Könnun á viðhorfi skipstjóra sem siglt hafa um Landeyjahöfn

- hefur verið teflt á tæpasta vað sem er óréttlætanlegt með farþegaskip, segja skipstjórar Herjólfs

26.Ágúst'15 | 11:45

Skólastjóri Skipstjórnarskóla Tækniskólans vann könnun á viðhorfi skipstjóra sem siglt hafa um Landeyjahöfn í lok árs 2013. Skýrsla unnin fyrir siglingasvið Vegagerðarinnar. Eyjar.net birtir hér skýrsluna í heild sinni.

 
Könnun á viðhorfi skipstjóra sem siglt hafa um Landeyjahöfn

Þessi skýrsla er samantekt af viðtölum við skipstjóra Herjólfs og Baldurs um siglingu til Landeyjahafnar og sýn þeirra á aðstæður í og við höfnina, skipin kosti þeirra og galla.

Rætt var við skipstjórana um þeirra upplifun af siglingum til hafnarinnar, ástæðu þess að fella þurfi niður áætlunar ferðir og um stjórnun skipsins við aðkomu að höfninni. Einnig var rætt við þá um það hvort Herjólfur henti til þessara siglinga eða hvort heppilegra væri að hafa annað og minna skip í þessum siglingum.  
 

                Guðlaugur Ólafsson er einn skipstjóra Herjólfs.

Aðkoman að höfninni

Í huga skipstjóranna er helsta vandamál við notkun Landeyjahafnar hve aðkoma að höfninni er erfið við vissar aðstæður.

Skipstjórar Herjólfs:

Fyrir utan mynni hafnarinnar eru grynningar sem fara þarf yfir. Á þessum grynningum, sem eru sandrif, brýtur gjarnan og þarf ekki mikla ölduhæð til og því minni öldu sem grynnra er á rifinu. Þegar skipinu er siglt yfir þessar grynningar verður skipið fyrir svo kölluðum grunnvatnsáhrifum „Shallow water effect“ sem gerir það að verkum að erfiðara er að hafa stjórn á skipinu. Þegar dælt hefur verið og dýpkað á sandrifinu er ástandið betra og síður
verður vart við grunnvatnsáhrifin.  

Einnig hafa straumar, bæði öldustraumar og sjávarfallastraumar, mikil áhrif á skipið þegar siglt er inn til Landeyjahafnar. Upplýsingar um öldu og strauma hafa batnað mjög með tilkomu radars, sem settur hefur verið upp í höfninni og hjálpar það til við mat á aðstæðum til siglinga og gera þær þar með öruggari.
 
Skipstjóri Baldurs:

Skipstjóri Baldurs telur ekki um mikinn hrygg að ræða utan hafnarinnar, aðeins smá dýpismun og hafi Þeir á Baldri siglt að höfninni úr vestri og komið þannig á móti straumi að höfninni, hafi það gefið góða raun og straumur því ekki haft teljandi áhrif á siglingu skipsins inn í höfnina.  
 
Skipin

Skipstjórar Herjólfs:

Varðandi Herjólf þá telja skipstjórar hans að, ef miðað er við þann farþegafjölda sem ferðast með skipinu og þann bílafjölda sem fluttur er á hverjum degi,  skipið sé ekki of stórt til þeirra verkefna sem því er ætlað að sinna. Telja þeir að lítið skip geti ekki annað þeirri fólks- og vöruflutninga þörf sem nú þegar er til staðar og vænta má að sú þörf aukast frekar í framtíðinni með auknum straumi ferðamanna til eyjarinnar.

Lengd Herjólfs er ekki vandamál, heldur hjálpar hún til þegar skipinu er siglt undan öldu, það snýst ekki eins og styttra skip myndi gera. Breiddin gefur skipinu aukin stöðugleika, en djúpristan hefur bæði kosti og galla. Djúprista skipsins gefur skipinu meiri rásfestu en grunn flatbotna skip hafa, en aftur á móti skapar djúpristan vandamál á grunnum leiðum eins og við og inn í Landeyjahöfn vegna grunnvatnsáhrifa sem gera það að verkum að erfiðara getur verið að stjórna skipinu.

Skipstjórar Herjólfs telja að Herjólfur, sem í yfir 20 ár hefur verið siglt áfallalaust milli lands og eyja, sé öruggt og ágætt skip sem þjónað hefur sínum tilgangi til þessa. Það er ekki skipið eða stjórnendur þess sem gera það að verkum að oft þurfi að fella niður ferðir, heldur eru það aðstæður sem skapast utan við mynni Landeyjahafnar sem gera það að verkum og verður ekki séð að annað skip muni breyta nokkru þar um. Einn viðmælenda hefur verið bæði á Herjólfi og Baldri og segir Baldur einnig geta snúist á lensi við innsiglingu til hafnarinnar eins og Herjólfur.

Einnig telja þeir að minna skip, grunnristara og léttara, sé hugsanlega sneggra í snúningum en að sama skapi viðkvæmara fyrir öldunni og hentar því síður ef sigla þurfi til Þorlákshafnar þegar veður eru svo vond að ekki verði siglt í Landeyjahöfn.  

