Bæjarráð fundaði í dag um stöðuna á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja

Bæjarráð lýsir einnig verulegum áhyggjum sínum yfir því öryggisleysi sem íbúar Vestmannaeyja búa við

28.Ágúst'13 | 14:27

Vestmannaeyjar Vestmannaeyjabær

Samkvæmt upplýsingum bæjarráðs var á starfsmannafundi Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja í gær tilkynnt að loka ætti skurðstofu stofnunarinnar fyrir fullt og allt þann 1. október 2013. Bæjarráð boðaði Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á aukafund í bæjarráði vegna málsins til að fara yfir stöðuna.
Gunnar kvað ástæðu ákvörðunarinnar vera kröfu Velferðarráðuneytisins um aukinn niðurskurð frá hausti 2012. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur fengið minna fjármagn til rekstursins í ár heldur en stofnunin hafði árið 2000 og er það meiri niðurskurður en sambærilegar stofnanir hafa þurft að ganga í gegnum, samkvæmt Gunnari. Bæjarráð mótmælir fyrirhugaðri lokun harðlega og bendir á að íbúar samfélagsins, ferðamenn og sjófarendur eigi rétt á þeirri grunnþjónustu.
 
Vegna landfræðilegrar legu Vestmannaeyja er nauðsynlegt að íbúar hér hafi aðgang að skurðstofu í samfélaginu. Ekki á að vera þarft að taka það fram að við búum á eyju, veður eru válynd og nú síðast um hásumar í síðustu viku var ekki siglt héðan í á annan sólarhring, þoka lá yfir öllu svo ófært var með flugi. Í Vestmannaeyjum gerist það reglulega að við lokumst af vegna veðurs og aðstæðna sem við ráðum ekkert við. Bæjarráð gerir þá eðlilegu kröfu að Heilbrigðisráðherra taki tillit til sérstöðu Vestmannaeyja að þessu leyti.
 
Vestmannaeyjar eru stórt samfélag, með mikil umsvif, öfluga og hættulega atvinnuvegi og mikla umferð ferðamanna. Til að mynda margfaldast íbúafjöldi Vestmannaeyja oft á ári vegna ýmissa bæjarhátíða, íþróttamóta og Þjóðhátíðar. Það er engan veginn boðlegt og algerlega óviðunandi að búa við Heilbrigðisstofnun án skurðstofu og án vafa mikil skerðing á lífsgæðum Vestmannaeyinga.
 
Bæjarráð lýsir einnig verulegum áhyggjum sínum yfir því öryggisleysi sem íbúar Vestmannaeyja búa við ef af ákvörðuninni verður. Opin skurðstofa þýðir að bæði skurðlæknir og svæfingalæknir eru við störf á stofnuninni en slíkir sérfræðingar koma að öllum alvarlegri málum. Til að mynda alvarlegum slysum, beinbrotum, alvarlegum veikindum og barnsfæðingum, þar með bráðakeisurum. Auk þess sem þeir eru lykilmenn í hópslysaáætlun sem og grunnur í starfsemi stofnunarinnar, stuðningur fyrir heilsugæslulækna og ljósmæður. Bæjarráð telur nú alltof langt gengið í niðurskurði og telur að við þetta verði ekki búið. Það að hafa svæfingalækni á staðnum hefur ítrekað bjargað mannslífum. Vestmannaeyingar og gestir þeirra munu búa við alvarlegt öryggisleysi ef af verður og ljóst að því verður ekki unað. Bæjarráð neitar að trúa því að ráðamenn telji íbúa Vestmannaeyja geta tekið þá áhættu að búa í samfélagi með börn sín vitandi það að ef alvarlegt slys eða veikindi ber að höndum þá kunni að bregða til beggja vona. Að eiga von á barni en búa við þann ótta að eitthvað óvænt komi upp, að þá sé voðinn vís. Bæjarráð veltir því ennfremur fyrir sér hver ætli að bera þá ábyrgð á herðum sér að hér verði manntjón vegna ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
 
Auk þessa bendir bæjarráð á að nú er sjúkraflugi sinnt frá Akureyri og því engin sjúkraflugvél staðsett í Vestmannaeyjum sem hefur verið krafa samfélagsins í áratugi. Lokun skurðstofu mun kalla á aukið sjúkraflug með ærnum tilkostnaði og að auki tefla íbúum í mikla hættu þar sem aðstoð svæfingalæknis nýtur ekki við til að undirbúa sjúklinga fyrir flutning og bið eftir sjúkravél. Þessi staða er einfaldlega óviðunandi og við hana verður ekki búið.
 
Bæjarráð gagnrýnir jafnframt að jafn afdrifarík ákvörðun og þessi skuli tekin án samráðs við bæjaryfirvöld. Ákvörðunin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, ekkert hafði verið rætt við bæjaryfirvöld um málið. Af þessum sökum krefst bæjarráð þess að Heilbrigðisráðherra fundi með bæjarstjórn hið fyrsta vegna þessa og jafnframt er þess krafist að ekkert verði aðhafst til undirbúnings fyrirhugaðri lokun fyrr en að loknum slíkum fundi.
 
Bæjarráð bendir á að þrátt fyrir að forsenda lokunar sé sögð sparnaður þá er vandséð að ákvörðunin muni skila sparnaði því kostnaðurinn mun flytjast til , aðgerðunum mun þurfa að sinna.
 
Að endingu er skorað á Heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson, Velferðarráðherra Eygló Harðardóttur, ráðherra kjördæmisins Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Sigurð Inga Jóhannsson og aðra þingmenn til að beita sér í málinu og tryggja fjármagn til reksturs skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja svo íbúar Vestmannaeyja þurfi ekki að búa við lífshættulegt ástand.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).