Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Ég virði þig eins og þú ert og líkar meira að segja frekar vel við þig

1.Október'15 | 06:19

Ég hef farið í nokkur brúðkaup um ævina og er gaman frá því að segja að öll þessi hjónabönd halda enn þann dag í dag og allir eru “happy”. Ég gifti mig líka einu sinni og þó það hafi ekki haldið neitt sérstaklega vel þá eru samt allir “happy” sem að því geimi komu.

En brúðkaupin voru misjöfn eins og þau voru mörg. Uppáhalds brúðkaupið mitt er þó brúðkaup sem ég var ekki viðstödd af þeirri einföldu ástæðu að ég var ekki til. En það var brúðkaup mömmu minnar og pabba sem hér um ræðir. Kærustuparið var 21 árs, búin að vera saman frá því þau voru 12 ára, Erla systir komin í heiminn og nálgaðist eins árs aldurinn. Mamma og pabbi voru fátækir námsmenn í Reykjavík, bæði með sítt hár og í útvíðum buxum og mussum, sem sagt hippar fyrir allan peninginn og afganginn líka. Þau voru mjög blönk og vantaði tilfinnanlega pening.

Á þessum árum var til eitthvað fyrirbæri sem kallaðist sparimerki og áttu þau bæði slatta af þeim, hægt var að skipta þessum merkjum út í stað peninga en til þess þurfti þó að uppfylla alls kyns skilyrði. Þeim þótti þetta ótrúlega góð leið til að ná sér í pening og eftir að hafa skoðað þetta nánar fundu þau út að ein leiðin til að leysa út aurinn væri að gifta sig. Kærustuparið hugsaði sig um, þau voru jú mjög ástfangin og voru ákveðin í því að eyða lífinu saman, hvers vegna ekki að drífa bara í þessu? Eina sem vafðist þó fyrir unga hippaparinu var að þau trúðu ekki á hjónabandið sem stofnun og ef út í það var farið trúðu þau ekkert sérstaklega mikið á Guð. En blankheit eru hörmung, eins og allir vita sem það hafa upplifað einhvern tímann á lífsleiðinni, og tilhugsunin um að eiga að éta fram að jólum varð hugsjóninni yfirsterkari.

Þannig að einn rigningardag í október ákveða þau að drífa sig til borgardómara og láta pússa sig saman. Enn þann dag í dag vita þau ekki hvaða dag þau giftu sig en það er einhvern tímann á tímabilinu 17-22.október. Pabbi skottaðist með Erlu systur í pössun til Ömmu Erlu upp í Breiðholt og tók til þess tvo strætóa. Mamma fór í það að redda vottum og þau ákveða síðan að hittast hjá borgardómara upp úr þrjú þennann umtalaða föstudag. Klukkan var orðin rúmlega þrjú og mamma orðin svolítið óróleg því bankarnir lokuðu fjögur og þyrftu þau að leysa út sparimerkin áður en lokaði, og enn var pabbi ekki kominn. Mamma hringir því í Ömmu Erlu og spyr um kauða en hann var þá í rólegheitum að lesa Moggann, hafði aðeins gleymt sér þessi elska.

Allt fór þetta þó vel að lokum, pabbi náði í tæka tíð, unga parið leysti út sparimerkin og skellti sér svo á heljarinnar djamm með vottunum.  Nú í ár fagna mamma mín og pabbi 50 ára samvistarafmæli og 41 árs brúðkaupsafmæli en við munum fagna því í heila viku þar sem þau finna ekki giftingarvottorðið og muna því ekki nákvæmlega hvaða dag þau voru gefin saman.

Einnig hef ég verið veislustjóri í tveimur brúðkaupum hjá tveimur af mínum bestu vinkonum. Annað brúðkaupið var haldið út á palli hjá brúðhjónunum, læri grilluð á teini og brúðartertan borðuð af plastdiskum. Djammið var þvílíkt og annað eins að þegar brúðhjónin fóru á hótelið, sem var klukkan 3 um nóttina, var pakkað í snarheistum niður í tösku. Daginn eftir kom brúðurin heim í náttbuxum af 4 ára syni sínum því hún hélt þetta væru leggings þegar hún pakkaði niður um nóttina. Nú í ár fagna þessar dásemdir 17 ára samvistarafmæli og 5 ára brúðkaupsafmæli.

Hitt brúðkaupið var haldið í fallegum sal í borginni. Brúðurin sá um allar skreytingar sjálf ásamt því að sauma brúðarkjólinn sinn sem er fallegasti brúðarkjóll sem ég hef séð. Þegar leið á kvöldið voru brúðhjónin kölluð á gólfið til að dansa fyrsta dansinn. Á dansgólfið mættu þau með bjór-brúðkaupsglösin sín, skáluðu hvort við annað, kysstust og dönsuðu svo fyrsta dansinn við lagið:  ,,Á Spáni er gott að djamma og djúsa“ með Ladda. Ég held þau hafi farið síðust heim úr partýinu. Á þessu ári fagna þessi einstöku hjón 11 ára samvistarafmæli og 7 ára brúðkaupsafmæli.

Það er nefnilega svo ótrúlega skemmtilegt hvað við erum öll ólík og allt sem við gerum litast af okkar frábæru persónueinkennum. Nú stendur verkefnið ,,Á allra vörum“ sem hæst og í þetta sinn snýr verkefnið að baráttu gegn einelti. Þetta verkefni er mér sérstaklega hugleikið þar sem einelti er mikið samfélagsmein, mein sem við gætum upprætt með því að bera virðingu hvort fyrir öðru og þeim ákvörðunum sem hver og einn tekur í sínu lífi.

Hvernig ég vel að eyða lífi mínu kemur engum við og fólk þarf ekkert að missa svefn yfir því hvað ég geri eða ekki geri. Það væri líka glimrandi gaman ef börnin okkar myndu alast upp við það að ekki eru allir eins og ekki hafa allir sömu tækifæri í lífinu til að eiga nýjasta símann, flottustu gallabuxurnar og dýrustu skóna. Það gefur samt engum leyfi til að hæðast að eða gera lítið úr annarri manneskju, hvað þá að útskúfa hana og gera henni lífið svo erfitt og leitt að manneskjuna langar ekki að vera til lengur.

Ást, hamingja, virðing og umburðarlyndi er allt sem þarf elsku fólk

Lóa

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).