Páll Scheving Ingvarsson skrifar:

Þjáningin & kærleikurinn

18.Desember'14 | 13:19

Ég var tuttugu og sjö ára gamall daginn sem ég fór í fyrsta sinn yfir landamærin sem þá skildu að Kína og Hong Kong. Á þessum tíma er Hong Kong bresk nýlenda og miðstöð viðskipta í Asíu. Hún seldi stóran hluta af framleiðslu Kínverja. Fyrir mörgum var var Hong Kong borg tækifæranna og þar af leiðandi full af mönnum í leit að ævintýrum, gulli og grænum skógum. Kínverjar þar búsettir tóku gjarnan upp bresk fornöfn, það þótti heppilegra gagnvart alþjóða viðskiptum. Ferðafélagi minn í þessari ferð var miðaldra lífsreyndur Kínverji sem búið hafði í Hong Kong um árabil. Hann bar þess engin merki að hafa undirritað ábatasama samninga á undanförnum árum, önnur en þau að mjög greinilegt var að hann hafði ekki þjáðst af hungri. Hann kallaði sig Alan Ling og hafði að eigin sögn góð sambönd við verksmiðjur í suðurhéruðum Kína sem ég hafði áhuga á að skoða. Þessi ferð er mér fyrir margar sakir minnistæð en þegar frá líður er það einkum eitt sem stendur upp úr. Frá því er greint hér.

Þegar við gengum út af brautarstöðnni í Zenzhen í morgunskímunni, birtist ný veröld. Það var mikill og greinilegur munur á umhverfi og hag þess fólks sem hér lifði og þeim sem lifðu í öðru hagkerfi skammt undan. Við gengum malargötur þar sem þreyttir yfirfullir almenningsvagnar í vonlausri baráttu við að halda uppi áætlun, þyrluðu upp ryki sem settist í svita þeirra fjölmörgu sem ýttu á undan sér eða drógu á eftir sér vagna hlöðnum nauðsynjum dagsins.  Grænmeti, grjónum, hænum og svínum sem höfðu enga hugmynd um það að þeim myndi hugsanlega blæða út á markaðnum í dag. Mannfjöldinn var gríðarlegur. Það var mitt í þessari kös sem ég geng fram á veikburða barn sem liggur afskipt á palli fyrir framan fátæklegt tehús. Það er ekki eldra en þriggja ára, nakið og óhreint. Barnið lyftir hendinni sem heldur um plastmál og horfir til mín tómum augum þeirra sem ekkert eiga. Engann frið, enga ást, ekkert skjól, enga von. Bara angist og ótta. Ég hafði oft á lífsleiðinni hitt betlara en aldrei fundið jafn sterkt fyrir raunverulegri eymd og þjáningu. Ég fór í vasann og fann nokkra Hong Kong dollara, sem ég setti í plastmálið. Mér leið strax betur. Það kom mér hins vegar á óvart þegar hinn feitlagni félagi minn, Alan Ling, bað mig kurteislega að gera þetta ekki aftur, ég skynjaði ekki ástæður þess. Ekki leið langur tími þar til ég gekk aftur fram á barn sem svipað var ástatt fyrir og sagan endurtók sig. Ég gaf nokkra dollara og Alan fetti fingur út í þessi afskipti mín af eymd þessara barna og bað mig að gera þetta ekki. Það flögraði að mér að demba á hann að misjöfn væru vandamál dagsins, meðan einn veit ekki hvort hann fær að borða væri stærsti vandi annars að hneppa að sér buxunum. Ég sleppti því. Þegar þetta gerðist í þriðja skiptið, greip Alan í mig, sagði mér að þegar við kæmum á hótelið skildi hann segja mér sögu og í framhaldi af því myndi hann glaður gefa hverju þessara barna þúsund dollara ef ég færi fram á það, ef ég bara lofaði því að hætta þessu núna. Ég ákvað að samþykkja það.

Shangri La hótelið var eins og vin í eyðimörk. Íburðurinn ótrúlegur, þjónar á hverju strái og Won ton súpan bragðaðist vel. Forvitnin rak mig í að rukka Alan um söguna sem hann hafði lofað mér. Hann horfði á mig stutta stund eins og hann hefði vonað að ég myndi ekki innheimta þessa skuld, svo hallaði hann sér aftur og sagði mér merkilega sögu.

Alan sagði mér að börnin á götunum, væru börn úr sveitunum í norðurhéruðum Kína, sem fátækir foreldrar hefðu verið vélaðir til að setja frá sér með fagurgala um mettan maga, nám og betra líf eða þá að þeim hefði hreinlega verið rænt. Dagurinn í góða lífinu hæfist svo með því að vera lagður nakin í götuna í þeim tilgangi að ná fé af ókunnugum, undir ströngu eftirliti siðlausra böðla sem tæma sjóðinn jöfnum höndum. Við lok dags er börnunum síðan smalað inn í skúra tugum saman og einhverju af grjónum kastað á gólfin og slagbrandi skotið fyrir hurð. Þar er slegist um matinn, grátið næturlangt og oftar en ekki er lík á gólfinu við sólarupprás. Þau sem svo ólíklega ná sex ára aldri eru myrt, það er á öryggis og markaðslegum forsendum. Þau yngri afla betur og þau eldri gætu talað. Þetta er skipulögð glæpastarfssemi. Alan bað mig svo endilega að benda á barnið sem hann ætti að afhenda fyrstu þúsund  dollarana. Ég fylltist skömm á sjálfum mér. Ég hafði dregið í efa varnarorð manns sem gjörþekkti aðstæður og meir að segja leift mér að efast um ágæti hans. Ég hafði stutt einhverja ógeðfelldustu glæpastarfsemi sem hugsast getur. Hrottalegar pyntingar. Ég var blekktur á svívirðilegan hátt.

Þjáningin og kærleikurinn eru tengd leyndardómsfullum böndum. Það er eins og kærleikurinn leiti að þjáningunni og öfugt. Þetta vita glæpamenn. Þess vegna framleiða þeir þjáningu af þeim toga sem hér hefur verið nefnd,  í þeirri vissu að kærleikurinn birtist og láti fé af hendi rakna. Skyldu þessir sömu menn að loknum vinnudegi halda heim og faðma börnin sín.

Jólin eru hátíð barnanna. Á jólum verða menn meyrir og gjafmildir. Þá auglýsir kærleikurinn gjarnan þjáningu og óskar eftir hjálp, oftar en ekki til þess að bjarga stríðshrjáðum eða vannærðum börnum. Það er göfugt. Þrátt fyrir bitra reynslu verður maður að læra að treysta. Kirkjan er ein af birtingarmyndum kærleikans nú um hátíðirnar sem óskar eftir stuðningi við að lina þjáningar barna. Ég treysti því kærleikur kirkjunnar skili sér á réttan stað og hvet fólk til stuðnings við söfnunina.

Skráð í minningu um Alan Ling. Góðan mann sem ég veit ekki hvort er lífs eða liðinn.

Páll Scheving Ingvarsson                                                     

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...