Tryggvi Már Sæmundsson skrifar:

Dapurt svar ráðuneytis

20.Janúar'16 | 10:00

Á sunnudaginn birti Eyjar.net svar Innanríkisráðuneytisins við opnu bréfi til ráðherra. Óhætt er að segja að svarið sé vonbrigði þar sem ekki er leitast við að svara spurningunum sem settar voru fram í bréfinu.

Settar voru fram fimm afmarkaðar spurningar er snúa að Landeyjahöfn og framtíðarferju til að þjóna Vestmannaeyjum. Í stað þess að svara þessum spurningum er sett á blað söguskýring sem ég ætla nú að fara yfir.

Í upphafi svarsins segir:

„Vegna opins bréfs þíns til innanríkisráðherra um Landeyjahöfn er rétt að byrja á að taka undir með þér mikilvægi þess að ráðherra einbeiti sér að yfirsýn mála og eftirláti sérfræðingum og undirstofnunum sínum framkvæmd einstakra mála.“

Ástæða þess að undirritaður skrifar opið bréf til ráðherra er að traustið og svör embættismanna og undirstofnana ráðuneytis er nánast farið er kemur að málefnum Landeyjahafnar. Því er nauðsynlegt að benda ráðherra á brotalamir er kemur að höfninni. Hana þarf að laga svo hún verði fær skipum.

Síðan segir:

„Leitað hefur verið til færustu fáanlegu sérfræðinga á hverju sviði, jafnt skipstjórnarmanna og verkfræðinga sem annarra og leitast við að fá fram mismunandi sjónarmið.“

Ekki hefur Eyjar.net fengið lista yfir þá skipstjórnarmenn né verkfræðinga sem vísað er í, þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar um. Í mínum huga hljóta færustu fáanlegu skipstjórnarmenn að vera þeir sem hafa reynslu á að sigla í umrædda höfn. Þeir hinsvegar sameinuðust um að skrifa undir áskorun til innanríkisráðherra þar sem óskað er eftir hennar áheyrn. Því er mikilvægt að fá fram hverjir eru færari en þeir í að meta aðstæður og hvort nýhönnuð ferja muni minnka frátafirnar verulega, líkt og haldið hefur verið fram af embættismönnum ríkisins.

En aftur að svarinu:

„Erfiðar aðstæður til hafnargerðar á suðurströndinni hafa alla tíð gert ferjusamgöngur við Vestmannaeyjar erfiðar. Á sínum tíma var siglt milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og ef flytja átti bíl þurfti að hífa hann um borð. Mikil framför var því þegar ekjuferja fór að sigla tvær ferðir á dag til Þorlákshafnar og siglingin tók innan við þrjár klukkustundir hvora leið. Framfarirnar héldu áfram með tilkomu Landeyjahafnar og hafa flutningar margfaldast enda er siglingatíminn innan við 40 mínútur. Það er rétt að þetta hefur ekki allt gengið vandræðalaust fyrir sig, en það er enginn sem heldur því fram að með tilkomu Landeyjahafnar hafi samgöngur Vestmannaeyinga ekki batnað svo um munar. Rétt er að hafa þetta í huga þegar framhaldið er rætt.“

Undirritaður var ekki að biðja ráðuneytið um söguskýringu enda ágætlega að sér í samgöngusögu Vestmannaeyja eftir tæplega 40 ára búsetu á staðnum. Með bréfi til ráðherra var leitast við að benda á það sem þarf að gera og í þeirri röð sem mikilvægast er. Á meðan höfnin er ekki löguð þá verður Þorlákshöfn alltaf notuð hluta úr ári. Þá verður ekki um að ræða neinar skemmtisiglingar á ferjunni sem búið er að hanna með nokkrum klefum efst í skipinu þar sem svefnrými verður fyrir rúmlega 30 manns.

 

„Vegna þess að Herjólfur ræður illa við erfiðar aðstæður við Landeyjahöfn, enda ekki hannaður fyrir þær, hafa komið fram ýmsar hugmyndir til endurbóta. Þar á meðal að Herjólfur, eða stærra skip sem fengið yrði í hans stað, sigli til Landeyjahafnar á sumrin og til Þorlákshafnar á veturnar. Þetta er í raun það sem gert er, þó þannig að ekki eru fyrirfram ákveðnar dagsetningar hvenær sumaráætlun til Landeyjahafnar hefst og lýkur. Ástæðan er sú að aðstæður eru mjög breytilegar milli ára og ekki fyrirsjáanlegt hve lengi er hægt að sigla til Landeyjahafnar, en flestir Vestmannaeyinga vilja að þangað sé siglt eins lengi og nokkur möguleiki er.“

Lítið um þetta að segja annað en að ef á að smíða nýtt skip áður en höfnin er löguð – þá verður það að virka í Þorlákshöfn líka. Það er lykilatriði.

