Gosið á Heimaey 1973

Pálmar Magnússon segir frá

19.Nóvember'13 | 08:39

eldgos

Pálmar Magnússon skrifar á vefsíðuna http://1973ibatana-sogur.blogspot.com sögu sína frá gosnóttuni 1973. Pálmar bjó þá í verbúðinni í Vinnslustöð Vestmannaeyja og fer hann yfir upplifun sína allt frá gosbyrjun til þess tíma að hann fór svo aftur til eyja tveimur mánuðum seinna.
Skrif Pálmars birtast hér að neðan óbreytt:


Klukkan var eitthvað nálægt miðnætti og við félagar Arnkell Sigurbjörnsson, Halldór Guðmundsson og ég sjálfur vorum nýlega skriðnir í koju.
 
Við vorum í herbergi sem við fengum að hafa saman á Vinnslustöð Vestmannaeyja, ég var á sjó en Dóri og Addi unnu í Vinnslustöðinni og við vorum samlokur á þessum tíma J
Við lágum háttaðir og spjölluðum okkur í svefn eins og gengur, ánægðir og áhyggjulausir hvolpar sem höfðu ekkert nema gaman af lífinu að segja, draumarnir voru ólíkir eins og gengur en skemmtilegir og spennandi.
 
Eitthvað uppúr miðnætti kom öflugur hnykkur á húsið, það sterkur að það færðust til rúmmin svo ískraði í gólfinu, þetta fékk ekkert á okkur, nema að Dóri hafði orð á því að þetta væri forspil að einhverju meiriháttar, „það kemur aldrei jarðskjálfti í Eyjum“ orðaði hann, og við kinnkuðum kolli við því án þess að hafa nokkra skoðun á málinu sjálfir, svo sofnuðum við hver af öðrum og ekki meira spáð í það.
Svo um ca. Hálf tvö - tvö leitið, er barið á hurðina hjá okkur með látum og það var daman (man ekki nafnið á henni) sem var húsvörður á verbúðinni, hún kallaði á okkur að drífa okkur í garmana og koma okkur út, það væri byrjað að gjósa.
 
Við vorum ekki alveg á því að taka þetta alvarlega og ræddum með okkur að kerlingin væri orðin eitthvað rugluð og fleira látið flakka sem okkur þótti sniðugt þá og aftur á koddann með hausinn J eftir smástund lemur húsvörðurinn aftur á dyrnar hjá okkur og hótar að koma inn og draga okkur úr bælinu ef við hlýddum ekki J sömu viðbrögð, salla rólegir með glott á vör skiftumst við á glósum og hlógum saman, ekkert sem hún fékk að heira samt, því okkur þótti vænt um hana og hún var dásamleg kona sem hugsaði um okkur hvolpana sem sína eigin.
 
En Addi fór fram úr rúmminu til að sækja vatn fyrir alla að drekka og kíkir rétt sem snöggvast út um
gluggann og stendur síðan þar algjörlega hreifingarlaus með hökuna niðri á bringu og við allir að horfa á hann úr bælunum bíðandi eftir að fá vatnið serverað, svo loksins dettur uppúr honum , “Noj noj noj, það er allt fullt af barnavögnum á fleygiferð niður á bryggju“ og það sagt hlupum við hinir upp og út í glugga að gá, og viti menn, það var allt troðið af fólki með barnavagna niðri á bryggju í Friðarhöfn á leið um borð í bátana og við sáum roðann flökta í Spröngunni eins og bjarma frá gamlárskvöld rakettum, svo nú var bara að drífa sig í garma og kíkja á hvað væri að gerast.

