Hrefna Óskarsdóttir skrifar:

Ótrúlega hamingjusöm (og útúrlyfjuð)

26.Október'15 | 07:53

Ég varð fertug á árinu sem er alveg dásamlegt sko, en einhvern vegin átti ég samt von á meiri þroska, visku og umburðarlyndi á þessum merku tímamótum. Það spilar kannski eitthvað inn í hvað mér finnst svo margt í íslensku þjóðfélagi einkennast af heimsku og vitleysu. Við hjökkum endalaust í sama farinu, gerum sömu mistökin á sama hátt, gerum þau aftur og aftur og virðumst aldrei geta lært af mistökumi fortíðar. Allt púðrið fer svo í að finna einhvern til að taka á sig allt klúðrið í stað þess að vinna að því að finna lausnir og nýjar leiðir.  

Allavega.

Eins og mér leiðist þessi vitleysa í þjóðfélaginu ótrúlega mikið, þá dáist ég endalaust að þeim sem þora að synda á móti straumnum og segja skoðanir sínar og sögur, þrátt fyrir að þær stingi mann stundum.

Sannleikurinn er stingur nefnilega stundum...

Ísland er önnur hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt bæði Sameinuðu Þjóðunum og OECD. Vúhú fyrir okkur! En við erum líka sú þjóð, innan OECD, sem notar mest af geðlyfjum til að tækla daglegt líf. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé engin innan þessa OECD sem sjái neitt athugavert við þessar niðurstöður...? Kannski er ég bara einföld og vitlaus og skil ekki stjórnmál (sem er satt) en mér finnst samt þessi stærðfræði einfaldlega ekki ganga upp.

Við erum kannski bara svona ótrúlega hamingjusöm af því að við erum hreinlega útúrlyfjuð?

Það er miklu frekar dælt geðlyfjum í fólk sem á við tilfinningakrísur að stríða, heldur en að hjálpa þeim að vinna sig út úr þessum krísum. Það detta allir einhverntíma niður í geðinu. Allir. Annað er óhjákvæmilegt þegar maður fæðist sem manneskja.

En það er auðvitað ekkert kúl við það að vera þunglyndur eða með kvíða og hvað þá ef geðsjúkdómarnir eru eitthvað meiri en það. Allt sem er ekki hipp og kúl viljum við ekki ræða opinskátt. Við viljum ekki að fólk dæmi okkur, við viljum ekki missa virðingu og aðdáun annarra. Að vera samþykktur og forðast fordæmingu er jú það sem þetta allt snýst um. Við göngum oft ansi langt til þess að passa það að fólk hafi enga ástæðu til að dæma okkur. Við göngum það langt að við erum oft tilbúnari að deyja frekar en að missa virðingu og álit annarra.

Það eru allir með eitthvað sem enginn má vita af. Ó, þessi skelfilega skömm.

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn í Ástralíu þar sem menn reyndu að sanna þá kenningu að streita eða félagsleg einangrun leiddu til brjóstakrabbameins. Það sem kom í ljós var að konur sem höfðu upplifað mikla streitu, langvarandi streitu eða áfallastreitu, voru ekki líklegri til að þróa með sér krabbamein. Og konur sem höfðu engan félagslegan stuðning voru heldur ekki í neinni hættu. En þær sem höfðu upplifað mikla streitu og gátu ekki talað um það - voru í 9.5 sinnum meiri hættu á að fá krabbamein.

Það nákvæmlega sama á við um geðræna erfiðleika. Það detta allir niður í geðinu. Við lendum öll í einhverju. En þegar við getum ekki eða höfum engan til að tala við um það sem er að valda okkur vanlíðan, þá hrynjum við. Niður í þunglyndi, kvíða og sjálfsvígshugsanir.

Þögnin drepur!

Lyf hjálpa sumum en öðrum ekki. Þau hjálpa til við að deyfa geðið niður en þær hjálpa okkur ekki að takast á við ástandið. Aðeins það að tala við einhvern sem maður treystir gerir það.

Sálfræðingur, heimilislæknir, iðjuþjálfi, hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, foreldri, maki, vinur.... Einhver sem dæmir ekki. Einhver sem fær mann ekki sjá eftir að opna á það sem maður óttast mest. Bara það að losa sig undan skömminni hjálpar. Losa sig undan því að finnast maður vera meingallað eintak, þegar maður er einfaldlega mannlegur með kjánalegar tilfinningar.

Eins og allir hinir.

Það væri óskandi að það væri jafn auðvelt aðgengi að fagfólki eins og að lyfjum. Í jafn langan tíma. Að það sé líka niðurgreitt. En á meðan ráðamenn finna leiðir til þess að gera þennan möguleika að raunveruleika þurfum við að gera meira af svona átökum eins og #égerekkitabú, #útmeða og #heilabrot.

Við þurfum, á einhvern hátt, að losa okkur undan fortíðinni. Ekki með því að deyfa okkur gagnvart henni, heldur með því að ræða hana, skrifa hana, syngja hana, garga hana... hvað eina það sem losar okkur við skömmina.

Við þurfum að vera til staðar og hlusta og ekki dæma. Ekki hneykslast og ekki gagnrýna og ekki fordæma. Það eiga allir sína sögu, sumar eru bara óþægilegar en aðrar eru ljótar. Meira segja margar skelfilega ljótar.

Við viljum ekki trúa þeim. Við viljum ekki trúa því að mannskepnan geti verið svona vond. Við viljum heldur ekki heyra okkar nánustu tala um hversu illa þeim líður. Við viljum að þau rífi sig upp úr svona niðurrífsstarfsemi. Það er nefnilega engin skynsemi í því.

En þessar sögur þurfa allar að fá að heyrast.

(...og það er engin skynsemi í tilfinningum).

 

Takk fyrir þið sem þorið að segja ykkar sögu, hver sem hún er. Ég held að þið séuð að gera heiminn að betri stað.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.