Framkvæmda- og hafnarráð:

Óbreytt fyrirkomulag eða sorpbrennsla?

9.Mars'15 | 11:29

Framkvæmda- og hafnarráð fór á síðasta fundi sínum yfir minnisblað starfshóps vegna framtíðarskipan sorpmála í Vestmannaeyjum. Óbreytt fyrirkomulag eða sorpbrennsla, eru þeir möguleikar sem liggja á borðinu. Hópurinn telur aftur á móti að nauðsynlegt sé að skoða betur jarðgerð með gasframleiðslu og óskar eftir lengri tíma til að skila lokaskýrslu um málið.

 

Bókun ráðsins:

Framtíðarskipan sorpmála í Vestmannaeyjum
Fyrir lá minnisblað starfshóps vegna framtíðarskipan sorpmála í Vestmannaeyjum.
 
Hópurinn hefur hist 10 sinnum auk þess sem skipt hefur verið verkum og upplýsinga leitað.
Farið hefur verið yfir þá möguleika sem bjóðast og var ákveðið að skoða betur fjóra kosti. Í öllum til fellum er gert ráð fyrir að fyrirkomulag flokkunar sé óbreytt, þ.e. þriggja tunnu kerfi við heimili og meiri flokkun á plani.
 
Flutningur á sorpi upp á land til eyðingar
Í dag er almennt sorp flutt upp á land til eyðingar, ýmist í urðun eða brennslu. Slíkt hefur í för með sér mikin kostnað og að ógleymdum vandamálum sem fylgja því að flytja sorp í farþegaskipi. Einnig er háannatími í flutningum sá sami og í sorpmagni. Farið var yfir þann kostnað og það fyrirkomulag sem er í dag og skoðað hvort möguleiki sé á einhverjum breytingum. Hægt er að bagga sorp og minnka rúmmál en lítill ávinningur er í því almenna sorpinu því flutningstæki eru nánast fullnýtt varðandi þyngd í almenna sorpinu. Hægt er að pressa og bagga endurvinnsluefni og minnka þannig rúmmál en það hefur ekki áhrif á kostnað heimila og fyrirtækja og því ekki forsvaranlegt að leggja út í milljóna kostnað sem á engan hátt skilar sér til baka til samfélagsins.

Flutningur erlendis til eyðingar
Skoðað var að flytja almennan úrgang erlendis til eyðingar. Horft var til Færeyja þar sem sorpbrennsla er starfandi. Í ljós kom að kostnaður var svipaður og að flytja almenna sorpið upp á land en í desember kom erindi frá stjórnendum brennslustöðvarinnar þar sem þeir sæu sér ekki fært að taka við almenna sorpinu úr Vestmannaeyjum vegna mikillar aukningar á sorpmagni í Færeyjum og afkastageta brennslustöðvarinnar ekki nægjanleg. Kosturinn við Færeyjar er að þar gilda ekki sömu reglur og kröfur varðandi flutning á sorpi yfir landamæri auk þess sem gámaskipin fara beint frá Vestmannaeyjum til Færeyja

Jarðgerð úr almennu sorpi ásamt gasgerð
Sorpa BS hefur áform um að jarðgera allt almennt sorp með sérstakri tækni sem hefur verið að ryðja sér til rúms. Að auki myndast Metangas sem nýtist til rafmagnsframleiðslu. Eftir skoðun hjá Sorpu og lauslega úttekt á því hvers konar búnað þyrfti var ljóst að stofnkostnaður yrði svo mikill og tækjabúnaður svo flókinn og stór að slíkt er ekki gerlegt miðaða við það sorpmagn sem til fellur í Vestmannaeyjum. Í febrúar komu aftur á móti fram nýjar upplýsingar sem gera þennan kost fýsilegri en áður þar sem framleiddur hefur verið tækjabúnaður sem hentar samfélagi á stærð við Vestmannaeyjar. Ekki hafa hins vegar fengist nægjanlegar upplýsingar ennþá til að meta hvort þetta sé eitthvað sem hentar í Vestmannaeyjum. Hefur verið kallað eftir meiri upplýsingum um stofn- og rekstrarkostnað og eru þær væntanlegar á næstu vikum.

Sorpbrennsla
Þróun í sorpbrennslum hefur verið mikil frá því síðasta sorpbrennsla var reist í Vestmannaeyjum. Nú er svo komið að hægt er að kaupa tilbúnar stöðvar sem uppfylla alla staðla Evrópusambandsins um mengun í nánast öllum stærðum og gerðum. Var farið yfir þá hluti sem í boði eru og skoðað með tilliti til aðstæðna í Vestmannaeyjum. Hægt er að fá brennslu sem fullnægir þörf Vestmannaeyja og rúmast hún í núverandi húsnæði án mikilla breytinga. Breyta þarf innmötun og fjárfesta í hakkara. Með þessum breytingum er áætlað að kostnaður við slíka stöð, uppkomna sé á bilinu 320-350 milljónir. Ekki var farið djúpt í skoðun á orkuframleiðslu en ljóst að enhver varmi myndast við slíkan bruna sem væntanlega yrði nýttur á einhvern hátt. Rekstrarkostnaður fellur innan þess ramma sem kostnaður við förgun er í dag frá heimilum og fyrirtækjum. Þá stendur hinsvegar eftir stofnkostnaður en mikilvægt er að kostnaður við sorpmeðhöndlun fyrir heimili og fyrirtæki verði ekki hærri en nú er ef að slík brennsla yrði keypt.
Sorpbrennsla af þessari stærð er álitlegur kostur að mati vinnuhópsins en áherslu þarf að leggja á að ná niður bæði rekstrar og stofnkostnaði enda tilgangurinn fyrst og fremst sá að ná niður kostnaði fyrir fyrirtæki og heimili.
 
Niðurlag
Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir eru tveir möguleikar á borðinu. Óbreytt fyrirkomulag eða sorpbrennsla. Hópurinn telur aftur á móti að nauðsynlegt sé að skoða betur jarðgerð með gasframleiðslu.
Hópurinn óskar eftir því við Framkvæmda- og hafnarráð að fá frest til 1.júní 2015 til að skila lokaskýrslu varðandi framtíðarskipan sorpmála í Vestmannaeyjum þar sem nokkur atriði standa enn út af borðinu sem hópnum finnst fýsilegt að skoða og ekki hafa fengist nægjanlegar upplýsingar um. Einnig er ljóst að þörf er á sérfræðiaðstoð í hluta verkefnis og er óskað eftir fjármagni til þess að standa straum af slíku en ekki er gert ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun ársins 2015. Getur sú fjáhæð numið allt að þremur milljónum á árinu 2015.
Ráðið samþykkir að veita frest til 1.júní 2015 til að skila lokaskýrslu og beinir fyrirspurn um fjárútlát til afgreiðslu bæjarráðs.
 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).