Ef gert er ráð fyrir því að minna þurfi að dýpka á sandrifinu utan hafnarinnar, með tilkomu skips sem ristir minna, þá verður að gera ráð fyrir því að fyrr fari að myndast brot á rifinu. Það er að það þurfi minni öldu til að mynda brot á sandrifinu því grynnra sem þar er.
 
Skipstjóri Baldurs:

Skipstjóri Baldurs telur að skip eins og Baldur, eða skip af þeirri stærð, henti mun betur til þessara siglinga heldur en Herjólfur. Baldur rási ekki á lensi, vegna byggingarlags hans. Þá telur hann að minna skip sé ekki endilega viðkvæmara fyrir öldunni.  

Segir hann þá hafa miðað vð þriggja metra ölduhæð við siglingar til hafnarinnar á Baldri og það viðmið mætti eflaust hækka á betur útbúnu skipi sem hefði t.d. öflugri hliðarskrúfu og stefni sem ekki væri eins flatt og á Baldri.

Telur skipstjóri Baldurs að gera ætti frekari prófanir með skipi eins og Baldri á þessari siglingaleið og fá þannig reynslu til að meta hvernig skip henti best til þessara siglinga.  Þá hafi Baldur verið notaður við siglingar til Þorlákshafnar með ágætum árangri. Telur hann að hafa mætti tvö slík skip á háannatíma, en öðru væri síðan lagt yfir vertrartímann.

Höfnin

Skipstjórar Herjólfs:

Að mati skipstjóranna er hafnarmynnið frekar þröngt og væri til bóta og yki öryggi að hafa „tunnur“ , samskonar og á enda Suðurvarargarðs í Þorlákshöfn, á enda hafnargarðanna.
 

Skipstjórar Herjólfs og Baldurs:

Telja þeir höfnina í sjálfu sér ágæta. Það helsta sem háir er að hún er þröng fyrir skip af þeirri stærð sem Herjólfur er, en hentar ágætlega fyrir skip af þeirri stærð sem hún er hönnuð fyrir.  

Mikill sandur hefur safnast fyrir inni í höfninni, utan við innri garðana og myndað þar sandeyrar og einnig er mjög grunnt innan hafnargarðanna utan þeirrar mjóu rennu sem skipið siglir um.  Þessi mikli sandur sem þarna hefur safnast gerir það að verkum að sá sjór, sem fylgir öldunni  sem leiðir inn í höfnina og hefði átt að „deyja út“ við innri garðana, fer nú inn að legustað skipsins og skapar þar mikla ókyrrð og erfiðleika við landgöngubrú farþega.

Jafn vel í annars góðu veðri, ef einhver alda er utan hafnarinnar,  er skipið á mikilli hreyfingu við viðlegukantinn og hefur skipið verið að lyftast svo í þessari ókyrrð að komið hefur fyrir að ekki var hægt að nota landgöngubrúna. Einnig gerir þessi mikla hreyfing það að verkum að
nota þarf meiri landfestar en annars væri.
 
Skipstjórar Herjólfs:

Komið hafa fram ýmsar tillögur um úrbætur úr ýmsum áttum en skipstjórar Herjólfs telja að rétt væri að gera mælingar á straum og öldu utan hafnarinnar og líkantilraunir í framhaldi af því til að finna út til hvaða aðgerða eða framkvæmda best væri að ráðast í til að lagafæra aðsiglingu að höfninni áður en farið verður í einhverjar kostnaðarsamar framkvæmdir, standi þær til.  

Telja skipstjórar Herjólfs að nýtt skip eða annað gamalt breyti ekki því að utan við hafnarmynnið er grynning eða sandrif sem, að óbreyttu, verður alltaf til vandræða og mun loka höfninni þegar á því brýtur, en það þarf ekki mikla ölduhæð til og því minni öldu sem grynnra er á rifinu. Því það geti ekki verið ásetningur Samgöngustofu að leggja farþega í þá hættu að þurfa að ferðast í gegnum brimgarð í siglingum á milli lands og eyja. Eins og sést
glöggt á myndum sem teknar hafa verið af þeim skipum sem siglt hafa til Landeyjahafnar þá hefur verið teflt á tæpasta vað sem er óréttlætanlegt með farþegaskip.
 

Lokaorð

Hér að framan koma fram upplýsingar frá þeim skipstjórum sem siglt hafa til Landeyjahafnar, reynsla þeirra og upplifun af þeim siglingum.   
Sumir þeirra hafa siglt yfir eitt þúsund sinnum til hafnarinnar við misjafnar aðstæður svo ætla má að sú þekking og reynsla sem skipstjórar skipanna hafa aflað á þessum tíma og sú þekking sem aflað hefur verið með mælingum á straum og öldu á svæðinu geti nýst við að finna út með hvaða hætti má lengja nýtingartíma hafnarinnar yfir árið, standi það til. Einnig ætti það að nýtast við hönnum á skipi sem mun leysa Herjólf af hólmi, þegar að því kemur.  

 

Vilbergur Magni Óskarsson,
Skólastjóri Skipstjórnarskóla Tækniskólans
 

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is