 
Svo komum við fram á gang í verbúðinni og við fengum fyrirskipun um að ekki fara út, Löggan myndi láta vita hvenær og hvað við ættum að gera þegar þar að kæmi.
Allt fólkið á verbúðinni stóð og horfði á eldgosið út um Stóra gluggann við enda gangsins eins og um bíómynd væri að ræða og fólkstraumurinn niður á höfn hélt stanslaust áfram og þéttist.
Þá ákváðum við þrír að laumast út, Addi átti systir með fjöldskyldu sem hann vildi komast til og ég var skráður heima hjá foreldrum Dóra og þangað ættluðum við að gá hvað væri í gangi, svo við hlupum eins og fætur toguðu upp í bæ og það var heilsað og hraðspjallað við hina og þessa á leiðinni, allir höfðu upplýsingar um hvað, hvert og hverjir hugsanlega færu eða væru eða myndu verða til staðar, það var ótrúleg samhyggja og umhyggja um allt og alla, við vorum sem sagt hlaðnir skilaboðum og með nánast mannakort af Eyjunni í hausnum og flæðið hélt sér alla leið “ef þið sjáið hann eða hana og svo framvegis, fá skilaboð og skila skilaboðum“, sannkallaður frumskógarpóstur sem virkaði mjög vel.
(Ég man ekki hvað gatan hét á bakvið Blaðaturninn) en þegar við komum heim til Dóra, þá voru allir farnir en skilaboð á miða um að við ættum að koma okkur annað hvort í Lundann eða Árna í Görðum og taka með okkur það sem við gætum borið af fattnaði á okkur og aðra í fjöldskyldunni hans Dóra, við snérumst aðeins í kringum okkur sjálfa og hlupum svo niður á höfn, við vissum að Lundinn lá inni í Friðarhöfn lengst burt, svo við ákváðum að byrja á því að finna Árna í Görðum áður og þar reyndust foreldrar vera Dóra um borð.
 
Á leiðinni niður á höfn hittum við helling af fólki sem spurðist fyrir um hvort við gætum hjálpað til að bera út úr húsum með þeim og við svöruðum því játandi, “um leið og við værum búnir að hitta fólkið og bátinn“, síðan þegar um borð í Árna í Görðum var komið, þá einhvern vegin fór alvaran að síast inn og við vorum hálfgert komnir á leið frá Eyjunni, en þegar þeir byrjuðu að sleppa spottunum, þá rukum við uppá bryggju og ákváðum að við gætum alveg eins borið úr húsum með fólki og gert eitthvað gagn, svo við kvöddum fólkið og lofuðum að fara varlega.
 
Svo við fórum aldrei í bátana ég og Dóri, við fórum hinsvegar í fulla sjálfboðavinnu með fjölda annara sem gengu á milli húsa og bárum eignir fólks út á bíla sem síðan keyrðu því niður á höfn og þar var ýmist sett í gáma eða um borð í fiskibáta og það komst fljótt á skipulag í þessari vinnu, það var tekið hús fyrir hús næst eldinum, svokölluð húsgengi sem báru út úr húsum og svo urðu til bílagengi sem hlóðu á bílana og á höfninni voru gengi sem losuðu bílana ásamt strákunum í bílagengjunum og sem gengu svo frá í gáma og merktu það húsum sem það var tekið úr, menn flutu á milli gengja eftir þörfum og frumskógarsíminn gekk allan tíman.
 
Áhrifamesti og jafnframt ánægjulegast tíminn var þegar við fluttum sjúka og eldri borgara upp í flugvöll og stundum þurftum við að fljúga með suður til að hjálpa áhöfnum vélanna og til baka aftur með sömu vél, það var stuttur flugtími á Fokkernum þá, það er nógur kraftur í þeim vélum þegar til kastanna kemur J Herkúles vélarnar voru ævintýri útaf fyrir sig og amerísku þyrlurnar hrikaleg verkfæri, maður svaf ekkert í þeim og var alveg eins viðbúin að þær myndu hristat sundur á leiðinni J
Við tókum þátt í að bjarga dýrum og því miður sumum beint til slátrunar, Tóti á Kirkjubæ þurfti að skjóta hest sem hafði hlaupið út í glóandi hraunið og brennt undan sér fæturnar upp að hnjám, en stóð samt, það var sorgleg sjón man ég, síðan voru hundar og kettir sem við komum til skila ef hægt var, ég veit ekki hvursu vel það gekk, við veiddum þá bara og ég man ekki einu sinni í hvaða hús við skiluðum þeim af okkur, svo ég hef grun um að það hafi ansi mörg dýrin mætt örlögum sínum þar og ég hef sennilega þurrkað megnið af því úr mínum haus, en við vorum sendir til að “bjarga þeim“.
 
