Ásmundur Friðriksson skrifar:
Kvóti, ólympískar veiðar og umburðarlyndi.
28.September'14 | 17:07Makríllinn hefur komið til okkar sem happadrættisvinningur fyrir land og þjóð. Hann kemur hingað vegna hækkandi sjávarhita í ætisleit, fitnar og verður að miklu verðmæti. Stóru uppsjávarfyrirtækin hafa bætt nýtingu uppsjávarskipa sinna og vinnslunnar, en góð afkoma þeirra síðustu ár kemur ekki síst til vegna veiða og vinnslu makríls. Þá hefur veiði smábáta og togbáta orðið lyftistöng í mörgum sjávarbyggðum og skapað fleiri fyrirtækjum mikla verðmætasköpun og atvinnu sem mikið munar um í mörgum byggðarlögum og minnkar atvinnuleysi.
Á bryggjunum hafa menn áhyggjur af líffræðiþættinum, makríllinn er fullur af pokaseiðum, ýsuseiðum, grásleppu og fleiri tegundum. Við verðum að rannsaka betur á hvern hátt makríllinn getur orðið nytjastofnum landsins skaðvaldur, en menn hafa bent á að víða þar sem mikill makríl gengd hafi komið, hafi hefðbundnir nytjastofnar jafnvel hrunið.
Okkur vex fiskur um hrygg.
Í sumar nær tvöfölduðust veiðar línubáta á makríl og voru 7000 tonn. Smábátar og togbátar með úthlutun í makríl hafa landað afla til vinnslu hjá fleiri fiskvinnslufyrirtækjum en þeim hefðbundnu uppsjávarvinnslum sem áður sátu einar að makrílvinnslu. Þessi staðreynd hefur orðið til þess að fleiri byggðarlög, fiskvinnslufólk, fiskvinnslu- og þjónustufyrirtæki hafa notið þeirra verðmætasköpunar sem fylgir makrílnum. Fjölgun vinnslustöðva hefur sérstakleg komið skólafólki í sjávarbyggðum vel en það hefur unnið nótt sem nýtan dag og búið sér í haginn fyrir framtíðina og aflað mikilla tekna. Þrátt fyrir deilu og niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis um að makrílkvóta ætti eingöngu að úthluta á uppsjávarskip þá verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að þessi þróun veiða og vinnslu hefur skapað meiri velsæld, fleiri tækifæri og minna atvinnuleysi í sjávarbyggðum víða um land sem áður byggðu á hefðbundinni bolfiskvinnslu. Það er því mikilvægt að við hugum að almennum hagsmunum og náum sátt í greininni um veiðar og nýtingu makrílsins sem komi sem flestum til góða. Í því sambandi minni ég á að Norðmenn leggja á það áherslu að veiða sem mest af makríl en hann hefur mikil áhrif á lífríkið í sjónum og stofninn afar stór um þessar mundir. Við höfum kosið stöðuleika og standa á sannfæringu okkar um sjálfbærar veiðar.
Aukið verðmæti.
Sú hugsun sækir á mig hvort við náum ekki sátt um áframhaldandi veiðar línu og togbáta verði samkvæmt úthlutun hvers árs og því ekki um að ræða kvótasetningu á hvern bát til framtíðar eins og stóru uppsjávarskipin. Ólympískar veiðar línubáta eða ríflegur pottur samkvæmt nánari útfærslu á ákveðnum veiðisvæðum og fjölda báta yfir það tímabil sem makríllin er í bestum holdum og verðmætið mest frá miðjum júlí til loka september er þjóðhagslega hagkvæmt og hleypir miklu lífi í fleiri fyrirtæki og sjávarbyggðir með margfeldisáhrifum og minna atvinnuleysi. Ég vil skoða þessa hugmynd á þeirri forsendu að hagsmunir fleiri eru í húfi og á einhverjum stað verður hagræðing í sjávarútvegi að hafa endimörk, en 86% úthlutaðs kvóta er hjá 5 stærstu útgerðum landsins. Flóra smærri, meðal- og stórra fyrirtækja skapar jafnvægi í útveginum eins og annarstaðar í atvinnulífinu.
Umburðarlyndi.
Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein í samfélaginu. Í skjóli öflugra fyrirtækja í sjávarútvegi vex og dafnar nýsköpun sem skapað hefur fjölda nýrra vel launaðra starfa og aukið framleiðni greinarinnar. Við verðum að halda áfram á þeirri braut og landvinnslan fylgi í kjölfarið og bjóði líka betur launuð störf. Það er því augljóst að jafn mikilvæg grein eins og uppsjávarveiðin er og stór í sniðum á öllum íslenskum mælikvörðum hafi umburðarlyndi til að sem flestir geti notið þess happafengs sem makríllinn er og færir þjóðinni mikil verðmæti með heimsókn sinni að ströndum landsins og þeir litlu og stóru geti unað hag sínum vel í sátt og samlyndi. Mér finnst vert að skoða það.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður
Höfundur: Ásmundur Friðriksson.
F. í Reykjavík 21. jan. 1956. For.: Friðrik Ásmundsson (f. 26. nóv. 1934) skipstjóri og skólastjóri og Valgerður Erla Óskarsdóttir (f. 24. maí 1937). M. Sigríður Magnúsdóttir (f. 26. jan. 1958) matráður. For.: Magnús G. Jensson og Kristín Guðríður Höbbý Sveinbjörnsdóttir. Börn: Ása Hrönn (1982), Erla (1984), Magnús Karl (1991). Sonur Ásmundar og Sigurlaugar Sigurpálsdóttur: Friðrik Elís (1975). Stjúpdóttir, dóttir Sigríðar: María Höbbý Sæmundsdóttir (1977).
Gagnfræðapróf Skógaskóla 1973.
Stundaði netagerð og sjómennsku 1970-1972. Vann við hreinsun Heimaeyjar sumarið 1973. Verkstjóri hjá Viðlagasjóði við hreinsun og endurreisn og uppgræðslu Heimaeyjar 1974-1978. Framleiðslu- og yfirverkstjóri hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja 1978-1986. Sjálfstætt starfandi blaðamaður 1980-2003. Framkvæmdastjóri Samkomuhúss Vestmannaeyja 1986. Rak fiskvinnslufyrirtækið Kútmagakot ehf. 1988-2003. Framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur 2004. Verkefnastjóri Ljósanætur 2006. Verkefnastjóri í atvinnu- og menningarmálum hjá Reykjanesbæ 2008. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs 2009-2012.
Í þjóðhátíðarnefndum Vestmannaeyja 1974-1996. Formaður handknattleiksdeildar Þórs 1974-1978. Formaður Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna, 1981-1984. Í stjórn SUS 1983-1987. Í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Eyjum 1982-1986.Formaður íþrótta- og tómstundaráðs Vestmannaeyja 1982-1986. Formaður ÍBV 1994-1999. Formaður knattspyrnudeildar ÍBV 1999-2002. Stofnandi og formaður hollvinasamtaka Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, NLFÍ, 2005-2011. Í stjórn Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ 2007-2008. Stofnandi Lista- og menningarfélagsins í Garði 2009. Stjórnandi listaverkefnisins Ferskir vindar í Garði 2010. Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garði frá 2012.
Alþm. Suðurk. síðan 2013 (Sjálfstæðisflokkur).
Atvinnuveganefnd 2013-, velferðarnefnd 2013-.
Ritstjóri: Fylkir, málgagn sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum (1986-1988).
Ólafur Elíasson gerir minnisvarða í Eyjum
25.Maí'22 | 10:35Heimsmet í eymd
1.September'21 | 09:31Orkan og tækifæri komandi kynslóða
25.Ágúst'21 | 10:28Minning: Bragi Júlíusson
1.Júlí'21 | 06:56Á staðnum með fólkinu
24.Maí'21 | 22:19Gerum flott prófkjör!
4.Maí'21 | 14:22Geldingadalur tækifæri nýrra starfa á Suðurnesjum
1.Apríl'21 | 10:03Minning: Þórður Magnússon
18.Mars'21 | 07:30Minning: Ingimar Ágúst Guðmarsson
16.Janúar'21 | 11:51Minning: Páll Árnason
15.Janúar'21 | 10:15Má bjóða þér að auglýsa hér?
23.Júní'22Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...