætu Vestmannaeyingar smá upprifjun á sannleikanum

2.Febrúar'16 | 13:15

Enn og aftur eru samgöngumál okkar í umræðunni seinustu vikurnar það er kannski ekkert skrítið því að það hefur ekkert gerst í þeim málum seinustu fimm árin.

Kjörnir fulltrúar segja að hér séu öfl að reyna stoppa smíði á nýju skipi sem ég segi að sé alrangt. Það vilja allir nýtt skip samanber ítarlega skoðanakönnun Eyjar.net á seinasta ári og núna könnun bæjaryfirvalda. Þetta er einungis spurning um forgangsröðun.

Undirritaður er í hópi manna sem kalla sig horft til framtíðar og við höfum fengið á okkur ótal nöfn frá því að vera niðurrifsöfl til reiðra miðaldra karla. Til að forðast misskilning skal það tekið fram að við erum ekki á móti nýsmíði nema síður sé. Árið 2013 héldum við einn fjölmennasta borgarafund sem haldin hefur verið í Vestmannaeyjum um samgöngumál. Þar var samþykkt krafa fundarins, sem var:

  1. Endurskoðun á hönnun og frágangi Landeyjahafnar til öruggra siglinga verða sett í forgang og lokið sem allra fyrst.
  2. Hönnun Landeyjahafnar verði það vel úr garði gerð að frátafir verði ekki meiri en siglingar í Þorlákshöfn.
  3. Þarfir Eyjamanna og flutningsgeta sitji í fyrirrúmi við hönnun farþegaferju en ekki stærð Landeyjahafnar.
  4. Að farþegaferjur á Íslandi verði skilgreindar sem þjóðvegur hluti af þjóðvegarkerfi landsins.

Ég tel rétt að rifja þetta upp til að fólk átti sig á því hverjar áherslur okkar séu. Það er ótrúlegt að menn geti lesið út úr þessu að við séum á móti smíði á nýju skipi. Meira að segja hafa 9 skipstjórar af skipum sem hafa og eru við vinnu við Landeyjahöfn skrifað undir áskorun til innanríkisráðherra um að hún veiti þeim viðtal um þessi mál. Ekki er undirituðum kunnugt um að því hafi verið svarað.

Eins og kemur fram í kröfu fundarins á sínum tíma höfum við verið að berjast fyrir því að Landeyjahöfn verði löguð. Er þá ekki best að hlusta á tillögur skipstjórnarmanna  því það eru þeir sem eiga að sigla þangað. Nú hefur Vegagerðin sagt að það þurfi 5-7 ára rannsóknir um hvort það sé hægt að laga höfnina en það tók hana ekki nema 2-3 ár að segja okkur að það væri ekkert mál að búa til höfn á þessum stað. Í dag vita allir að þetta voru tóm ósannindi þannig að fólk treystir ekki þessum svokölluðu sérfræðingum að sunnan “SAS”.

Það voru margir búnir að vara þá við að gera höfnina svona en þeir hlustuðu ekki, og þeir sem höfðu uppi varnaðarorðinn voru úthrópaðir sem niðurrifsmenn.

Nú er hið  sama að gerast. Það á að kosta til  4-5 milljörðum í smíði nýrrar ferju, enn eina tilraunina, þrátt fyrir álit skipstjórnarmanna. Er ekki komið nóg eigum við ekki að fá aðra sérfræðinga að málinu?

Einnig er dapurlegt að bæjarstjórn Vestmannaeyja skuli vera þáttakandi í þessum skollaleik og notar til þess vægast sagt furðulegar aðferðir saman ber svokallaða skoðanakönnun sem Gallup “framkvæmdi”.

Það er hægt að leigja ferju samanber grísku ferjuna sem bent hefur verið á. Hún tekur 1000 farþega og 170 bíla og vinnudjúprista hennar er 3,2 metrar. Þessir sömu sérfræðingar og fara með framkvæmdir í Landeyjahöfn hreinlega lugu að ráðamönnum að það kostaði svo mikið að breyta henni og hafnarmannvirkjum að það borgaði sig ekki að taka hana á leigu (ekki þurfti að breyta hafnarmannvirkum þegar ST OLA leysti Herjólf af en hann var með fastan losunar ramp).

Þá hafa sérfræðingarnir einnig haldið því fram að ekki séu til nein skip sem hægt sé að leigja og geta siglt í Landeyjahöfn, trúlegt?

Það tók ekki langan tíma að finna grísku ferjuna og hún er örugglega ekki eina skipið sem hægt er fá meðan það er athugað hvort hægt sé að laga Landeyjahöfn en við eins og allir Vestmannaeyingar viljum nýtt skip en það þarf að fullnægja flutningaþörf okkar um ókomin ár.

Mín tillaga er sú að leigja skip til 2ja ára, látum reyna á fullyrðingar sérfræðinganna um að grunnristara skip leysi vanda Landeyjahafnar ef þær standast ekki þá vita allir hvað þarf að gera. Leiga á svona skipi er á við ævintýrið í haust þegar Belgíska dýpkunarskipið bjó til tvær “gompur” fyrir utan garðanna í Landeyjahöfn eða sirka 200 milljónir, gaman væri að vita hvað það tók langan tíma að rannsaka hvort sú tilraun skilaði einhverjum varanlegum árangri. 

Að endingu er rétt að benda á að upphaflega sagði bæjarstjórn Vestmannaeyja að ekki væri ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10. Í dag er sama stjórn hinsvegar farin að tala um 10%, sem er samkvæmt mínum útreikningum 36 dagar. Það munar töluverðu!

 

Horfum til framtíðar

Halldór Bjarnason

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.