Spá Fótbolta.net - 8. sæti: ÍBV

27.Apríl'12 | 08:45

fótbolti

Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Eyjamenn endi í áttunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar. 10 sérfræðingar spá í deildina fyrir okkur þetta árið en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig.
Um liðið: Eyjamenn hafa verið í toppbaráttunni í Pepsi-deildinni undanfarin tvö ár. Í fyrra var liðið í baráttunni um titilinn þar til í næstsíðustu umferð og í hitteðfyrra hefði liðið orðið meistari með sigri á Keflavík í lokaumferðinni. Nýr þjálfari er í brúnni hjá Eyjamönnum í ár en Magnús Gylfason tók við liðinu af Heimi Hallgrímssyni síðastliðið haust.
 
Hvað segir Heimir? Heimir Hallgrímsson aðstoðarlandsliðsþjálfari er sérstakur álitsgjafi Fótbolta.net um liðin í Pepsi-deild karla. Heimir hefur náð mjög góðum árangri með lið ÍBV undanfarin ár. Síðastliðið haust var Heimir ráðin aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins eftir að Lars Lagerback var ráðinn þjálfari. Hér að neðan má sjá álit Heimis.
 
Það er mjög erfitt fyrir mig að vera hlutlaus álitsgjafi að þessu sinni. Síðustu ár hefur ÍBV alltaf verið spáð botnbaráttu. Ástæðan fyrir þessari spá í ár er líklega úrslitin í æfingaleikjunum og meiðsli lykilmanna. Ég er fullviss að ÍBV mun berjast á hinum enda töflunar þriðja árið í röð.
 
Styrkleikar: Leikmannahópurinn hefur haldist nær óbreyttur í 3 ár og það er lykill að stöðugleika. Mjög sterkir leikmenn hafa bæst í hópinn hjá ÍBV og leikmannahópurinn er mun sterkari og breiðari en í fyrra. Ég er einnig viss að einhver ný andlit munu bætast við hópinn í upphafi móts vegna meiðsla lykilmanna. Sóknarlega er ÍBV betur mannað en síðustu ár. Aaron Spear, Eyþór Helgi og Christian Olsen bætast allir við sóknarlínu ÍBV og þar mun styrkleiki liðsins liggja. Stemmingin á leikjum ÍBV hefur vaxið síðustu ár bæði á heimavelli sem og útivelli ég tel það sem einn af styrkleikjum liðsins.
 
Veikleikar: Byrjun Íslandsmótsins skiptir miklu um gengi liðanna. Fyrstu leikirnir gætu orðið ÍBV erfiðir vegna meiðsla Andra Ólafs, Tryggva Guðmunds og Gunnars Más. Allt lykil leikmenn. Hvort og hvenær þeir mæta til leiks ræður miklu um gengi liðsins í sumar. Aukin heldur eru leikmenn eins og Ragnar Leósson og Tonny Mawejje að hitta hópinn fyrst þessa daganna. Helmingur hópsins hefur æft eins og vanalega í Reykjavik. Fyrir nýjan þjálfara er þessi staða alltaf erfið en Maggi Gylfa þekkir þetta frá því hann þjálfaði ÍBV fyrir nokkrum árum. ÍBV hefur þess vegna aldrei getað stillt upp því byrjunarliði sem mun hefja Íslandsmótið það er veikleiki. Eins og staðan er á leikmannahópnum í dag hef ég áhyggjur af varnarleiknum.
 
Þjálfarinn: Magnús Gylfason
Maggi Gylfa (eða lúðurinn) er ljúfur drengur sem náði sérdeilis góðum árangri með ÍBV liðið árin 2003 og 2004. Maggi þekkir deildina eins og handarbakið á sér enda verið sérfræðingur í Pepsimörkunum síðustu ár. Ef hann lendir í vanda eru hæg heimatökin að fá sérfræðiaðstoð hjá Hödda Magg og Tómasi Inga. Aðstoðarþjálfarann Dragan Kazic þekkja færri en hann er að mínu mati einn allra besti þjálfari landsins og verður Magga mjög mikilvægur í sumar.
 
Lykilmenn: Það er ósanngjarnt að láta mig telja upp einhverja lykilmenn í ÍBV liðinu. Hins vegar verða leikmenn eins og Rassmus Christiansen, Þórarinn Ingi Valdimarsson og Matt Garner að taka leiðtogahlutverkið í upphafi mótsins hjá ÍBV í fjarveru fyrirliðanna.
 
Gaman að fylgjast með: Ég hlakka til að sjá Guðmund Þórarinsson í nýju hlutverki. Hann hefur spilað glimrandi vel á miðjunni í vetur og heldur því vonandi áfram í sumar.
 
 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...