Fréttaskýring:

GRV settur undir smásjá

Gott að fá sýn utanaðkomandi fagaðila - segir formaður fræðsluráðs

26.Desember'15 | 14:07
trausti_grv

Trausti Hjaltason

Á dögunum sendi fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar frá sér bókun þess efnis að æskilegast væri að fá óháða aðila til að framkvæma faglega úttekt á starfi GRV. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan að samþykkt var ný framtíðarsýn innan skólakerfisins að frumkvæði sama ráðs. Eyjar.net ræddi við Trausta Hjaltason, formann fræðsluráðs um málið.

Fyrst skulum við rifja upp þessi tvö mál.

„Þann 25. ágúst s.l undirrituðu stjórnendur leik- og grunnskólanna, bæjarstjóri og formaður fræðsluráðs sameiginlega framtíðarsýn í menntamálum sem felur í sér að leggja beri áherslu  á að efla læsi og stærðfræði í skólastarfi Vestmannaeyjabæjar. 
Áhersla er m.a. lögð á  að styrkja og efla samstarf  starfsmanna skólanna og  forráðamanna því  þar býr aflið sem  getur skapað nemendum öruggt og styðjandi umhverfi til náms og  stuðlað að árangri  þeirra og vellíðan.
Ennfremur sagði að markmiðið væri að skólarnir í sveitarfélaginu verði meðal þeirra fremstu á landinu hvað varðar vellíðan nemenda, faglegt starf, kennslu og námsárangur. Nemendur  skólanna munu fá  skjal afhent,  þar sem  helstu áhersluatriði  framtíðarsýnarinnar eru tíunduð.  Þeir,  ásamt forráðamönnum, voru beðnir að skrifa undir skjalið og hengja það upp á heimilum sínum til  að staðfesta að þeir styðji framtíðarsýnina og vilji leggja sitt af mörkum til að  hún gangi eftir.   Bæjarbúar voru allir eru hvattir til að styðja við skólana með ráðum og dáð með jákvæðri og hvetjandi umfjöllun.“  

 

Ofangreindur pistill er frá fræðslufulltrúa Vestmanneyjabæjar, Ernu Jóhannesdóttur, skrifaður fyrir 4 mánuðum. Í síðustu viku sendi fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar svo frá sér eftirfarandi bókun:

„Á fundi fræðsluráðs kynnti fræðslufulltrúi samantekt á niðurstöðum samræmdra prófa í GRV á undanförnum árum. Ráðið hefur nú fengið greinargóða kynningu á niðurstöðum samræmdra könnunarprófa.
Farið var yfir framfararstuðla og breytingar á árangri árganga milli prófa. Skoðaðar voru niðurstöður samræmdra prófa fyrri ára og borið saman við árangur annarra skóla og árangur GRV undanfarin ár.
Fræðsluráð er meðvitað um að það tekur tíma að bæta skólamenningu og árangur. Á seinustu misserum hefur verið ráðist í aðgerðir sem vafalaust eiga eftir að skila betri árangri í samræmdum mælingum og skólastarfi almennt. Eftir sem áður telur fræðsluráð ljóst að leita beri allra leiða til að bæta árangur GRV og að það sé óásættanlegt að nemendur í Vestmannaeyjum séu undir landsmeðaltali í samræmdum mælingum.
Með það fyrir augum telur ráðið æskilegt að leita til óháðra aðila til að framkvæma faglega úttekt á starfi GRV með höfuðáherslu á að greina ástæður þess að nemendur í GRV mælast að jafnaði undir landsmeðaltali í samræmdum mælingum. Miða skal við að slík úttekt fari fram í byrjun næsta árs og að niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en undir lok vorannar 2016.
Fræðsluráð felur skólaskrifstofu að vinna málið áfram.“

 

Þokast í jákvæða átt - sagt í byrjun árs

Ef farið er lengra aftur í tímann og skoðuð er frétt Eyjar.net um niðurstöður samræmdu prófanna og fjallað var um í fræðsluráði í jánúar s.l má sjá eftirfarandi bókun:

