Guðný Bogadóttir skrifar:

Hreyfing eldra fólks

15.Janúar'16 | 13:29
eldra_folk_ganga

Mynd/úr safni

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur og aldur og færni misjöfn. Samkvæmt ráðleggingum Landlæknis er fullorðnu fólki ráðlagt að hreyfa sig að meðaltali 30 mínútur á dag , óháð aldri, færni og heilsu, sem má skipta niður í til dæmis 2-3 skipti á dag.

Hreyfingin getur verið skipulögð svo sem göngutúr en einnig sem hluti af daglegum athöfnum eins og að ganga stiga eða erfið heimilisstörf. Hægt er að vera einn eða í hóp með öðrum.

Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing eins og ganga og enn frekar ganga á ójöfnu undirlagi , dans , vatnsleikfimi og leikfimisæfingar eru sérlega góðar fyrir eldra fólk til að bæta færni, hreyfigetu og jafnvægi . Einnig er ráðlagt að bæta styrktarþjálfun og jafnvægisæfingum við aðra hreyfingu. Meðal annars til að styrkja vöðva, liðleika og auka gönguöryggi. Almennt er fólk duglegra að mæta í æfingar sem hluti af hóp og með leiðbeinanda og bætist þá einnig við ávinningur af því að vera í félagsskap annara.

Rannsóknir hafa sýnt að regluleg hreyfing hægir á áhrifum öldrunar og hjálpar fólki til að viðhalda getu til að vera sjálfbjarga í daglegu lífi. Hreyfigeta eykst, beinþéttni og vöðvastyrkur aukast, það hægir á heilarýrnun , andleg líðan verður betri og byltum og föllum fækkar sem minnka líkur á beinbrotum.

Stór hópur eldra fólks hreyfir sig reglulega en ekki nógu margir . Ástæðurnar eru margvíslegar, sumir hafa aldrei stundað reglulega hreyfingu og aðrir hafa dregið úr hreyfingu vegna sjúkdóma, verkja eða eru veikburða og finnst einfaldlega erfitt að koma sér af stað og þekkja ekki hvað er í boði.

En það er aldrei of seint að byrja.

Fyrir þá sem eiga erfitt með hreyfingu getur verið gott að ræða við lækni og /eða byrja undir handleiðslu sjúkraþjálfara eða íþróttaþjálfara. Tíu mínútna ganga er betri en ekkert og það er oft betra að fara rólega af stað.

Flestir hreyfa sig meira á sumrin en veturna en víða er aðstaða í sveitarfélögunum þar sem fólk getur hreyft sig inni á veturna. Hægt er að fá upplýsingar um slíka möguleika hjá heilsugæslunni, félagsþjónustunni og félagi eldri borgara á hverjum stað.

Framboð á hreyfingu er margbreytilegt yfir árið, t.d. skipuleggja félög eldri borgara margskonar hreyfingu, útvarpsleikfimi Rásar 1 er virka daga á milli 9:45 – 10:00, líkamsræktarstöðvar eru með gott framboð og sundlaugar á mörgum stöðum bjóða eldri borgurum frítt í sund,

Sjúkraþjálfarar eru með einstaklingshæfða þjálfun og eru á sumum stöðum með hópaþjálfun fyrir fólk sem þurfa vegna sjúkdóma eða annara ásæðna leiðsögn sjúkraþjálfara í lengri eða skemmri tíma.

Á mörgum stöðum bjóða sveitarfélög upp á akstur fyrir eldri borgara til að fara í sjúkraþjálfun.

Starfsfólk heimahjúkrunar er tilbúið að leiðbeina skjólstæðingum varðandi æfingar sem hægt er að gera heima eða benda á aðra kosti.

Ráðleggingar um hreyfingu.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum

 

Greinin birtist á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands - hsu.is

guðný-bogadóttir_hsu

Guðný Bogadóttir. Mynd / hsu.is

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.