Ort í sandinn
28.Mars'15 | 11:37Eyjar.net hefur borist kvæði sem á ágætlega við, nú þegar styttist í opnun Landeyjahafnar. Hið upprunalega Ort í sandinn er eftir Geirmund sveiflukóng á Sauðárkróki. Við birtum hér fyrra kvæðið. Hitt kemur á næstu dögum hingað í Meistaradeildina.
Ort í sandinn
(...Meira að segja titill kvæðisins er stolinn!)
Í Vestmannaeyjum menn vona það heitt
að verði hann jarðaður, fjandinn:
Að senn fáum samgöngumálunum breytt;
úr sögunni hverfi brátt vandinn:
Höfnin er horfin í sandinn!
Forðum var viðhorfið: ,,Grafa þarf göng!”
(Svo gaman er hátt flýgur andinn!)
Biðin hjá okkur er orðin svo löng
en endalaust magnast þó vandinn,
því höfnin er horfin í sandinn!
Eygðu menn lausnina Landeyjum í,
langeygðir beisluðu gandinn.
Loks sáu margir til sólar á ný:
Sérdeilis hentugur grandinn
sem höfn – en hún hvarf bar´ í sandinn!
Margir þar brugðust – ég nefn´ engin nöfn
– nægur samt fyrir er vandinn!
En þeir voru margir sem hömpuðu höfn;
hugmyndin skoðunum blandin
um höfn sem er horfin í sandinn!
Bjargfasta á því hef einlæga trú
að endingu samgönguvandinn
leysist ef snarlega byggjum við BRÚ
frá bryggjunni héðan í sandinn
í Landeyjum. Kætist þá landinn!
(Og stöðugt er styttra í sandinn!)

Fréttaskot - Eyjar.net
31.Janúar'18Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.
Má bjóða þér að auglýsa hér?
15.Janúar'18Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.