Jonathan Glenn markahæstur í deildinni

27.Ágúst'14 | 06:40

Jonathan Glenn, Trínidadinn í liði ÍBV, heldur áfram að fara á kostum í Pepsi-deild karla í fótbolta, en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Þór á sunnudagskvöldið og er leikmaður 17. umferðar hjá Fréttablaðinu.

„Það er auðvitað alltaf gott að vinna. Þetta var ekki fallegur sigur, en við fögnum þremur stigum og vonandi heldur þetta áfram,“ sagði Glenn þegar blaðamaður náði loks tali af honum í gær í gegnum þriðja aðila. Glenn er nefnilega eins og Magnús og Eyjólfur í skaupinu 1985; ekki með neinn síma.

Þessi glaðbeitti og hugljúfi markahrókur er nú búinn að skora tíu mörk í Pepsi-deildinni og er sá fyrsti sem skorar tug marka fyrir 1. september í þrjú ár.

„Þetta byrjaði erfiðlega, en strákarnir í liðinu hafa hjálpað mér mikið að aðlagast. Gengi liðsins hefur verið upp og niður, en mér hefur gengið í heildina mjög vel og fyrir það er ég öllum þakklátum sem hafa hjálpað mér. Ég er mjög stoltur af því að vera búinn að skora tíu mörk og vonandi get ég haldið áfram að skora og hjálpað liðinu,“ sagði Glenn.

Níu af tíu mörkum Glenns skoraði hann á Hásteinsvelli, en í heildina hefur hann skorað tólf af þrettán mörkum sínum í deild og bikar á heimavelli. Honum líður svo sannarlega best heima á Heimaey.

„Mér var bent á þetta nýlega, en sjálfur áttaði ég mig ekki á þessu. Ég vil skora alls staðar þannig þetta er bara tilviljun,“ sagði hann og hló.

Eyjamenn eru komnir í sjöunda sætið, fimm stigum frá falli. Glenn segir liðið ekki halda sig sloppið. „Við viljum halda áfram að bæta okkur og vinna fótboltaleiki. Við pælum ekki of mikið í fallbaráttunni, en vitum að við megum ekki misstíga okkur.“

Glenn hefur nú búið í Vestmannaeyjum í rúma fimm mánuði, en hann átti áður heima í stórborginni Jacksonville í Bandaríkjunum. Honum hefur gengið vel að aðlagast eyjunni.

„Maður verður bara að venjast breyttum aðstæðum. Ég er svo léttur í lund alltaf og lífsglaður þannig mér finnst bara gaman að takast á við svona hluti,“ sagði Jonathan Glenn.

 

Fréttablaðið greindi frá.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.