Vestmannaeyjar lýsa yfir sjálfstæði

3.Janúar'14 | 08:09
Siv Sigmarsdóttir rithöfundur og pistlahöfundur flutti pistil í morgunútvarpi RÚV í gærmorgun og m.a fjallaði hún um það að Vestmannaeyjar ættu að lýsa yfir sjálfstæði. Pistil hennar má lesa hér að neðan:
Vestmannaeyjar segja sig úr lögum við Ísland
 
 
 
Góðan daginn. Gleðilegt ár og velkomin á fætur þennan annan dag ársins. Ef árið væri vika væri annar janúar klárlega mánudagur. Ég veit ekki hvernig ykkur líður en mér líður svona.
 
Í tilefni þess að ég er súr ætla ég að láta eftir mér að fjalla um það sem á ensku kallast „pet hate“, sem mætti þýða á íslensku sem „gælufæð“, eitthvað sem ég elska að láta fara í taugarnar á mér.
 
Síðastliðinn sunnudag sat ég eins og marga morgna á klósettinu með iPadinn í hönd. Eins og góðri klósettferð sæmir lá leiðin inn á heimasíðuna dv.is. Mér varð um þegar við mér blasti stórfrétt: „Sigmundur Ernir Rúnarsson bæjarstjóri á Akureyri – Vinnur stórsigur.“ Ástæða þess að mér varð um var ekki sú að ég hafi eitthvað á móti Sigmundi Erni og vilji hann ekki sem bæjarstjóra. Nei. Ástæða uppnámsins var sú að ég vissi ekki að hann hefði verið í framboði. Og það sem meira var. Ég vissi ekki að það hefðu átt sér stað bæjarstjórakosningar á Akureyri.
 
Við nánari athugun kom í ljós að atburðurinn gerðist heldur aldrei. Fréttin vísaði einfaldlega í völvu blaðsins. Og þar komum við að því. Gælufæðinni minni. Ég þoli ekki völvur. Eða sko, ég hef ekkert á móti manneskjunni bak við völvuna. Ég þoli bara ekki það vægi sem uppspunanum sem kallast spá er gefið í lok árs. Einhverju handahófskenndu giski er slengt fram eins og stórfréttum á síðum fjölmiðla um staðreyndir árs sem ekki er gengið í garð – og það án allrar kaldhæðni, án snefils af gamansemi.
 
Í hverjum einasta mánuði árið 2007 og framan af 2008 spáði eiginmaður minn fyrir um að krónan myndi hrynja. Að nú væri komið að því. Að þetta væri mánuðurinn. Þegar krónan hríðlækkaði í verði í október árið 2008 hlakkaði í honum. „Sko, ég hafði rétt fyrir mér.“ Það var ekki tekið af honum. Hann hafði vissulega rétt fyrir sér. Hann hafði hins vegar haft rangt fyrir sér 20 mánuði þar á undan. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann tjáði öllum sem vildu hlusta að hann hefði spáð fyrir um hrun krónunnar.
 
En slíkt er eðli spádóma. Þegar maður hefur rangt fyrir sér tekur enginn eftir því. Það man enginn eftir því að í fyrra spáði völvan því að stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð myndi komast í ríkisstjórn. Og hún spáði því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi vinna einn stærsta kosningasigur sögunnar og Hanna Birna yrði forsætisráðherra. Hafi maður hins vegar rétt fyrir sér, sérstaklega ef spáin er djörf, er maður krýndur næsti Nostradamus.
 
Sem tilraun til að komast á spjöld sögunnar við hliðina á honum Nostradamusi, vini mínum, spái ég því hér með að eftirfarandi átta hlutir eigi eftir að gerast á árinu 2014:
 
Ísland gengur í Evrópusambandið eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson smakkar geitaost í fyrsta sinn.
 
Færeyingar verða heimsmeistarar í fótbolta.
 
Þegar ríkisstjórn Íslands neitar að grafa göng milli lands og Vestmannaeyja segja Vestmannaeyingar sig úr lögum við Ísland og ganga í staðinn í Bandaríkin þar sem eyjarnar verða fanganýlenda sem leysir af hólmi Guantanamo Bay.
 
Flugvöllurinn verður fjarlægður úr Vatnsmýrinni en til að friða landsbyggðina er svæðinu breytt í eitt stórt kúabú. Vegna óhagganlegra mjólkurkvóta þarf hins vegar að hella allri mjólkinni sem endar úti í Nauthólsvík sem tekur á sig hvítan blæ í nokkra daga. Þegar mjólkin í landinu klárast rétt fyrir jól flytur Mjólkursamsalan inn 90 tonn af smjöri frá Afríku.
 
Ísland vinnur Júróvisjón með laginu Ó borg mín borg í flutningi Jóns Gnarr.
 
Íslensk þjóðmenning verður einkavædd á árinu en þegar fyrirtækið fer í þrot er hún seld Kínverskum fjárfestum fyrir 30.000 pör af kínaskóm og 1000 gyllta iPhóna þrátt fyrir áhyggjur margra um að þeir hyggist nota menninguna í eitthvað gruggugt.
 
Vigdís Hauksdóttir fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir nýyrðasmíð.
 
Ég verð ráðin sem Völva ársins á dv.is.
 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).