Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Amma og Afi - best í heimi :-)

7.Nóvember'14 | 20:16

Ég var svo heppin að alast upp á Heiðó, húsi sem var og er uppfullt af gleði,ást,hlátri og hamingju. Það besta við að alast upp á Heiðó var að Amma Lóa og Afi Willum bjuggu hjá okkur og finnst mér ég afar mikil forréttindapía að hafa haft þau heima hjá mér alla daga. Ég fæddist með hjartagalla og var því mikið bómullarbarn í glerkassa fyrstu árin mín og var stjanað við mig í hvívetna af Mömmu, Pabba, Ömmu og Afa.

Ég var sett á leikskóla þegar ég var um þriggja ára og litlu mér líkaði það bara alls ekkert(kaldhæðnislegt að ég skuli síðan starfa sem leikskólakennari í dag). Ég grét, vældi og lét öllum illum látum og neitaði meðal annars að vera í hvíld nema besta vinkona mömmu,sem vann á leikskólanum, væri hjá mér,alltaf. Suma daga var ég einfaldlega sett upp í hillu með hinu dótinu því prinessan ég var svo hrædd við hina krakkana og fannst bara bölvuð læti í þeim.

 

Þarna komu Amma og Afi sterk inn, ég var tekin af leikskólanum og fékk að vera í dekri hjá Ömmu og Afa alla daga á meðan Mamma og Pabbi voru í vinnunni. Og maður minn hvað þessir dagar með Ömmu og Afa voru skemmtilegir. Amma fór í búðarleik við mig, spilaði sig geðveika á olsen olsen og Svarta Pétri, las fyrir mig og leyfði mér að leika í myntugræna snyrtiborðinu sínu sem var uppfullt af fjársjóðum fyrir litla kroppa. Afi átti samt alltaf vinninginn því við fórum saman niður í kjallara að dudda og reykja. Afi fékk nefnilega hjartaáfall og þurfti að fara í hjartaaðgerð og þar var honum skipað að hætta að reykja. Ég varð 4 ára og var skipað að hætta með duddu. En þar sem Afi minn var þrjóskari en allur heimurinn samanlagt þá lét hann ekki segja okkur hvað við áttum að gera, þannig að alla daga fórum við að ,,brasa” í kjallaranum.

 

 En það sem engin vissi var að kjallarinn geymdi dudduna mína og sígaretturnar hans og þarna dvöldum við tímunum saman að dudda og reykja á meðan aðrir í fjölskyldunni voru að krútta yfir sig því þeim fannst svo sætt að við værum þarna saman að dúllast. Okkur Afa fannst þetta æði og leyfðum fjölskyldunni bara að krútta yfir sig í friði. Ég klúðraði þessu svo um 6 ára aldurinn þegar ég sagði stundarhátt í einu jólaboðinu á Heiðó ,,Æ Afi ég nenni ekki að vera hérna, komdu niður í kjallara að reykja”. Þar með lauk þeirri dýrð og Afi fékk skömm í hattinn fyrir að reykja og viðhalda dudderíinu mínu.  Afinn minn varð sko ekkert reiður við stelpuna sína, hann keypti bara Paddington-bauk og við fórum að safna fyrir nýjum bíl því gamli hvíti bílinn hans var orðin ansi lúinn.

 

En talandi um bílinn hans Afa, alla morgna þegar við vorum búin að leika okkur fórum við í bíltúr. Afi var reyndar lamaður í öðrum fætinum þannig hann batt trefil í lamaða fótinn sinn og togaði svo í trefilinn til að færa fótinn milli bremsu og bensíngjafar. Amma Lóa klæddi sig í bláu kápuna sína og tók svarta veskið sitt og allir bíltúrar byrjuðu í sjoppunni þar sem ég fékk bland í poka í nesti. Síðan fórum við bryggjurúnt því Afi og Amma vildu fylgjast með hvaða bátar voru í landi og hvaða bátar ekki. Afi keyrði alltaf að minnsta kosti einu sinni eins nálægt bryggjunni og hann komst og Amma gólaði alltaf að minnsta kosti einu sinni ,,Ertu brjálaður Willum, ætlarðu að fara í sjóinn með barnið” . En barnið ég veltist um af hlátri í aftursætinu og hafði ekki minnstu áhyggjur af þvi að Afi, með trefilinn bundinn í fótinn, færi með mig í sjóinn.

 

Ég var 9 ára þegar Afi Willum dó og 17 ára þegar Amma Lóa dó, ég sakna þeirra alla daga og eru þau mínar helstu fyrimyndir í lífinu - Þrjóskan hans Afa og gleðin hennar Ömmu eru þeir þættir sem ég vona að ég búi yfir og ég reyni að lifa lífinu eins dásamlega fallega og þau gerðu.

 

Í dag búum við stelpurnar mínar í mínútu fjarlægð frá Heiðó þar sem Mamma mín og Pabbi eiga enn heima og búa dætur mínar því við þau forréttindi að hafa Ömmu og Afa nálægt sér og þær elska það. Ég fer ekki ofan af því að Ömmur og Afar eru það besta í heimi og samskipti og nálægð við það eðal fólk gerir alla að betri manneskjum.

 

Ást og friður, Lóa :-)

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).