Um staðsetningu og hönnun Landeyjahafnar

11.Október'11 | 08:52

Landeyjahöfn bakkafjara bakki

Mjög margt áhugafólk um bættar samgöngur hefur lagt lóð sín á vogarskálarnar í umræðum um Landeyjahöfn, enda um mikilvæga framkvæmd að ræða. Fjölbreytt álit hafa verið uppi um forsendur og byggingu hafnarinnar, einkum og sér í lagi undanfarið ár. Órökstuddar fullyrðingar um málefnið báru uppi forsíðu Morgunblaðsins í gær sem varði jafnframt heilsíðu til umfjöllunar um skoðanir Halldórs B. Nellett.

Staðurinn

Landeyjahöfn var valinn staður og form eftir ítarlegar rannsóknir sem fóru fram á mörgum árum. Stuðst var við öldumælingar, sýnatöku í botni, efnisburðarrannsóknir ásamt líkantilraunum og reynslu sjómanna frá Vestmannaeyjum, Grindavík og Hornafirði. Erlendar verkfræðistofur yfirfóru forsendur og gögn íslenskra sérfræðinga áður en að framkvæmdum kom.

Grunnforsendan var að velja Landeyjahöfn stað á ströndinni þar sem ölduorkan er minnst. Þar sem sandfjara suðurstrandarinnar gengur lengst fram í átt til Vestmannaeyja er orkuminnsti staðurinn. Þar sem sandflutningar með ströndinni eru nær eingöngu orsakaðir af öldugangi, eru sandflutningar jafnframt minnstir á þessum stað. Einmitt þar er jafnframt op – svokallað hlið –  á sandrifinu sem liggur úti fyrir ströndinni endilangri.

Athugun á veðurfarsgögnum og strandformum sýnir glögglega að suðvestanölduáttir eru bæði algengari og orkumeiri en suðaustanölduáttir þegar horft er til lengri tíma. Því var við val á staðsetningu lögð meiri áhersla á að skapa skjól fyrir suðvestanölduáttum. Veðurfar síðasta árs einkenndist af þrálátum suðaustanölduáttum og við þær aðstæður er aldan lægri nokkru vestar á fjörunni. Slíkt tímabil kemur hinsvegar afar sjaldan og reyndar sýna gögn að sambærilegar aðstæður hafa ekki skapast í að minnsta kosti heila öld.

Ströndin við ósa Markarfljóts er á stöðugri hreyfingu þar sem óseyrar ganga fram eða hopa eftir mismiklum framburði fljótsins eftir árum. Loftmyndir sem til eru aftur til ársins 1954 sýna ekki merkjanlegar breytingar á staðsetningu Bakkafjöru þar sem Landeyjarhöfn er.

Landeyjahöfn var því byggð þar sem saman fer til lengri tíma mesta skjólið og minnsti sandburðurinn.


Hönnunin

Sandflutningar á Bakkafjöru eru í báðar áttir og því þurftu brimvarnargarðarnir að vera jafnlangir. Ef annar garðurinn nær lengra fram eins og í hugmyndum Halldórs, þá fangar hann megnið af sandburðinum úr gagnstæðri átt. Dæmi Halldórs, hafnirnar í Hirtshals í Danmörku og Ijmuieden í Hollandi, eru á ströndum þar sem sandflutningur er að mestu leyti í aðra áttina.

Í Hvide Sand í Danmörku er sandflutningur í báðar áttir svipað og í Bakkafjöru og þar er nú verið að byggja höfn sem hefur sömu lögun og Landeyjahöfn.


Núverandi aðstæður við Hvide Sande höfn. Heimild http://www.hvidesandehavn.dk/

 
Endurbætur á höfninni í Hvide Sande árin 2011 og 2012. Heimild http://www.hvidesandehavn.dk/

Við undirbúning hafnar á Bakkafjöru voru ýmsar útfærslur skoðaðar. Meðal annars brimvarnargarðar sem náðu út fyrir grunnbrot á sandrifinu, en svo langir garðar hefðu reyndar verið nauðsynlegir vegna mikils sandburðar alls staðar annars staðar en þar sem höfnin var byggð. Sá staður sem Halldór nefnir var reyndar kannaður sérstaklega. Hafnargerð með svo löngum görðum hefði vissulega verið tæknilega möguleg en líklega kostað um 25 milljarða eða um sjö sinnum meira en raunin varð. Við mat á hagkvæmni samgöngumannvirkja er kostnaður ætíð tekinn með í reikninginn.

Skipið

Jafnvel þótt ekki hefði gosið í Eyjafjallajökli og engin sérstök frávik önnur hefðu orðið í náttúrunni er líklegt að umtalsverðar frátafir hefðu orðið á siglingum Herjólfs í Landeyjahöfn að vetrarlagi. Með nýrri höfn var verkefnið aðeins hálfkarað, því hönnun hennar gerði ráð fyrir minna og grunnristara skipi en Herjólfur er.

Eftir efnahagshrunið haustið 2008 var fallið frá smíði nýrrar ferju. Eftir þá ákvörðun benti Siglingastofnun á að Herjólfur myndi líklega nýtast helst til siglinga í Landeyjahöfn að sumarlagi en í Þorlákshöfn að vetrarlagi eins og sjá má í frétt á vef stofnunarinnar í nóvember þetta sama ár.

Í september sl., þegar Baldur leysti Herjólf af um tíma, kom glöggt í ljós hversu miklu máli skiptir að ferja af réttri stærð, lögun og djúpristu sé notuð til siglinga í Landeyjahöfn.
Gera má ráð fyrir að siglingar í höfnina verða óáreiðanlegar þar til síðari hluti þessarar samgönguframkvæmdar verður lokið með skipi sem hentar aðstæðum.

 

www.sigling.is

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).