Sveinn Valgeirsson, skipstjóri á Lóðsinum skrifar:

Kaflinn sem vantaði í söguna alla!

- Við eigum ekki að taka skýrslum og fullyrðingum sérfræðinga athugasemdarlaust!

12.Febrúar'15 | 12:22

Næsta sumar eru liðin 5 ár síðan Landeyjahöfn var opnuð fyrir siglingar Herjólfs. Nú er ágætt að staldra við og líta yfir farinn veg í þessum málum.  Sjálfur hef ég farið ófáar ferðirnar þarna upp eftir, ýmist til mælinga, athugunar á lóðsinum, nú eða sem notandi Herjólfs.

Hvað varðar þá spurningu, sem oft ber á góma um hvort Landeyjahöfn sé nú allt í einu nógu góð og vanti bara rétta skipið er mitt svar:

Höfnin sjálf er ekki aðal vandamálið, heldur er aðkoman að henni, og sú staðreynd breytist ekki við nýja ferju, hvort sem hún er frá Grikklandi eða lítil ferja frá smíðanefndinni. Reyndar væri ágætt að fá grísku ferjuna til prufu. Með því fengjust svör við ýmsum spurningum varðandi samgöngur milli lands og Eyja.

Til dæmis er stjórnhæfni grísku ferjunnar væntanlega meiri en litlu ferjunnar við erfiðar aðstæður eins og við Landeyjahöfn. Gríska ferjan er með fjórar  skrúfur á móti tveimur skrúfum á litlu ferjunni  auk  hliðarskrúfu, en þær hafa litla virkni, nema skipið sé nánast stopp.  Djúprista grísku ferjunnar er mest 3,5m en á litlu ferjunni mest 3,0m.  Flutningsgetan er margföld á við litlu ferjuna og það væri skemmtileg upplifun fyrir okkur Vestmanneyinga að prufa eitt sumar án biðlista. Losna við biðlistana fyrir bifreiðar!  Flutningsþörfin yrði mun skýrari, einnig aðstæður við höfnina.

 

Spyrjum sérfræðingana!

Ég ætla að tína til nokkur atriði varðandi Landeyjahöfn, sem útskýra hvers vegna ég tek skýrslum og fullyrðingum sérfræðinga með fyrirvara og tel rétt að fara yfir þær.

Í febrúar 2007 boðaði Siglingastofnun til kynningarfundar um niðurstöður rannsókna á Landeyjahöfn í húsi stofnunnarinnar í Kópavogi. Á þessum fundi var líkanið af Landeyjahöfn kynnt fyrir fundargestum. Á þennan fund var bæjarstjórn Vestmannaeyja boðuð og einnig  sveitarstjórnarfólki er hefur aðkomu að Landeyjarhöfn og  þingmönnum suðurlands  ásamt fleirum. Þáverandi hafnarstjóri bauð mér á fundinn, þar sem einn fundarmanna hafði forfallast.

Fundurinn byrjaði á því að yfirhönnuður Landeyjahafnar fór yfir niðurstöður rannsókna á Landeyjahöfn og sagði hann meðal annars að viðmið í ölduhæð vegna siglinga í Landeyjahöfn væri 4 metrar, sem væri varlega áætlað að hálfu stofnunnarinnar, sjálfur teldi hann að menn myndu sigla í 5 metra ölduhæð eftir eitt til tvö ár, þegar þeir væru búnir að læra á innsiglinguna!

Við kynningu á líkaninu kom fram að einungis væri búið að gera rannsóknir á sunnan öldu, ekki SV eða SA öldu. Ég spurði yfirsérfræðinginn hvernig þeir ætluðu að gera tilraunir á SV og SA öldu, þar sem ekki væri pláss til að gera það eins og líkanið væri sett upp. Hann sagði það ekkert mál þeir myndu færa öldutækin til að gera þessar tilraunir.

 

Ekki gerðar fullnægjandi tilraunir?

Mér skilst að þeir hafi reynt við SV ölduna, en ekki gengið vel og hætt fljótlega, en SA öldu gátu þeir ekki gert tilraunir með. Samt stendur í lokaskýrslunni sem kom út rúmum mánuði eftir þennan fund að tilraunum með SV og SA öldu sé lokið! Þetta eru þær öldur sem valda mestum vandamálum við Landeyjahöfn. Ég spyr því, var SA alda aldrei könnuð?

