Skipið kom mjög vel út í siglingahermi

- Þó erfitt að ná breytingum öldu þegar hún kemur á minna dýpi

17.Apríl'15 | 09:25
WP_20150313_003

Guðlaugur skipstjóri að sigla skipinu í herminum

Andrés Þorsteinn Sigurðsson á sæti í smíðanefnd nýrrar farþegaferju sem nú er langt komið með að hanna. Líkt og Eyjar.net greindi frá, fór hann ásamt einum af skipstjórum Herjólfs í siglingahermi í Danmörku í mars. Við ræddum við Andrés um nýja skipið.

Nú fóruð þið Guðlaugur Ólafsson skipstjóri Herjólfs út til Danmerkur til að prófa nýju ferjuna í siglingahermi.

Hvernig gekk það hjá ykkur?

Þegar við Guðlaugur vorum við prófanir hjá Force í Danmörku var verið að prófa stjórnhæfni nýju ferjunar og ekki er hægt að segja annað en að skipið hafi komið mjög vel út. Siglingahermir Force í Danmörku er mjög fullkominn, þó er að svo sé er sumt erfitt að herma en annað auðvelt, þó eru þetta bestu tæki sem völ er á. Það sem gert var að nýju ferjunni var siglt inn og út í Landeyjarhöfn við erfiðar aðstæður og kom skipið vel út.

Var hægt að prufa allar mögulegar aðstæður sem upp kunna að koma í og við Landeyjahöfn í herminum?

Það var hægt að prufa allar öldustefnur, mismunandi sveiflutíðni öldu, mismunandi ölduhæð, straumstyrk og stefnu, vindstyrk og stefnu. Vandamálið við hermunina er að erfitt er að ná breytingum öldu þegar hún kemur á minna dýpi, en það er talsverður munur á hermun og raunveruleika þegar allir þættir eru keyrðir saman. Við gerðum okkur fulla grein fyrir þeim annmörkum sem voru á prófununum. Aðalatriðið er eftir sem áður að markmiðið með prófununum er að fá eins gott skip og kostur er og teljum við það hafa tekist.

Telur þú að ný ferja tryggi samgöngur við Landeyjahöfn allt árið?

Það er ekki alltaf alla daga vont veður yfir vetrartímann og þegar veðrið er ekki slæmt er hægt með grunnristara og betra skipi að sigla til Landeyjarhafnar yfir veturinn, höfnin er ekki lokuð. Ef tekið er dæmi tel ég það betri kost að sigla tvær ferðir fyrir hádegi til Landeyjarhafnar áður en veður spillist heldur en að sigla til Þorlákshafnar í góðu veðri og eiga svo eftir marga klukkutíma í að berjast heim í vondu veðri og ná bara einni ferð, því veðrið er fljótt að breytast. Við erum háð veðri og munum alltaf verða það og í tilvikum munum við þurfa að sigla til Þorlákshafnar, hversu oft þau tilvik verða get ég ekkert fullyrt um.

 

Nú er þetta skip bæði styttra og ekki eins breytt og núverndi Herjólfur - en á samt að flytja jafn mikið af fólki og fleiri bifreiðar. Hvað útskýrir þennan mun?

Þó að nýja skipið sé minna munar mjög litlu á stærðinni, nýja skipið er 5 metrum styttra og mismunur á breidd er 1 meter. Þrátt fyrir það er bíladekk nýja skipsins svipað á breidd en lengra. Hægt er að setja tvöfalda röð af flutningavögnum án þess að það trufli lestun fólksbíla, sem er ekki hægt í núverandi Herjólfi. Heildarlengd bíladekks Herjólfs er 260m ef hægt er að slaka bílalyftu en á nýja skipinu er bíladekkið alltaf 300m, óháð lyftu eða vögnum. Þar af leiðir að það er eðlilegt að nýja skipið taki fleiri bíla og vagna. Varðandi fólksfjöldan er plássið betur nýtt og skipið er sáralítið minna en Herjólfur.

 

Kemur aldrei upp efi, í þínum huga að þessi ferja verði ekki sú samgöngubót sem við þurfum ef t.d skoðuð er umferðaspá Vegagerðarinnar?

Það er enginn efi hjá mér um það að til að ná árangri í siglingum til Landeyjahafnar þarf nýtt skip. Ef skoðuð er umferðarspá Vegagerðarinnar þá er miðað við flutninga um Landeyjahöfn. Með mörgum ferðum nást afköst í fólksflutningum. Ef við stækkum skipið fækkar ferðum til Landeyjahafnar og afköstin minnka, einnig mun eftirspurn eftir ferðum detta niður. Það hefur sýnt sig að fólk vill ekki koma til Eyja ef siglt er til Þorlákshafnar, en auðvitað er hægt að hafa áhyggjur af verkefninu því það er erfitt.

 

Hvernig sérð þú áætlun nýs skips?

Varðandi siglingaráætlun nýs skips er það ekki í mínum verkahring að skapa hana. Þó get ég sagt að með breyttu skipulagi varðandi afgreiðslu bíla í skipið er ekkert því til fyrirstöðu að láta skipið fara frá Eyjum á tveggja tíma fresti. Við þurfum að vera búnir að afgreiða bílana og vagnana áður en skipið leggst að bryggju svo allt sé klárt þegar skipið kemur. Þetta á við um sumartímann þegar umferðin er sem mest og veðrið best. Við þurfum að líta á skipið sem verksmiðju sem framleiðir þegar það siglir en framleiðir ekkert þegar það er bundið við bryggju.

 

Mín skoðun er sú að auðvitað þurfi að bæta Landeyjarhöfn það verður ekki öllu reddað með nýju skipi. Það þarf að ná betri tökum á dýpkun og aðkomuni að höfninni. Það þarf að þróa höfnina áfram en það tekur langan tíma eins og annarstaðar þar sem hafnir hafa verið gerðar. Með nýju skipi lagast staðan og við eigum að byrja á að gera það sem er auðveldast en það er að smíða nýtt skip sem getur siglt í aðstæðum sem Herjólfur getur ekki, en það er þó ekki hin endanlega lausn. Við Eyjamenn höfum því miður ekki verið sammála um lausnir og er ég viss um að það hefur tafið fyrir framþróun í samgöngumálum. Í mínum huga er alvöru framtíðarsýn fólgin í því að Landeyjarhöfn verði betri og við verðum með tvö skip í siglingum þangað. Markmiðið hlýtur að vera siglingar í Landeyjahöfn allt árið og við verðum að halda þeim kúrs, sagði Andrés Þorsteinn að lokum.

 

Eyjar.net óskaði einnig eftir viðtali við Guðlaug skipstjóra - en hann baðst undan því.

Samanburður.

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-