Litla heimsmeistaramótið

Margrét Lára Viðarsdóttir skrifar á ibvsport.is

23.Mars'11 | 15:13
Það er eitt sem við knattspyrnumenn eigum nánast öll sameiginlegt, það er að eiga þann draum að spila með Íslenska landsliðinu. Ég hef verið svo heppin að frá 16 ára aldri hef ég fengið þann heiður að fá að spila fyrir land okkar og þjóð.
Það er eitthvað svo sérstakt að ganga inn á völlinn í bláa búningnum og spila fyrir þjóð sína. Ég lít á þetta sem forréttindi og nýt hverrar mínútu sem ég spila. Þegar 18 leikmenn með svona hugarfar koma saman þá aukast líkurnar á sigri um nokkur prósent að mínu mati. Svona hugsum við allar í kvennalandsliðinu.
 
Ég var stödd með landsliðinu fyrir nokkrum vikum á æfingamóti á Algarve í Portúgal eða á ,,litla heimsmeistaramótinu” eins og mótið er gjarnan kallað. Með mér í för voru tvær aðrar eyjastelpur þær Fanndís Friðriksdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Þetta var ein besta landsliðsferð sem ég hef upplifað. Við byrjuðum á því að vinna Svíþjóð 2-1 eftir að hafa lent 0-1 undir. Þar á eftir unnum við Kína 2-1 eftir að hafa lent aftur 0-1 undir og loks unnum við frændur okkar dani 1-0. Við fórum alla leið í úrslit en töpuðum þar 4-2 gegn besta landsliði heims, Bandaríkjunum. Það sem stendur upp úr að mínu mati eftir þessa ferð er án efa liðsheildin og sá karakter sem liðið hefur að geyma. Að snúa tveimur leikjum við gegn svona sterkum þjóðum, sem svíar og kínverjar eru, er ótrúlegt og þarf virkilega sterka og góða liðsheild til .
 
 
Ég vil líkja okkur við ,,strákana okkar” eða karlalandsliðið í handbolta. Það sem einkennir bæði þessi lið er þetta þjóðarstolt, karakter, reynsla, trú og vilji til að vinna. Það er oft skrítið að hugsa til þess að við erum bara rétt rúmlega 300.000 manns sem búum á Íslandi en ég held að sú staðreynd gefi okkur aukin kraft þegar út í leikina er komið. Þjóðarstolltið er svo mikið og viljinn til að vinna yfirtekur allt annað sem kallast hæfileikar eða geta.

Ég elska að spila fyrir Ísland og ég trúi því að við eigum bara eftir að bæta okkar leik og komast á enn fleiri stórmót í framtíðinni. Minn draumur er að vera partur af því að skrifa knattspyrnusöguna upp á nýtt og gera eitthvað enn stærra og stórkostlegra. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og trúin með.
 

Kveðja
Margrét Lára Viðarsdóttir

Tekið af www.ibvsport.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...