Staða leikskólafulltrúa verður lögð niður

14.Apríl'11 | 15:26
Á fundi fræðslu- og menningarráðs voru teknar fyrir tillögur starfshóps sem falið var að fara í frekari rýnisvinnu út frá minnisblaði sem lagt var fram á fundi ráðsins fyrr á þessu ári. Í minnisblaðinu voru hugmyndir um mögulegar leiðir til hagræðingar í rekstri fræðslukerfis Vestmannaeyjabæjar. Fyrir liggur að kostnaður fræðslukerfisins hefur aukist mikið á síðustu árum og því mikilvægt að leita leiða til hagræðingar m.a. til að tryggja áframhaldandi rekstur og þjónustu. Starfshópnum var falið að finna leiðir til að hagræða í rekstri um 12 - 16 milljónir. Fyrir liggja niðurstöður og tillögur frá starfshópnum.
Fræðslu- og menningarráð þakkar starfshópnum fyrir starf sitt og samþykkir þær tillögur sem hann leggur fyrir ráðið. Eftirfarandi tillögur munu því koma til framkvæmda:
 
1. Staða leikskólafulltrúa verður lögð niður.
Vestmannaeyjabær hefur reynt að fylgja þeirri stefnu að fækka fremur í millistjórn en að draga úr þjónustu eða hækka álögur of mikið. Starfshópurinn hefur fylgst með aðgerðum annarra sveitarfélaga sem hafa farið sömu leið í hagræðingu fræðslumála og telur að Vestmannaeyjabær geti fylgt sömu stefnu. Hópurinn telur að sérfræðiþekking á leikskólamálum sé tryggð í öflugum leikskólastjórum, sérkennslustjóra innan leikskólans og hæfum leikskólakennurum. Verkefni leikskólafulltrúa munu dreifast á milli starfsmanna fjölskyldu- og fræðslusviðs. Leikskólafulltrúi hefur á löngum starfsferli sínum sinnt starfi sínu af mikilli fagmennsku og ábyrgð. Mælt er með að honum verði boðin staða við leikskóla bæjarins hafi hann áhuga á því.
 
 
2. Skerpt verður á úthlutunarforritinu ,,pottorminum" vegna útdeilingu kennslustunda til grunnskólans.
Ráðið mælir með því að stuðst verði við sveigjanlegan hámarksfjölda í bekk við nýtingu á "pottorminum" ár hvert þannig að hámarksfjöldi í 1. og 2. bekk verði 22 til 24 nemendur og 24 til 28 í 3. til 10. bekk. Þetta fyrirkomulag býður upp á að fá út eins hagstæðan skiptistundafjölda úr "pottorminum" fyrir skólastjórnendur og völ er á til að auka sveigjanleika í skólastarfi. Með því er hægt að draga úr samþykktum viðbótarúthlutunum sem til hafa komið á síðustu árum af ýmsum ástæðum og fest hafa í sessi. Þessar viðbótarúthlutanir eru í ár um 50 kennslustundir, þ.a. 20 kennslustundir vegna tímabundins gæðastarfs í skóla og 30 kennslustundir sem til hafa komið sem blanda af kennslustundum til nýbúafræðslu, vegna erfiðra bekkja eða fjölda nemenda í bekkjum. Viðbótarúthlutun vegna gæðastarfs sem var tímabundin ákvörðun fellur niður á næsta skólaári. Þá verða til að byrja með 15 kennslustundir teknar af þessari föstu 30 stunda viðbótarúthlutun frá skólaárinu 2012-2013 og svo aðrar 15 á skólaárinu þar á eftir. Hins vegar bendir starfshópurinn á að sérstakar aðstæður geta skapast innan hvers skólaárs sem kalla á viðbótarúthlutun ef haldbær rökstuðingur kemur frá skólastjóra og skólaskrifstofu. Mikilvægt er að slíkar beiðnir séu afgreiddar um leið og fræðslu- og menningarráð samþykkir kennsluútlutun næsta skólaárs og/eða við gerð fjárhagsáætlun bæjarins.
 
 
3. Staða deildarstjóra í GRV verður lögð niður.
Þessi leið er í anda þeirrar stefnu sem Vestmannaeyjabær hefur valið þ.e. að fækka fremur í millistjórnun en að draga úr þjónustu eða auka álögur um of. Hér er verið að tala um að leggja niður eina stöðu deildarstjóra í GRV. Í raun hefur deildarstjóri miðstigs sagt upp stöðu sinni og mun taka að sér önnur verkefni innan skólans. Staðan hefur ekki verið auglýst. Starfshópurinn telur að þarna sé tækifæri til að hagræða án viðkvæmra afleiðinga og tekur þessa ákvörðun í samráði við skólastjóra GRV.
 
 
4. Möguleiki á lengra sumarfríi leikskólabarna án gjaldtöku.
Ráðið mælir með því að það verði skoðað að foreldrum barna á leikskóla verði boðið að taka allt að þriggja mánaða sumarfrí fyrir barn án gjaldtöku svo framarlega sem kostnaður leikskólans aukist ekki. Með þessu skapast sá möguleiki að hefja aðlögun nýrra barna fyrr á leikskólanum auk þess sem sveigjanleiki barnafjölskylda eykst. Þessi leið býður upp á aukna samveru barna og foreldra á sumrin þar sem slíkur möguleiki gefst. Að auki, með því að bjóða börnum fyrr aðlögun á leikskóla mun draga úr kostnaði mismunagreiðslna til dagmæðra vegna barna eldri en 18 mánaða. Hagræðingin af þessari aðgerð veltur á fjölda barna sem taka lengra frí en gæti hugsanlega orðið á bilinu 0,5-1 milljón króna í lægri mismunagreiðslum.
 
 
Fræðslu- og menningarráð telur ekki tímabært að hækka leikskólagjöldin eins og nú árar í þjóðfélaginu. Það vill þó benda á að heildarkostnaður við hvert leikskólapláss er um 1,3 milljón á ári hvert barn. FramlagVestmannaeyjabæjar í þeim kostnaði er rúm ein milljón króna á móti tæpum 300 þúsund krónum hjá foreldrum. Einnig er rétt að benda á að í dag er fæðiskostnaður barna í leikskólum Vestmannaeyjabæjar um 900 kr lægri á mánuði en meðalfæðiskostnaður viðmiðunarsveitarfélaga. Leikskólagjöld í Vestmannaeyjum verða því áfram undir landsmeðaltali.
 
 
Að lokum felur fræðslu- og menningarráð framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að vinna frekari úttekt á rekstrarstöðu leikskólanna
 

Með þessum aðgerðum mun, að loknum biðlaunarétti og niðurfellingu allrar viðbótarúthlutunar kennslustunda við "pottorminn" sparast í kringum 14 milljónir króna.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).