Helga Tryggvadóttir skrifar:

Náms- og starfsráðgjafi eða faglegur ráðgjafi?

19.Ágúst'15 | 17:18

Haustið 1997 hóf ég störf sem náms- og starfsráðgjafi við Hamarsskóla og Barnaskóla Vestmannaeyja sem síðar sameinuðust í Grunnskóla Vestmannaeyja. Öll þessi ár hef ég verið í 100% starfshlutfalli. Frá 2004 hef ég einnig verið verkefnisstjóri í Olweusaráætuninni gegn einelti. 

Síðustu 10 ár hef ég verið formaður kennarafélags Vestmannaeyja, jafnvel þó ég sé ekki kennaramenntuð, en náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum eru í sama stéttarfélagi og grunnskólakennarar. Í mörg ár hef ég setið sem fulltrúi kennara í fræðsluráði með allan sama rétt og kjörnir fulltrúar, nema atkvæðisrétt.

Síðasta haust fékk ég fullt námsleyfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og langþráður draumur um að klára meistaranám í mínu fagi varð að veruleika. Námið var eins árs diploma framhaldsnám á háskólastigi þegar ég lauk því á sínum tíma en var síðar fært upp á meistarastig.  Ég eyddi allri minni orku og tíma í námið, gekk vel og var ánægð. Það skyggði þó á að ekki fékkst afleysing í starfið mitt meðan ég var í námsleyfinu.

Í nóvember síðastliðinn var samþykkt á fundi fræðsluráðs að innleiða gæðastarf í skólana í Vestmannaeyjum. Eina fjármagnið í þetta verkefni átti að taka af úthlutun til faglegs ráðgjafa í Grunnskólanum og færa á skólaskrifstofuna þar sem ákveðið var að fræðslufulltrúi tæki þessi 50% að sér. Ég spurði hvað þetta þýddi og svarið sem ég fékk var að þetta væri bara tilfærsla á peningum. Ókei, tilfærsla á peningum er ekkert nýtt, en frekar spes að það átti bara að taka af Grunnskólanum en ekki leikskólunum sem gæðastarfið átti einnig að ná til. Rétt er að taka fram að í kerfinu eða á fjárhagsáætlun er hugtakið faglegur ráðgjafi ekki til og þó ég hafi verið fagleg í mínu starfi er starfsheitið mitt náms- og starfsráðgjafi.

Ég held áfram að einbeita mér að náminu. Frábær endurmenntun og ég að móta áætlanir til að bæta og breyta starfi náms- og starfsráðgjafans í takt við nýjasta nýtt í fræðunum. Svo heyri ég úti í bæ að það eigi að láta mig fara, það þurfi hvort eð er ekkert námsráðgjafa vegna þess að enginn slíkur hafi verið í skólanum í vetur. Þetta heyrði ég úr tveimur áttum í kringum áramótin. Ég spurði að sjálfsögðu minn yfirmann sem sagði þetta helbera vitleysu, það væri ekki á planinu að breyta neinu hvað varðar mitt starf og að svo sannarlega vantaði náms- og starfsráðgjafa í skólann í vetur. Rétt er að geta þess að náms- og starfsráðgjöf er lögboðin þjónusta í grunnskólum og viðmiðunartala sem víða er til í opinberum gögnum, því miður ekki í lögum eða reglugerðum, eru 300 nemendur á stöðugildi, en í GRV eru þeir yfir 500.

