Bæjarráð telur að eignir hafi verið fluttar frá eyjum til Reykjavíkur á leynd

23.Maí'13 | 09:55

Bergur Huginn ehf, Bergey VE

Bæjarráð hefur yfirfarið greinagerðirnar og telur fátt þar koma á óvart. Þó vekur athygli hversu einbeittir kaupandi og seljandi hafa verið í því að haga málum með þeim hætti að forkaupsréttur Vestmannaeyjabæjar væri á markvissan máta sniðgenginn. Þannig voru eignir til að mynda fyrst fluttar á leynd í félög með heimilisfesti í Reykjavík áður en þær voru seldar til Síldavinnslunar. Þá vekur það einnig athygli og undrun að samningur sá er málið snýst um er ekki lagður fram sem málsgögn.
 
Bæjarráð gerir sér fulla grein fyrir því að í máli því sem hér um ræðir er við ramman reipi að draga. Eftir sem áður telur bæjarráð Vestmannaeyja mikilvægt fyrir öll sjávarútvegssamfélög að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort að sá réttur sem íbúum er falin í lögum um stjórn fiskveiða sé virkur. Ef ekki hlýtur það að verða krafa allra sjávarútvegssveitarfélaga að ný ríkisstjórn geri það að sínu fyrsta verki að auka rétt íbúa þegar kemur að kaupum og sölu aflaheimilda. Sá hái sértæki skattur á sjávarútveg sem stjórnvöld hafa nú heitið að lækka, er einungis ein birtingarmynd óréttlætis gagnvart sjávarbyggðum. Hin hliðin er sú ef málum verður þannig hagað að án fyrirvara geti útgerðarmenn svipt heilu byggalögin tilverugrunni sínum. Slíkt fær ekki viðgengist og um það verður aldrei sátt meðal íbúa sjávarbyggða. Þær leikreglur sem fólgnar eru í forkaupsréttinum tryggja að aflaheimildir flytjast ekki frá byggðalagi á meðan enn er arðbært að gera þar út. Bæjarráð Vestmannaeyja ætlast til að þessi leikregla sé virt af útgerðamönnum og minnir á að sá strengur sem er milli útgerðamanna og íbúa í sjávarbyggðum er báðum aðilum mikilvægur. Það verður holur hljómur í rödd þeirra útgerða sem ekki sýna íbúum sjávarbyggða þá hollustu sem þeir sjálfir ætlast til.
 
Bæjarráð minnir á að ef salan á Bergi Huginn til Síldavinnslunar verður að veruleika þá er um mikla blóðtöku að ræða fyrir sveitarfélagið. Samtals tapast 72 störf sem gáfu 642 milljónir í laun og beint útsvarstap nemur því um 93 milljónum. Þá hafði Vestmannaeyjahöfn um 22 milljónir í tekjur af skipum útgerðarfélagsins árið 2011 og telur bæjarráð að nærri láti að um sé að ræða átta til tíu prósent af hagkerfi Vestmannaeyja.
 
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu áfram eftir af festu og þá ekki síst gagnvart nýjum sjávarútvegsráðherra.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...