 

„Hagsmunir Vestmannaeyinga og landsmanna allra af því að halda uppi samgöngum um Landeyjahöfn eru miklir og því hefur verið lögð áhersla á að lengja það tímabil sem það er gert, eins og hægt er og stefna á heilsárs siglingar þangað. Að sjálfsögðu verða frátafir í þessum samgöngum eins og öðrum, en markmiðið er að lágmarka þær eins og kostur er.“

Athyglisvert í þessum kafla er orðalagið „stefna á heilsárs siglingar þangað“. Af þessu tilefni má benda á minnisblað sem lagt var fram í bæjarstjórn í desember 2014 - þar sem segir:

„Frátafir – Viðmið bæjarfulltrúa hafa verið að ekki sé ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10."

En aftur að svari ráðuneytisins:

„Til þess þarf sérhannað skip fyrir aðstæðurnar við Landeyjahöfn. Að fá annað stærra skip í stað Herjólfs til að sigla til Þorlákshafnar á veturna er ekki skref í þessa átt heldur mundi það festa í sessi vetrarsiglingar til Þorlákshafnar.“

Þarna er vert að benda aftur á skipstjórnana sem notað hafa Landeyjahöfn og virðast ekki fá áheyrn ráðamanna. Steinar Magnússon er þeirra reynslumestur og hann hefur sem betur fer tjáð sig opinberilega um nýhannaða ferju. Hann segir:

„Menn verða að hafa í huga að mannvirkið er aðeins hálfbyggt. Það er mjög aðkallandi að reistir verði varnargarðar sem næðu lengra út og myndu umlykja þá sem nú eru ystir. Slík framkvæmd er brýn og myndi fjölga þeim dögum sem fært væri í höfnina. Ný ferja myndi ekki leysa vandann nema að litlu leyti.“

Einnig segir Steinar er hann er spurður:

Hlusta menn ekkert á þig?

„Greinilega ekki. En þeir hjá Siglingastofnun vita alveg hvað við [skipstjórarnir] höfum verið að tala um. Við erum allir búnir að vera samstíga í þessu hvað við teljum að sé rétt að gera þarna.“

Ég verð að segja að það er stórundarlegt að ekki sé hægt að hlusta á mennina sem koma til með að taka ákvarðanir um siglingar milli lands og Eyja. Það veikir mjög málstað þeirra sem eru að reyna að sannfæra okkur um að nýhönnuð ferja muni minnka frátafirnar verulega í Landeyjahöfn.

 

En aftur að svarinu, í niðurlaginu segir:

„Með grunnristri ferju sem sérhönnuð er til að ráða við strauma og aðrar erfiðar aðstæður við Landeyjahöfn er hægt að lengja tímabilið verulega og vonandi ná markmiðinu um að það heyri til undantekninga að sigla þurfi til Þorlákshafnar. Hve miklar frátafirnar verða, verður breytilegt milli ára, fer eftir veðurfari og dýpi við höfnina og kemur ekki endanlega í ljós fyrr en ferjan er komin í notkun. Nýja ferjan verður enn eitt framfaraskrefið í samgöngumálum Vestmannaeyinga.“

 

Þarna er vert að benda á loðið orðalag „og vonandi ná markmiðinu um að það heyri til undantekninga að sigla þurfi til Þorlákshafnar“.

Svo segir „Hve miklar frátafirnar verða, verður breytilegt milli ára, fer eftir veðurfari og dýpi við höfnina og kemur ekki endanlega í ljós fyrr en ferjan er komin í notkun.“

Þessi setning er grafalvarleg. Það á semsagt að verja 5 þúsund milljónum í að smíða nýja ferju og svo kemur í ljós hve miklar frátafirnar verða. Mjög traust!

 

Lokaorð

Svar ráðuneytisns fékk undirritaður sent á Þorláksmessu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá svör við hvaða nafn á að setja undir gekk það ekki. Í raun tel ég að þetta svar veki upp frekari spurningar enn það svarar. Einnig er dapurt til þess að vita að enginn innan ráðuneytisins vili gangast við því að setja þetta á blað. Kannski er það vegna þess að ekki er gerð tilraun til að svara spurningunum nema að litlu leiti. Eyjar.net kannaði traust bæjarbúa á m.a Innanríkisráðuneytið fyrir ári síðan. Þá mældist traustið á ráðuneytið vegna ákvarðana um framtíðarskipulag sjósamgangna milli lands og Eyja þannig að 10,1 % báru frekar eða mjög mikið traust á ráðuneytið. Ekki á ég von á að traustið sé að aukast miðað við mína reynslu síðustu vikur á samskiptum við starfsmenn ráðuneytisins.

Það sem að ég held að flestir óttist er að ef þessi ferja virkar ekki í Landeyjahöfn - verðum við í mun verri málum þegar Landeyjahöfn lokast. Vonandi er sá ótti ástæðulaus.

 

Tryggvi Már Sæmundsson

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.