Í lokaskýrslunni var viðmiðið allt í einu orðið 3,7m! Við opnun hafnarinnar 20. júlí 2010 var viðmiðið 3,7 miðað við flóð og svo minnkandi eftir sjávarföllum og núna eru þeir byrjaðir að tala um 3,5m!

Hvaða rannsóknir liggja að baki þessum tölum?  Ég get fullyrt það hér, að hvorki hönnuðir hafnarinnar né núverandi smíðanefnd eða sérfræðingar þeirra, hafa komið að Landeyjahöfn og gert rannsóknir á öldufari, hvorki frá landi né sjávarmegin. Það er grafalvarlegt í mínum huga!

Öldumæladuflið við Landeyjahöfn sýnir kenniöldu, þar sem ein af hverjum 200 öldum  getur verið 60% stærri en uppgefin mæling á duflinu sýnir þannig að við 3,5m öldu getur ein af hverjum 200 verið um það bil 5,6m alda!  Finnst fólki eða sérfræðingum líklegt að siglt verði að jafnaði við þær aðstæður í  Landeyjahöfn, hvort heldur sem það er flóð eða fjara, SA eða SV alda, sterkur eða lítill straumur?

Talandi um strauminn, þá benti ég á það í grein í Fréttum í apríl 2007 ásamt mörgu öðru að engar straummælingar hafi farið fram við Bakkafjöru, en yfirhönnuður  Landeyjahafnar  taldi það ekki vanalegt að gera straum mælingar og það ekki nauðsynlegt. Annað hefur heldur betur komið á daginn.  Hver kannast ekki við þessar yfirlýsingar ¨vegna  óhagstæðra öldu og strauma við Landeyjahöfn fellur næsta ferð niður¨?

 

Geta ekki ræktað fjöruborðið

Þegar loftmynd af Landeyjahöfn er skoðuð, sést að höfnin og öll aðstaða fyrir tæki og tól eru sunnan við gróðurlínuna, þannig þegar vindar blása þá er uppgræðslan öll vel norðan við það sem átti að verja fyrir sandfokinu.  

Í upphafi höfðu ég og fleiri miklar áhyggjur af sandfoki og hugsanlegu tjóni á farartækjum vegna þess. Sérfræðingar Landgræðslunnar töldu þetta ekki vandamál, einungis spurning um fjármangn til að rækta upp sandinn. Það reyndist rétt að öllu leiti nema því  að öll aðstaða í og við Landeyjahöfn er fyrir sunnan þá línu sem Landgræðslan getur ræktað, það er að segja að þeir geta ekki ræktað fjöruborðið þar sem höfnin og bílastæðin ásamt annari aðstöðu er.  Það hafa orðið mikil tjón á farartækjum þegar fólk hefur orðið að skilja þau eftir þegar skroppið er til Eyja.

Þetta sýnir að öll aðstaða í og við höfnina er c.a 200m of utarlega?  Þetta hefði verið gott að hafa í huga við gerð hafnarinnar! Hvernig stendur á þessu?

Ég hef  fleiri dæmi sem kjörnir fulltrúar eða skipaðir fulltrúar okkar í smíðanefnd ættu að fara nánar yfir, með sérfræðingum hvort heldur sem þeir eru með háskólapróf, eða sjálfskipaðir sérfræðingar með reynsluna að vopni hvernig þeir hafi komist að hinni eða þessari niðurstöðunni. Þetta er því miður ekkert grín!

 

 Ég get  ekki látið hjá líða að minnast á fyrirsögn Sigurðar Áss Grétarssonar í Fréttum fyrir nokkru:

ALLAR HUGMYNDIR UM STÆRRI HÖFN OG STÆRRA SKIP ERU ANDVANA FÆDDAR!

Í lokaskýrslunni frá apríl 2007 er sýnd  stórskipahöfn við Bakkafjöru og hún staðsett rétt vestan við dæluhúsið. Þar var búið að teikna hafnargarða út á 17m dýpi og átti þessi höfn að vera opin við allar venjulegar aðstæður sem við erum vön að nota aðrar hafnir.

