Ógnvekjandi hversu stjórnmálamenn eru hræddir við listamenn

Segir Elliði Vignisson bæjarstjóri

11.Nóvember'13 | 08:51
„Það er ógnvekjandi hversu stjórnmálamenn eru hræddir að ræða forgangsröðunina af þessum innbyggða ótta stjórnmálamanna við menningu og listir. Menn eru hræddir við að vera dregnir sundur í háði í Spaugstofunni eða að Hallgrímur Helgason semji limru. Stjórnmálamenn eru á eftir eins og rassskelltir apar þegar búið er að fara höndum um þá af listamönnunum. Það er hættulegt“, sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í þætti Gísla Marteins, Sunnudagsmorgun.
 
Þar tókust þeir Elliði Vignisson og Hjálmar Hjálmarsson leikari á um ríkisfjármálin. Elliði sagðist vilja forgangsraða og draga úr utanríkisþjónustu, styrkjum til stjórnmálaflokka og menningar og lista. Hjálmar hinsvegar vill bæta í og auka framlög til heilbrigðisþjónustu og menningar.
 
Frétt Eyjunnar fyrr í vikunni þar sem Elliði spurði hvort 320 þúsund manna þjóð gæti rekið þjóðleikhús sem tæki til sín 900 milljónir vakti gríðarlega athygli. Gísli Marteinn spurði Elliða hvort hann hefði varpað þessari spurningu fram til að ögra en bæjarstjórinn svaraði að það væri hans skoðun að það þyrfti að forgangsraða á annan hátt í ríkisfjármálum. Þá sagði hann að viðbrögðin við fréttinni hefðu komið sér gífurlega á óvart.
 
Hjálmar var á öndverðri skoðun og sagði að ríkið hefði efni á að reka bæði þjóðleikhús og sinfóníu. Skoðanir Elliða á málinu lýstu ákveðinni peningahyggju.
 
… að við hugsum allt út frá peningum, andstætt einhverskonar hugsun um mennsku. Það liggur djúpstæð spurning undir um tilgang lífsins. Hvað erum við að gera í lífinu? Er lífið saltfiskur eða erum við að þessu til að syngja og dansa. Mitt svar er það, tilgangur lífsins sé að syngja og dansa og segja hvort öðru sögur og þess vegna erum við að veiða fisk.
 
Elliði gagnrýndi einnig umræðuna sem átti sér stað í vikunni og sagði að ef menn veltu vöngum yfir kostnaði við t.d. þjóðleikhús eða sinfóníu væri sá hinn sami á móti því að það væri rekið.
 
Hjálmr, Gísli og Elliði„Ég kannast bara ekki við þá meintu skoðun mína að við eigum ekki að reka þjóðleikhús eða við eigum ekki að reka sinfóníu hljómsveit. Spurningin er hvort við höfum efni á að gera þetta eins og við erum að gera. Hvort það sé réttlætanlegt á meðan við getum ekki mannað sjúkrahúsin okkar að setja rúmlega 900 milljónir í sinfóníu hljómsveit. Það er sá punktur sem ég er að velta upp. Og hvort við eigum að berja okkur svo fast á brjóstið yfir því að við eigum eina fullkomnustu tónlistarhöll í Evrópu. Sjálfur, og ég segi það bara af einlægni. Sjálfur væri ég mikið stoltari af því að geta sagt, við eigum fullkomnasta spítala í Evrópu“.
 
Elliði benti á að ríkisstjórnin væri að skera niður á öllum sviðum og spurði hvort það væri ekki eðlilegt að menningin lenti undir hnífnum líka, þar sem ekki væri mögulegt að halda úti almennilegu heilbrigðiskerfi.
 
Hjálmar svaraði að hann teldi að Íslendingar hefðu vel efni á að reka besta spítala í heimi.
 
Hjálmar og Elliði„Ég er reyndar mjög ósammála þeirri aðferð að við þurfum að skera niður. Vegna þess að það að skera niður í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og menningu og listum, það hefur aldrei virkað. Hvergi neinsstaðar í heiminum til þess að bæta samfélagið til þess að nýta þessa orku, eða þessa peninga sem við köllum, sem er bara ígildi þeirrar orku sem við erum að búa til. Þetta er eins og að skalla vegg einu sinni, það er heimska. Það virkar ekki. Þú ert í skuldafangelsi og þú reynir að skalla þig út úr því og svo gerir þú það aftur og það er enn þá meiri heimska. Og svo gerir þú það í þriðja skiptið og þá getur þú skilgreint það sem geðveiki. Þetta hefur hvergi virkað í neinu samfélagi að skera niður. Það sem við eigum að gera þegar kreppir að, er að við eigum að bæta í þetta. Við eigum að bæta í heilbrigðisþjónustuna. Bæta í forvarnarstörfin, líka í menninguna“.
 
Elliði var gáttaður á málflutningi Hjálmars og sagði að ríkisfjármagnið væri takmarkað og þyrfti að velja í hvað það væri notað. Þá þyrfti að forgangsraða í þágu nauðsynja, eins og heilbrigðisþjónustu, löggæslu og félagslegrar þjónustu fyrir þegna landsins og draga úr utanríkisþjónustu, styrkjum til stjórnmálaflokka og menningar og lista.
 
Gísli spurði þá hvort Eyjamenn vildu draga úr styrkjum til menningar vegna þess að það væri langt fyrir þá að sækja í hana til Reykjavíkur, Elliði neitaði því en bætti við:
 
Það sem við erum að horfa uppá er að fólk getur ekki fætt börn heima hjá sér. Fólk getur ekki sótt nauðsynlega læknisþjónustu. Það er verið að loka á grundvallarventla hjá ríkinu og þá förum við auðvitað yfir ferlið og sjáum hvar er hægt að hagræða.
 
Þá sagði Elliði að lokum að það væri ógnvekjandi hvað stjórnmálamenn væru hræddir við að ræða menningu og listir af ótta við að vera dregnir sundur og saman í háði.
 
… stjórnmálamenn eru á eftir eins og rassskelltir apar þegar búið er að fara höndum um þá af listamönnunum. Það er hættulegt.

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is