Samgöngumál rædd í bæjarstjórn

Væntanlegt útboð nýrrar ferju og rekstur hennar

28.Janúar'16 | 20:35

Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundaði nú í kvöld. Þar var samþykkt samhljóða ályktun í þrettán liðum um væntanlegt útboð nýrrar Vestmannaeyjaferju og rekstur hennar.

Á fundinum kom fram að í gær hafi bæjarstjóri og formaður bæjarráðs átt fund með samgönguyfirvöldum vegna væntanlegs útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju og reksturs hennar.  Þar gerðu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar grein fyrir eftirfarandi áhersluatriðum bæjarstjórnar:

 

1.Bæjarráð hefur þegar lagst eindregið gegn því að ferjan verði í einkaeigu og er það hér með ítrekað. 

Siglingar í Landeyjahöfn eru þjóðvegurinn til Eyja.  Einkaframkvæmdir í vegakerfinu hafa eingöngu verið farnar þegar val er um aðra leið svo sem hvað varðar jarðgöngin undir Hvalfjörðinn.  Eðlileg og sanngjörn krafa er að þjóðvegurinn til Eyja gegni sömu lögmálum.

 

2.Bæjarráð hefur þegar lagst eindregið gegn því að samið verði um rekstur ferjunnar til lengri tíma en 3 til 5 ára í senn og þá með skýrum og virkum uppsagnarákvæðum

Siglingar í Landeyjahöfn eru þjóðvegurinn til Eyja.  Mikilvægt er að slík grunnþjónusta sé ætíð kvik og hægt sé að skipta um rekstraraðila hratt og örugglega ef þörf er á.  Í skemmri samningum er einnig aukinn hvati til árangurs í þjónustu.

 

3.Gjaldtaka fyrir afnot af þjóðvegi

Gerð er krafa um að gjaldtaka í Herjólf taki mið af því að um er að ræða þjóðveginn til Eyja.  Þannig ætti eingöngu að greiða fyrir bíl sambærilegt verð og kosta myndi að aka þessa leið.  Ekki ætti að rukka sérstaklega fyrir farþega í bílunum og hófstillt verð fyrir aðra farþega.

 

4.Fargjald í Þorlákshöfn

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hafnar með öllu áformum um að hærra verð sé tekið fyrir siglingar í Þorlákshöfn en í Landeyjahöfn.  Eðlilegt og sanngjarnt er að eitt verð gildi fyrir báðar leiðir og fráleitt að rukka sérstaklega þegar siglt er um lengri og erfiðari leið vegna náttúrulegra aðstæðna svo sem veðurs og sandburðar.

 

5.Frátafir og siglingar í Þorlákshöfn

Vonir hafa staðið til að frátafir siglinga í Landeyjahöfn verði ekki meiri en 10%.  Ákvarðanir um að breyta hönnun þannig að ferjan verði stærri og afkastameiri mun ma. verða til þess að frátafir í siglingum í Landeyjahöfn verði meiri en fyrra mat gerði ráð fyrir.  Bæjarstjórn vill frá upphafi að samgönguyfirvöld séu meðvituð um að frátafir í siglingum í Landeyjahöfn geta því orðið verulega  umfram fyrri áætlanir þegar veður eru verst.  Þannig kæmi það bæjarstórn ekki á óvart þótt að í 20 til 30 daga þurfi ferjan að sigla í Þorlákshöfn.  Eðlileg krafa er því að að strax frá upphafi verði gert ráð fyrir þeim veruleika.  Með þetta í huga fer bæjarstórn fram á eftirfarandi:

 

  • Skipið sé frá upphafi hannað með tilliti til þess að í allt að 20-30 daga á ári þurfi það að sigla í Þorlákshöfn og sjóhæfni þess sé í samræmi við þann veruleika.
  • Svefnaðstaða (kojur) verði fyrir að lágmarki 40 manns
  • Gjaldskrá á báða siglingastaði sé eins, ekki sé tekið aukagjald fyrir siglingu í Þorlákshöfn (sjá lið 4).
  • Þjónusta um borð sé í samræmi við að sigling geti tekið allt að 3 tímum.

 

6.Ferðafjöldi

Ítrekað í kynningu á verkefninu hefur bæjarstjórn og Eyjamönnum öllum verið kynnt að takmörkun á stærð skipsins verði mætt með stórauknum fjölda ferða.  Farið er fram á að ferðir í vetraráætlun verði að lágmarki 5 ferðir á dag og 7 ferðir á dag yfir sumartímann.  Til vara er farið fram á að ferðir í vetraráætlun verði að lágmarki 4.  Þá leggur bæjarstjórn það til að inn í útboðsgögn verði byggð sjálfvirk fjölgun ferða þegar biðlistar valda orðið óþægindum fyrir notendur.