Svo fer ég að heyra aftur að ég fái ekki að snúa aftur í starf að loknu námsleyfinu, en það er nú þannig að sögusagnir eru oft bara það og ekki fótur fyrir þeim. Á sama tíma er mér boðið starf í höfuðborginni og ég hafði sambandi við minn yfirmann vegna þess að ef sögurnar reyndust réttar gæti borgað sig fyrir mig að skoða starfstilboðið. Yfirmaðurinn sagði að hann ætlaði ekki að breyta neinu hvað varðar mitt starf og með tilfærslu á peningum frá GRV á skólaskrifstofuna hefði hann hugmyndir um hagræðingu í skólanum sem myndu klára dæmið. Núna erum við komin fram í mars á þessu ári. Yfirmaður minn tjáði mér einnig að hans yfirmenn vildu að breytingar yrðu á mínu starfi en hann tæki það ekki í mál. Ég hafnaði starfstilboðinu í höfuðborginni. Svo kom í ljós að yfirmaður minnar stofnunar hafði ekkert um þetta að segja og þann 19. mars fæ ég bréf um að 100% staða mín við skólann verði lögð niður og mér boðin 50% staða í staðinn. Takk fyrir túkall. Ég held að yfirmaður minn hafi verið ósáttari en ég á þessum fundi okkar.

Ekki lifi ég af launum í 50% starfi. Búin að vinna af heilindum í 18 ár og var að klára massífa endurmenntun. En nei, vinnuveitandinn þarf ekki að halda á mér nema af hálfu. Ég einfaldlega gat ekki samþykkt þetta og hafnaði 50% starfinu. Ég fól stéttarfélagi mínu að leita eftir umræðum um starfslok sem vel var tekið í af hálfu bæjarins. Þá fór af stað farsi sem ég ætla ekki að fara út í hér sem endaði á því að ef ég vil fá eitthvað fram yfir kjarasamninga þá þarf ég að senda erindi til bæjarráðs. Bærinn fer eftir kjarasamningum og ekki neitt umfram það, gott og vel, ekkert við það að athuga. En af hverju í ósköpunum samþykkti bærinn þá að fara í umræður um starfslok!

Ég segi bara eins og er að mér finnst illa farið með mig. Ef bænum var svona umhugað að losna við mig af hverju var þá ekki hægt að ræða við mig? Ef ég hef staðið mig illa í starfi hefði verið fínt að fá að vita það á einhverjum tímapunkti á þessum 18 árum. En það er sem sagt búð að skipuleggja mig út úr starfi til að rýma fyrir starfsmanni sem hefur aldrei starfað sem náms- og starfsráðgjafi, er með minni menntun en ég í faginu og á auk þess að innleiða gæðastarf í skólanna í Eyjum. Ég vona að í hin 50% fáist öflugur náms- og starfsráðgjafi.

Faglega séð finnst mér þetta metnaðarleysi. Í rúmlega 500 barna skóla eiga auðvitað að vera tveir náms- og starfsráðgjafar í 100% starfi. Ekki tveir í 50% þar sem annar á auk þess að sinna öðrum verkefnum. Skilningur á starfinu er að mér virðist enginn, sem mér finnst miður fyrir nemendur og skólann í heild.

Kannski var ég bara svona vitlaus að fatta ekki að allt frá því í nóvember snerist þetta um mitt starf. En ég kaus að trúa mínum yfirmanni sem við héldum að hefði mannaforráð í sinni stofnun. En núna veit ég það sem sagt að Vestmannaeyjabær er búinn að breyta starfsheitinu náms- og starfsráðgjafi í faglegur ráðgjafi.

Þetta er engin skemmtisaga en mér finnst samt rétt að koma þessu frá mér þar sem ég hef mikið verið spurð. Auk þess hefur mér nefnilega stundum fundist að excel skjalið skipti meira máli en fólk. Og það vill nú bara þannig til að starfsfólk Vestmannaeyjabæjar er líka fólk.

Ég óska skólasamfélaginu í Vestmannaeyja að sjálfsöðu velfarnaðar og veit ég að það öfluga samfélag sem hér um ræðir á eftir að standa keikt án mín. Ég er ekkert ómissandi frekar en aðrir, en ég er samt ósátt yfir þessu öllu saman.

Sjáumst síðar.

 

Helga Tryggva

Náms- og starfsráðgjafi.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).