Samræmd próf.
Skólastjóri kynnti niðurstöður samræmdra prófa hjá nemendum GRV í 4. 7. og 10. bekk. Ánægjulegt er að sjá góðan árangur í stærðfræði í 4. bekk, en nemendur GRV mælast nokkuð yfir landsmeðaltali. Nemendur í 7 bekk mælast við landsmeðaltal í báðum greinum. Nemendur 10. bekkja mælast aftur á móti fyrir neðan landsmeðaltal í öllum þremur greinunum, þ.e. stærðfræði, íslensku og ensku. Þó ber að taka sérstaklega fram að prófin gefa ákveðna vísbendingu um að árangurinn sé að þokast í jákvæða átt miðað við fyrri ár.
Aðgerðaráætlun sem skólaskrifstofan og skólastjórnendur settu af stað eftir niðurstöðu síðustu prófa er vonandi að skila sér. Fræðsluráð verður vart við vaxandi metnað fyrir bættum árangri í samræmdum prófum hjá nemendum, kennurum, foreldrum og skólastjórnendum sem er af hinu góða.

 

Þetta er langhlaup og árangrinum verður ekki snúið við á einni nóttu

Trausti Hjaltason er formaður fræðsluráðs. Hann svaraði nokkrum spurningum Eyjar.net um málið.

„Skólaskrifstofan er nú að vinna málið áfram og mun það skýrast fljótlega í byrjun næsta árs hver verður fengin í verkið. Kapp verður lagt á að fá óháðan faglegan aðila í verkið sem getur hafist handa fljótlega á næsta ári og skilað af sér niðurstöðu fyrir lok vorannar 2016. Hugmyndin er að niðurstöðurnar sýni okkur hvað við erum að gera vel og hvar við getum gert betur." segir Trausti.


Er ekki rétt að nýlega hafi verið samþykkt ,,framtíðarsýn í menntamálum" sveitarfélagsins? 

Framtíðarsýn í menntamálum var fyrst rædd haustið 2014 í fræðsluráði, hún var síðan formlega undirrituð af stjórnendum allra skólastiga í ágúst s.l. 

Varla er sú vinna farin að bera sýnilegan árangur - eftir svo skamman tíma? 

Það er rétt að það er skammur tími liðinn, en mikið af þeirri vinnu og hugmyndarfræði sem tengist framtíðarsýninni var þó komin af stað innan skólanna áður en formleg undirritun átti sér stað í ágúst s.l. Við sjáum að sú vinna er farin að skila árangri, sérstaklega hjá yngstu nemendunum. T.d. er það góða starf sem unnið er innan GRV hvað lesturinn varðar notað sem dæmi um hvernig hlutirnir eru gerðir vel, þegar fagaðilum á þessu sviði fjalla um lesturinn í grunnskólunum á landsvísu. Þetta er langhlaup og árangrinum verður ekki snúið við á einni nóttu.

Núna strax á haustönn hafa verið framkvæmd skimunarpróf sem eru notuð til að hjálpa til við að meta árangurinn af náminu, slíkt hjálpar til við að grípa inn fyrr ef þurfa þykir og einnig til að sjá framfarir milli prófa. Á vorönn verður haldið áfram með þessar skimanir til þess að hjálpa nemendum, foreldrum og kennurum að átta sig betur á hvar nemendur standa. Fræðsluráð mun fylgjast áfram með framgangi mála hvað þetta varðar og mun fá frekari kynningu á þessu strax í byrjun næsta árs. 

Hvað ef að niðurstaðan verður þvert á nýja framtíðarsýn sem búið er að vinna og samþykkja? 

Það kæmi mér á óvart ef svo mundi vera, enda ekkert sem bendir til þess. Þeir skólar sem hafa tekið upp sambærilega stefnu og hafa unnið eftir henni í nokkurn tíma eru þeir skólar sem eru að koma hvað best út á landsvísu. Með því að leita til óháðs faglegs aðila þá erum við fyrst og fremst að leita leiða til að sjá hvar við erum að gera vel og hvar við þurfum að gera betur, sú niðurstaða mun síðan vonandi nýtast okkur til að gera betur.

Það mætti kannski orða þetta þannig, við erum að vonast til að fá svör við því hvort að það sé eitthvað meira sem við getum gert til þess að bæta árangurinn, og þá hvað og hvernig?

Við eigum alltaf að vera að leita leiða til að bæta okkur og oft er gott að fá sýn utanaðkomandi fagaðila í bland við hitt, segir Trausti að endingu.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).