Hrefna Óskarsdóttir skrifar:

Að laða fram það besta í fólki

8.September'14 | 07:04

Ég er 39 ára gömul, fráskilin þriggja barna móðir. Ég er 61,5 kg, er 165 sm á hæð og nota skó númer 40. Ég er upprunalega með músaskítsbrúnt hár þó ég hafi ekki séð í þann háralit í mörg, mörg ár. Mögulega hafa gráu hárin vinningin en hef í raun og veru engan áhuga á að komast að því.  En af hverju er ég að opinbera allar þessar mjög svo gagnslausu upplýsingar? Eftir skilnaðinn minn fyrir tveimur árum hef ég haft nánast þráhyggjukenndan áhuga á öllu sem viðkemur samböndum og samskiptum því mér fannst ég bara verða  að komast að því hvað  það er sem gerir góð sambönd góð og af hverju samböndin okkar verði ekki sjálfkrafa bara betri með árunum.  

Á undanförnum árum hef ég lesið fjöldan allan af bókum um sambönd og samskipti og í þeim má finna ansi margt um það sem ber að varast, eins og t.d. ofangreind atriði, sem samkvæmt mjög svo óáreiðanlegum heimildum eru hlutir sem konur vilja bara alls ekki ræða. En í þessum bókum fann ég líka hafsjó upplýsinga um allt það sem maður þarf að tileinka sér til að ganga í augun á öðru fólki og allskonar ráðleggingar um allt það sem gerir sambönd  meira spennandi, áhugaverðari eða innilegri.  En undantekningarlaust eru  skilaboðin þau sömu – að maður er ekki nóg eins og maður er. Að til þess að maður sé einhvers virði þá þurfi maður að vera hærri, grennri eða vöðvastæltari,  skemmtilegri, fyndnari eða áhugaverðari, ríkari, gáfaðri eða ævintýragjarnari.

Þetta er ekki flókið; það eina sem maður þarf að gera er að vera fullkominn!

Í heimi sem krefst fullkomnunnar er óhjákvæmilegt að finna fyrir óöryggi og skömm. Óöryggi yfir því að einhver gæti áttað sig á því hversu meingölluð við erum og skömm yfir því að vera ekki nóg.  Þú veist, að vera ekki nógu fullkominn til þess að öllum líki við mann og finnist maður dásamlegur, frábær og yndislegur. 

Þessi krafa um fullkomnun er að öllum líkindum ástæðan fyrir þessum ráðleggingum um hvað má og má ekki ræða og er líka ástæðan fyrir því að við eigum oft í mjög yfirborðskenndum samskiptum. Innileg nándarsamtöl upplýsa nefnilega nokkuð fljótlega það sem við óttumst mest, að fólk átti sig á því hversu miklir gallagripir við erum.

Ég veit um fólk sem finnst ég vera of óþolinmóð og væmin og taka sjálfa mig allt of alvarlega og ég veit að það er ekki séns í-því-neðra að ég geti gert öllum til hæfis. Enda þarf ég þess ekki, því góð og innileg samskipti hafa ekkert með utanaðkomandi hluti eins og útlit, hæfileika eða aðstæður að gera. Það hefur hins vegar allt með það að gera að fólki líði vel með sjálfan sig í kringum mann og að maður fái að vera maður sjálfur án þess að það sé stanslaust verið að reyna að lagfæra mann á einhvern hátt eða leiðrétta.  Í öllu okkar hausarusli  yfir því að vera  ekki nóg, þá erum við stöðugt að minna aðra á það að þeir eru það ekki heldur.  

Við stjórnumst í fólki (því við vitum náttútulega miklu betur hvernig aðrir eiga að haga sínu lífi), við gagnrýnum aðra (í þeirri von um að þeir geri hlutina eins og okkur finnst skynsamlegast) og verðum reið eða förum í fýlu ef fólk gerir svo ekki það sem við viljum. Ég veit það fyrir mitt leiti að þegar mér finnst ég þurfa að réttlæta mig, skoðanir mínar eða aðstæður á einhvern hátt þá verð ég óörugg og fer í vörn. Ég er nefnilega stanslaust að gera eins vel og ég get.

Vörn kallar alltaf fram það versta í fólki. Fólk sem fer í vörn bregst yfirleitt við með því að draga sig til baka (hætta að koma til manns jafn oft eða fara í fýlu) eða með gagnárás (sem endar yfirleitt með rifrildi eða sárindum).

Vörn gerir nánast allt til þess að draga fram leiðinlegustu og bitrustu hliðarnar í manni.

Það hafa flestir kynnst fólki sem laðar fram það besta í okkur. Í kringum það fólk líður okkur vel með okkur sjálf, við erum afslöppuð, hugsum skýrar og finnst við kannski smá pínu dásamleg. Í þeim félagsskap finnst okkur við vera betri manneskjur og okkur langar þá líka dáldið að gera heiminn að betri stað. Þeir sem leyfa mér að vera sá kjáni og gallagripur sem ég er,  gera mín mistök og styðja mig samt, það er fólkið sem fær að sjá allar mínar bestu hliðar og mig langar ósjálfrátt að vera í sífellt meiri samskiptum við það fólk.  Það að fá að vera ég sjálf, þessi dásamlega ófullkomna skvísa sem ég er, með allt mitt hausarusl og alla mína sérvisku, kallar fram þá bestu tilfinningu sem til er í heiminum -  að vera nóg, eins og ég er.

Þetta er sú tilfinning sem við leitumst stöðugt og allsstaðar eftir í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur og af hverju erum við þá að neita öðrum um þá dásamlegu líðan?

Lífið er ótrúlega einfalt.  Njóttu þess að eiga stund með fólkinu þínu án þess að þurfa að laga nokkurn skapaðan hlut í fari þeirra. Njóttu allra þeirra góðu eiginleika sem þau hafa til að bera og fagnaðu svo þeirri staðreynd að við erum einfaldlega dásamlega ófullkomin- sem gerir lífið að þessu stórkostlega ævintýri sem það er.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.