Ég afrekaði þó eina dýrabjörgun sem heppnaðist alla leið, það var þegar við fundum læðu með kettlinga í FES og það voru vopnaðir aðilar með riffla og haglabyssur sem áttu að eyða öllu lífi vegna smithættu sem gæti komið upp ef dýrin dræpust í gasinu sem stundum flæddi um og var bannvænt, þeir náðu læðunni og kettlingunum nema einum þeirra sem hljóp til mín og ég stakk honum inná mig í snatri, þetta var nánast alsvartur kettlingur og ég hélt hann í tvær til þrjár vikur og hann hélt sig þar sem ég lét hann vera á meðan við vorum að vinna, það var oft langur tími, en kisi litli beið alltaf eftir mér, svo fórum við loksins uppá land með Heklunni, ég snapaði mat af kokknum þar og kisi svaf undir peysunni hjá mér þar sem við lágum um alla Sali um borð í Heklu, það var sofandi maður við mann á beru gólfinu alla leið til þorlákshafnar og á leiðinni vildi kisi komast frá, en ég hélt honum hjá mér þar sem það var held ég bannað að taka með sér dýr frá Eyjum þá, eins og mig rámi í að það hafi verið svo, og ég treysti ekki mannskapnum á Heklunni til að halda kjafti, en í hálfsvefninum komst hann laus og kom síðan aftur fljótlega og tróð sér niður í hálsmálið hjá mér og við sváfum áfram, síðan var gargað ræs á liðið og ég settist upp, verður litið til og sé einn alskeggjaðan sofandi við hliðina á mér og kisi búin að skíta í skeggið hans, svo við forðuðum okkur út í hvelli og vorum með þeim fyrstu í rútuna J
 
Þessi kisi komst svo gegnum vinkonur mínar í Reykjavík, í fóstur hjá hinni kattelskandi Guðrúnu Símonar söngkonu og hún skírði hann Vestmannaeyja-Gosa, ég hitti hana á Laugarvatni seinna um sumarið og þá hafði hún Gosa með sér og hann var orðin Hefðar Köttur en þekkti mig aftur með látum


Smá hugleiðingar fyrir sjálfan mig núna.
Ég gleimi aldrei hvað Kanarnir voru frábærir við okkur sem vorum í þessu basli fyrsta kastið, þrátt fyrir að við hlógum að þeim þegar þeir hentu sér flötum þegar sprengingar urðu í gossprungunni eða fjallinu eins og það var eiginlega orðið þá og starfsfólkið í flugvélunum íslensku gekk sig upp að hnjám með bros á vör og ekki að gleima fólkinu í Reykjavík sem tók á móti okkur þegar við fórum frá Eyjum.
Ég fór frá Eyjum eftir tæpa tvo mánuði og við vorum settir inn á Hótel Esju í nokkra daga, þar vorum við umsettnir af fréttafólki frá öllum heimshornum til að byrja með og seldum lopapeysurnar okkar og plasthjálmana sem voru með innbrætt gjall fyrir dágóða aura man ég, mín peysa var hvít í upphafi en orðin nánast svört af gjalli, það brast á uppboð í reseptionen á Hótel Esju og mig rámar að peysan hafi farið til Svía fyrir 500 sænskar krónur þá, sennilega hefði ég geta kreyst það meira, en það var drjúgur skyldingur fyrir unga peyja í Reykjavík og okkur lá á að lifa smá eftir allt stritið í Eyjum og starfsfólkið á Hótel Esju dekraði við okkur í bak og fyrir, ég man líka eftir leigubílstjórum í Reykjavík sem vildu ekki taka borgað fyrir að keyra okkur.
 
Í það stóra, þá segi ég fyrir mína parta að gosið á Heimaey var yndislegur tími sem framkallaði mikla manngæsku, samkennd og skilaði ævintýralegri lífsreynslu ásamt því að stórbæta Heimaey sem heimili manna og dýra.
 
Bestu kveðjur frá Svíþjóð, Pálmar Magnússon, Eyjapeyji alla leið J
(17 ára þegar gaus)
 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).