Nei við hóteli í Hásteinsgryfju

Vigdís Rafnsdóttir skrifar

21.Maí'13 | 08:17
Dagana 21. og 22. maí standa bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum fyrir skoðanakönnun á meðal bæjarbúa, um hvort veita eigi byggingarleyfi fyrir hóteli í Hásteingryfju hér í Eyjum. Það er mjög mikilvægt að það verði góð þátttaka hjá öllum sem hafa atkvæðarétt í könnuninni, sem eru einstaklingar með lögheimili í Vestmannaeyjum, fæddir árið 1995 og fyrr.
Það er mikilvægt að bæjarbúar í Vestmannaeyjum séu upplýstir um allt það er snýr að þessu máli og þar hafa bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum ekki staðið sig sem skyldi. Staðreyndin er að það félag sem er nú að kynna þessa framkvæmd er allt annað félag en það félag sem bæjaryfirvöld gengu frá viljayfirlýsingu um sl. haust. Í fréttatilkynningu frá Vestmannaeyjabæ sem m.a var birt á vefsíðu Eyjafrétta þann 10. október 2012 kemur eftirfarandi fram:
Vestmannaeyjabær og Sextíu plús ehf. hafa komist að samkomulagi um að stefnt verði að byggingu allt að 140 herbergja hótels í svonefndri Hásteinsgryfju.
 
Bæjaryfirvöld hafa alveg látið hjá líða að upplýsa bæjarbúa um þá staðreynd að félagið Sextíu plús ehf. var úrskurðað gjaldþrota 20. febrúar 2013. Telja bæjaryfirvöld það ekki skipta máli að það félag sem hélt á viljayfirlýsingunni er komið í hendur skiptastjóra? Er bakgrunnur verkefnisins ekki sterkari en það að forsvarsmenn þess setja umrætt félag á hausinn til að komast hjá áföllnum kostnaði? Hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja verið upplýst um þessa staðreynd? Sá bæjarstjóri Vestmannaeyja ekki tilefni til að koma þessu á framfæri við bæjarbúa?
 
Það sætir furðu hvernig framgangur þessa máls hefur verið og hvernig það getur verið að félagið H-Eyjar ehf. er nú að sækja um byggingarleyfi. Ekki er vitað til þess að Vestmannaeyjabær hafi gengið frá viljayfirlýsingu við það félag. Getur verið að bæjaryfirvöld séu að styðja kennitöluflakk? Ef svo er ekki, hvers vegna var ekki gengið frá nýrri viljayfirlýsingu við hið nýja félag og af hverju sá bæjarstjórn ekki tilefni til þess að upplýsa bæjarbúa um þessar staðreyndir?
 
Staðreyndin er sú að fyrra samkomulag Vestmannaeyjabæjar við hið gjaldþrota félag er runnið úr gildi. Verkefni þetta er því rekið áfram á fölskum forsendum og í þeim tilgangi er m.a. settur yfir verkefnið lögmaður til að gefa því eitthvert vægi. Þetta er þekkt tilhögun frá árunum í kringum 2007, og ætlum við Eyjamenn að styðja slíkt verklag sem kom þjóðfélaginu á hvolf?
 
Það að forsvarsmenn Vestmannaeyjabæjar vilji halda áfram með þetta gagnvart aðilum sem skiptu um kennitölu til að losna við að borga einhverjar nokkrar krónur og trúa áfram að þeir geti fjármagnað 1,5 milljarða er mjög alvarlegt mál. Það er einnig ýmislegt tengt þessu máli sem er ekki tilfallið að skapa traust á verkefninu. Þar má nefna hringlandaháttinn varðandi mögulegan rekstraraðila, ekkert liggur fyrir um útfærslu á umferðaröryggi á svæðinu, fjármögnun verkefnisins hefur áður verið sögð frágengin en þá fór félagið í gjaldþrot og fleira mætti telja til. Það er því ljóst að sporin hræða.
 

Aðalmálið er hins vegar það atriði að koma í veg fyrir það að byggingin rísi í Hásteinsgryfju, og Vestmannaeyingar sameinist um það að koma í veg fyrir að byggingar verði ekki leyfðar við fjöllin hér á Heimaey. Vestmannaeyjar eru náttúruperlur og Heimaey þarf að vernda með tilliti til þess að byggingar séu á þeim svæðum sem eru skipulögð fyrir slíka starfsemi. Það er því mikilvægt að við bæjarbúar Vestmannaeyja, stöndum vörð um að vernda fjöllin hér í Eyjum fyrir byggingaframkvæmdum. Það er alveg ljóst að ef bæjarstjórn veitir leyfi fyrir þessari byggingu þá er búið að skapa fordæmi sem getur eyðilagt þá sérstöðu sem Eyjarnar hafa.
 
Það er mjög mikilvægt að Vestmannaeyingar nýti þann möguleika sem okkur er gefinn með því að taka þátt í þeirri skoðanakönnun sem er framundan. Á atkvæðaseðlinum verður spurningin „Vilt þú að Vestmannaeyjabær veiti byggingaleyfi fyrir hótel það sem kynnt hefur verið á lóðinni í Hásteinsgryfjunni?“ Til að við stöndum vörð um Eyjuna okkar og náttúruna sem er svo heillandi fyrir okkur sem hér búum og aðra sem sækja okkur heim, er svarið skýrt "NEI".
 
Sendum bæjarstjórn Vestmannaeyja þá skýru niðurstöðu að bæjarbúar eru andvígir hótelbyggingu í Hásteinsgryfjunni.
 
Svörum því NEI og verndum með því náttúru Heimaeyjar.
 
Vigdís Rafnsdóttir
 
 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...