Knattspyrnuhúsin virðast hafa skilað sér

30.Mars'09 | 08:27
Hermann Hreiðarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins og varnarmaður Portsmouth, var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net í fyrradag. Þar ræddi hann meðal annars um landsliðið sem og stöðu sína hjá Portsmouth.

Í janúar síðastliðnum leit út fyrir að Hermann gæti verið á förum frá Portsmouth en hann hafði fengið fá tækifæri undir stjórn Tony Adams. Reading reyndi meðal annars að fá Hermann en að lokum fór þessi sterki varnarmaður að fá tækifæri hjá Portsmouth og því hélt hann tryggð við félagið.

,,Reading gekk hvað lengst, þá hefði maður ekki þurft að flytja og það var hentugast á þeim tímapunkti. Það var alltaf best að vera áfram hjá Portsmouth og spila fótbolta og maður vonaði að það gæti gerst," sagði Hermann í viðtalinu í útvarpsþættinum.

Samningur Hermanns rennur út í sumar en hann hefur verið fastamaður í liðinu undanfarnar vikur og gæti hugsað sér að framlengja samninginn.

,,Ef að þetta er það sem koma skal þá hér þá hef ég áhuga á að vera áfram. Það eru margir leikmenn með lausa samninga í sumar og eigandinn virðist vera búinn að missa veskið þannig að ég held að það verði ekki rætt við leikmenn fyrr en í lok apríl þegar að staða liðsins verður orðin skýrari. Síðan gætu komið nýjir eigendur þannig að maður veit ekki hvernig þetta endar allt hjá klúbbnum."

Tony Adams fékk að taka pokann sinn hjá Portsmouth á dögunum og Paul Hart tók við stjórnvölunum. Adams hafði gengið mjög illa síðan hann tók við af Harry Redknapp í október síðastliðnum og Hermanni kom á óvart hvernig hann var sem stjóri.

,,Hann er algjör öðlingur og maður hafði aðra mynd í hausnum en kom í ljós, þetta var fyrrum fyrirliði Arsenal og enska landsliðsins þannig að maður var búinn að gera sér mynd af miklum nagla og menn kæmust ekki upp með neitt kjaftæði en sú varð ekki raunin."

Hermann verður í eldlínunni á miðvikudaginn þegar að Íslendingar mæta Skotum á Hampden Park í mikilvægum leik í undankeppni HM.

,,Þetta er algjör lykilleikur fyrir bæði lið í rauninni. Auðvitað eiga Skotarnir leik inni í kvöld en við vonum að Hollendingar vinni það (Viðtalið er tekið á laugardaginn). Ef staðan er þannig þá er þetta lykilleikur. Ef annað hvort liðið tekur þrjú stig þá er það búið að koma sér í mjög þægilega stöðu í þessum riðli með þrjá leiki eftir. Með sigri í þessum leik er hægt að opna riðilinn alveg fram í síðasta leik."

Ólafur Jóhannesson hefur náð fínum árangri síðan hann tók við þjálfun íslenska landsliðsins og Hermann hefur verið ánægður með hann.

,,Hann hefur komið gríðarlega sterkur inn. Hann hefur stimplað inn í menn að vera ekki hræddir við að gera mistök. Það eru breyttir tímar, við vorum með líkamlega sterkt lið og stóra leikmenn í hverri stöðu og spiluðum háboltaleik, vörðumst og létum finna vel fyrir okkur."

,,Þessi knattspyrnuhús virðast hafa skilað sér síðustu ár, það eru að koma upp téknískir strákar og góðri fótboltamenn og það er óþarfi að vera hræddir við það að halda boltanum,"
sagði Hermann meðal annars í viðtalinu í útvarpsþættinum.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.