Eyjamenn unnu botnslaginn

2.Júní'09 | 01:37

fótbolti

Eyjamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti en strax á annari mínútu sköpuðu þeir sér hörkufæri þegar Gauti Þorvarðarson stakk boltanum inn á Ajay Leigh-Smith, sem sendi boltann aftur fyrir á Gauta sem mættur var inni í teig Grindvíkinga en skot hans slakt og framhjá.
Við þetta vöknuðu Grindvíkingar og fóru strax að færa sig framar á völlinn, en fyrsta færi þeirra kom eftir um 5. mínútna leik. Óli Baldur Bjarnason átti þá fína fyrirgjöf frá vinstri sem rataði fyrir fætur Scott Ramsay en skot hans slakt og endaði í höndunum á Albert Sævarssyni. Jóhann Helgason átti svo einnig fína tilraun, þar sem hann tók við boltanum úr innkasti og reyndi hjólhestaspyrnu en boltinn vel yfir mark ÍBV.

Það var svo eftir um 25. mínútna leik að fyrsta markið leit dagsins ljós. Chris Clements átti þá sendingu inn í teig sem Andri Ólafsson tók á bringuna, Andri lagði þá boltann út á Gauta sem gerði sér lítið fyrir og tók boltann á lofti í fyrsta og hamraði honum alveg út í bláhornið. Óskar Péturssoní marki Grindvíkinga átti aldrei möguleika. Frábært mark hjá Gauta, en þetta var hans fyrsta mark í sumar, og hans fyrsta í úrvalsdeildinni.

Leikurinn róaðist eilítið eftir markið og Eyjamenn bökkuðu aftar á völlinn. Þeir áttu þrátt fyrir það næsta færið en þá fékk Christopher Clements boltann inni í teig gestanna og skaut flottu skoti að marki en Óskar gerði frábærlega í markinu og sló boltann yfir.
Stuttu síðar voru Grindvíkingar nálægt því að jafna metin þegarf Scott Ramsay átti sendingu inn í teig sem Albert náði ekki til, en Andrew Mwesigwa var fljótur að átta sig og sparkaði boltanum aftur fyrir, rétt áður en Gilles Mbang Ondo komst til knattarins.

Þetta var það síðasta sem gerðist í fyrri hálfleik og gengu Eyjamenn sáttir til búningsherbergja.

Strax í byrjun seinni hálfleiks fékk Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, svo dauðafæri. Andri fékk þá boltann inni í teig Grindvíkinga, en skot hans framhjá. Grindvíkingar stálheppnir að lenda ekki 2-0 undir.
Jóhann Helgason átti svo fínan skalla fyrir gestina eftir sendingu utan af kanti, en skalli hans rétt framhjá. Jóhann var svo aftur á ferðinni stuttu seinna þegar hann fékk boltann eftir skemmtilega útfærða aukaspyrnu. Scott Raymsay virtist þá ætla að skjóta að marki, en lagði boltann þess í stað til hliðar þar sem Ray Anthony hljóp yfir boltann og þar var Jóhann mættur og skaut hörkuskoti að marki en boltinn yfir.

Lúkas Kostic gerði svo tvær skiptingar á stuttum tíma, en útaf fóru þeir Orri Freyr Hjaltalín og Óli Baldur, og inn í þeirra stað komu Emil Daði Símonarson og Sveinbjörn Jónasson.

Eftir rúmlega klukkutíma leik dró svo til tíðinda. ÍBV fengu þá aukaspyrnu úti á hægri kanti, Matt Garner spyrnti boltanum inn á teig á Andra, sem skallaði boltann fyrir fætur Ajay's Leigh-Smith sem tók boltann í fyrsta og smellti honum í fjærhornið framhjá Óskari. Frábært mark hjá Englendingnum unga, sem var að skora sitt annað mark í Pepsi-deildinni.

Eftir markið kom fyrsta skipting Eyjamanna. Markaskorarinn Gauti fór þá af leikvelli og í hans stað kom Arnór Eyvar Ólafsson. Hann var fljótur að setja mark sitt á leikinn en hann var aðeins búinn að vera inni á vellinum í örfáar mínútur þegar hann fékk fínt færi inni í teig gestanna en skotið slakt og beint á Óskar.

ÍBV gerði svo sína aðra skiptingu þegar um 10.mínútur lifðu leiks. Þá fór útaf hinn markaskorarinn, Ajay Leigh-Smith, og inn kom Selfyssingurinn efnilegi, Viðar Örn Kjartansson.

Grindvíkingar reyndu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma marki á ÍBV, og nokkrum mínútum fyrir leikslok átti Zoran Stamenic ágætan skalla að marki en Albert vel vakandi og greip boltann. Þeir náðu þó að klóra í bakkann þegar Yngvi Borgþórsson braut á Emil Daða inni í teig og vítaspyrna réttilega dæmd. Gilles Ondo fór þá á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Albert.

Gestirnir settu þá allt í sókn og reyndu eins og þeir gátu að jafna leikinn, en í uppbótartíma kláruðu Eyjamenn leikinn með marki frá varamanninum Viðari Erni sem skoraði með flottu skoti úr teignum. Glæsilegt mark hjá stráknum, en þetta var líkt og hjá Gauta, hans fyrsta mark í sumar og hans fyrsta í úrvalsdeildinni.

Þá flautaði frábær dómari leiksins, Örvar Gíslason, leikinn af og fóru heimamenn verðskuldað með öll þrjú stigin héðan af Hásteinsvelli.

Byrjunarlið ÍBV: Albert Sævarsson, Cris Clements, Matt Garner, Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andri Ólafsson, Yngvi Borgþórsson, Pétur Runólfsson, Andrew Mwsigwa, Gauti Þorvarðarson, Eiður Sigurbjörnsson, Ajay Leigh-Smith.

Byrjunarlið Grindavíkur: Óskar Pétursson, Óli Baldur Bjarnason, Ray Anthony Jónsson, Scott Ramsay, Marko Stefánsson, Jóhann Helgason, Orri Freyr Hjaltalín, Zoran Stamenic, Bogi Rafn Einarsson, Gilles Mbang Ondo, Jósef Jósefsson.

Aðstæður: Hásteinsvöllur í frábæru standi, smá gola, léttskýjað og þurrt.
Dómari: Örvar Sær Gíslason.
Áhorfendur: 610.
Maður leiksins: Andri Ólafsson.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...