Er ekki rétt að spyrja:   Hvað hefur breyst?

Nýjasta afrekið í Landeyjahöfn er svo kölluð þjónustubryggja sem er hugsuð fyrir sanddæluskipin til að liggja við. Svo ekki þurfi að sigla yfir til Vestmannaeyja, þegar bið er við dælingu. Það er skemmst frá því að segja að bryggjan er svo stutt og illa hönnuð að dæluskipin geta ekki notað hana og þar fyrir utan gengur sjór yfir hana á stórstraumsflóði ef einhver hreyfing er. Hver ber ábyrgð á þessu?

Hvenær eigum við að hætta að taka allt sem gefið jafnvel þó það komi frá sérfræðingunum!

En hefur ekki verið svarað spurningum Guðmundar Þ.B. um hvort ekki hafi verið farið að tillögum um endurbætur á Herjólfi og þá hver hafi tekið þá ákvörðun og hvers vegna? Afhverju svara sérfræðingarnir ekki?

Einnig kom fram á kynningarfundi smíðanefndar  í Eyjum í haust að þarfagreining hafi verið gerð fyrir nýsmíðina, en þeir voru ekki með hana með sér. Síðar kom hún fram í dagsljósið, og passar hún engan veginn við það skip sem nú er á teikniborðinu, sú ferja verður fljótlega of lítil miðað við þarfagreininguna.

 

FULLYRIÐINGAR  SMÍÐANEFNDAR  UM FRÁTAFIR  VEGNA  VEÐURS STANDAST  ENGA  SKOÐUN.

Fullyrðingar smíðanefndar og skipatæknifræðings um að nýja ferjan sigli í að minnsta kosti 3,5m ölduhæð miðað við sjólag við Landeyjarhöfn, standast enga skoðun! Hvað stendur á bak við þessa fullyrðingu? Kannski tvær ferðir Baldurs í Landeyjahöfn í 3,6m öldu, sem Siglingastofnun sló síðan upp  sem viðmiðunnaröldu fyrir nýja ferju.

Fullyrðingar smíðanefndarmanna um frátafir vegna veðurs og sjólags  fyrir nýju ferjuna eru byggðar á ófullkomnum og ótrúverðugum ransóknum og gefnum niðurstöðum!

Smíðanefndin hefur verið að sigla í svo kölluðum Force siglingarhermi líkani af ferju sem er svipuð og væntanleg nýsmíði á að vera.

Í þessum siglingahermi er ekki hægt að sigla í öldum sem líkjast þeim öldum sem eru á rifinu  utan  við Landeyjahöfn, einungis öldum sem eru líkastar þeim öldum sem eru utan við rifið  við Landeyjahöfn. Hvað þá heldur kenniöldu, þar sem ein af hverjum 200 öldum er 62% stærri sem þýðir að í 3,5 kenniöldu er í það minnsta ein af hverjum 200 öldum 5.6m há.  Alda af þessari stærð væri væntanlega á bilinu 100 til 200m löng og breittist í stórt grunnbrot á rifinu.  Það er rétt að geta þess að eftir því sem aldan er lengri þeim mun meiri massi hleðst upp áður en hún hvolfist og brottnar sem grunnbrot.

Kemur nýja ferjan til með að láta að stjórn við slíka öldu á 5 til 6 m dýpi á rifinu? Kemur nýja ferjan yfir höfuð til með að láta að stjórn í 3,5 kenniöldu á rifinu?

Það veit engin svarið við þessum spurningum. Vegna þess að það eru engin líkön eða hermar til sem geta kannað þetta. Ég hef marg oft  bæði munnlega og skriflega bent þeim, sem með þessi mál fara á að koma og skoða þær aðstæður, sem þeir fullyrða að nýja ferjan geti silgt í.  Þessi hugmynd hefur ekki fengið  góðan hljómgrun hjá fulltrúum smíðanefndar. Hafa þeir jafnan spurt hvað þeir eigi að skoða?