 

7.Árstíðarbundin áætlun

Bæjarstjórn Vestmannaeyja leggur áherslu á að áætlun skipsins taki mið af þeim breytta veruleika sem fylgt hefur auknu flæði fólks og vaxandi ferðaþjónustu.  Sumartími í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum spannar í það minnsta 1. maí til 30. sept.  Þannig kemur til að mynda mikill fjöldi ferðamanna á haustin til að njóta pysjutímans (a.m.k. út sept. og fram í okt) og á sama hátt er tíminn þegar lundinn er að setjast upp og farfuglar að koma til sumardvalar (apríl og maí) mjög eftirsóknarverður fyrir ferðamenn.  Því er farið fram á að árstíðaráætlun skiptist svo: 

Vetraráætlun frá 1. okt til 30. apríl.   - Sumaráætlun frá 1. maí til 30. sept.

 

8.Flutningsgeta

Þekkt er að hámarksflutningsgeta skipsins er mismunandi á sumrin og veturna.  Farið er fram á að þegar sumaráætlun er í gildi (1. maí til 30. sept) sé flutningsgeta skipsins 550 farþegar.

 

9.Aukaferðir

Samfélagið í Vestmannaeyjum er með öllu háð samgöngum á sjó.  Með siglingum Herjólfs stjórna samgönguyfirvöld lífsgæðum bæjarbúa.  Ítrekað gerist það að aukinn sveigjanleika þarf til að mæta sérstökum þörfum.  Þannig getur það komið til að sigla þurfi aukaferð vegna stórs viðburðar á sviði íþrótta eða að bæta við ferð seint um kvöld til að koma gestum á bæjarhátíðum (goslok, Þrettándi og fl.) til síns heima.  Því er eindregið óskað eftir því að í útboði verði boðið fast verð í aukaferðir, annars vegar þegar verið er að bæta ferð inn í áætlun (milli ákveðinna ferða) og hinsvegar þegar ferð er bætt inn í utan áætlunar.

Þá er einnig óskað eftir því að boðin verði út ákveðinn pakki af ferðum (t.d. 30 til 50 ferðir) sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum geta í samráði við Vegagerðina fundið stað í viðbót við áætlun.

 

10.Bókunarkerfið

Það bókunarkerfi sem nú er unnið er eftir er afleitt og ekki boðlegt að áfram verði unnið á forsendum þess.  Þá leggur bæjarstjórn Vestmannaeyja þunga áherslu á að hægt verði að bóka a.m.k. 2 ferðir á dag 12 mánuði fram í tímann innan vetraráætlunar og í allar ferðir í sumaráætlun.  Slíkt er gríðarlega mikilvægt fyrir t.d. ferðaþjónustu enda skipuleggja ferðaskrifstofur sig a.m.k. ár fram í tímann. 

 

11.Helgidagar

Enn og aftur er minnt á að þjónustustig Herjólfs stjórnar lífsgæðum í Vestmannaeyjum.  Í samræmi við nútíma kröfur er gerð krafa um að ferjan sigli alla daga ársins og að lágmarki 3 ferðir á stórhátíðum.  Að rjúfa samgöngur við Vestmannaeyjar á stórhátíðardögum er eins og að loka Grindavíkurvegi eða Vesturlandsvegi þessa daga.  Slíkt er ekki boðlegt.

 

12.Þjónusta í landi

Bæjarstjórn hvetur til þess að í útboði sé tryggt að þjónusta í landi sé í samræmi við mikilvægi hennar.  Gera þarf ríka kröfu um rúman opnunatími, öfluga símaþjónustu og skilvirkar upplýsingaveitur.  Þá þarf aðstaða í landi að taka mið af þeim mikla fjölda sem fer þar um.

 

13.Þjónusta um borð

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að þjónusta um borð í ferjunni verði í samræmi við að um er að ræða fólksflutninga og ferðaþjónustu.  Þannig sé til að mynda gerð krafa um nettengingu, góða leikaðstöðu fyrir börn, veitingaþjónustu og ýmislegt fl.

 

Bæjarstjórn tekur heilshugar undir þessi áhersluatriði og minnir að lokum á einróma samþykkt bæjarstórnar þess efnis að tafarlaust verði ráðist í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og smíðatími hennar nýttur til að gera nauðsynlegar breytingar á Landeyjahöfn.  Einnig er minnt á að skv. nýrri könnun Gallup eru 86% bæjarbúa fylgjandi þessari stefnu bæjarstjórnar.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).