Smíðanefndin gæti t.d komið og skoðað kenniöldur frá 3m til 3,5m hæð og frá 80m til 200m löngum á fjöru – miðsjávar og á flóði. Þessar athugannir væri hægt að gera samtímis frá landi og sjó.

Það mætti til dæmis nota Lóðsinn til að gera öldufars rannsóknir utan við höfnina, þetta gæti sparað þeim langar og þreytandi vinnuferðir til Danmörku í siglingarherminn.

Engin í smíðanefndinni eða hönnuðir hafnarinnar hafa komið að Landeyjahöfn og skoðað aðstæður við t.d 3m -3,5m ölduhæð og í mismunandi öldulengdum! Það skiptir máli!

Hvernig  alda breytist og brotnar þegar hún kennir grunns er hægt að sjá í ýktri mynd á myndböndum frá flóðbylgunni á Indónesíu en þar kom jarðskjálfti af stað flóðbylgju.  Það er talið að bylgjan hafi verið um 11m há þegar hún kom  að landi.

Þegar þessi alda kenndi grunns við Indónesíu sést vel hvernig hún þurrkar í sig sjóinn og hleðst upp  áður en hún brotnar og skellur á landi.  Óttast var um sjómenn á smábátum undan ströndum Indónesíu þar sem aldan fór um, en þeir urðu lítið varir við þessa öldu vegna þess að aldan kenndi ekki grunns þar sem þeir voru.

Einnig er hægt að skoða hvernig brimbretta fólk hegðar sér við að velja öldu til að bruna á. Þau róa á brettinu út fyrir brotölduna og bíða eftir hagstæðri öldu og fylgja henni svo þar til hún hleðst upp og breytist í grunnbrot og þá er brunað á brimbrettinu með öldunni.

 

Ekki virðast allir jafn sannfærðir og áður um ágæti nýsmíðinnar.

Í nýlegu viðtali við bæjarstjóra endar hann með að tiltaka að gera þurfi þá kröfu að núverandi skip þurfi að tryggja hér í a.m.k 2 ár eftir að nýsmíðin byrjar að ganga. Nýsmíði sem á að kosta um 5 þúsund milljónir. Hvað á þá að gera ef nýsmíðin virkar ekki sem skyldi?                                                                                       

Á þá að leggja nýju ferjunni og nota þá gömlu? Er ekki kominn tími til að staldra við?  Á hvaða vegferð erum við, þegar bæjarstjórn hefur ekki meiri trú á nýsmíðinni en svo að gera kröfu um að halda eftir gamla skipinu, ef nýsmíðin uppfyllir ekki nútíma kröfur í samgöngumálum Vestmannaeyinga?

 

Lokaorð.

Að þessum orðum sögðum er mín einlæga ósk sú að þessi grein sé ekki flokkuð sem illt umtal um Landeyjahöfn, heldur grein til upplýsinga fyrir Eyjamenn um raunverulega stöðu mála og ósk um að við verðum upplýst á óyggjandi hátt um stöðu mála .

Að endingu geri ég það að tillögu minni að kannað verði hjá Vestmanneyingum hvað þeir vilja í samgöngumálum:

  • Vilja Vestmannaeyingar halda áfram með hönnun á lítilli ferju,  með verri aðbúnað  til siglinga í Þorlákshöfn og  kemur ekki til með að anna væntanlegri flutningsþörf hvoki á farþegum eða farartækjum yfir sumartímann?
  • Vilja Vestmannaeyingar að kannað verði með óyggandi hætti hvort höfnin verði ekki betri og í framhaldi af því tekin afstaða til nýsmíði á ferju?
  • Ferju sem eigi möguleika á að mæta aukinni fluttningsþörf og uppfylla nútíma kröfur um þægindi fyrir farþega í siglingum milli lands og Eyja ?

 

Að vera nægjusamur og lítilátur eru góðir eiginleikar, en lítillæti og nægjusemi er ekki kostur í  einu stærsta hagsmunamáli Vestmanneyinga. Samgöngumálum!

Þar þarf fólk að vera raunsætt en stórhuga og hafa klára framtíðarsýn á hagsmunum Vestmannaeyinga.

 

Með vinsemd.

Sveinn R. Valgeirsson

Skipstjóri á Lóðsinum.

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is