Hermann vill vera áfram hjá Portsmouth

28.Mars'09 | 07:02
,,ÉG hef svona aðeins rætt við forráðamenn liðsins en þeir gefa engin svör fyrr en í lok apríl þegar þeir sjá hvernig þetta fer hjá liðinu. Vonandi verðum við búnir að tryggja tilverurétt okkar í deildinni,“ sagði Hermann Hreiðarsson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Portsmouth, í samtali við Morgunblaðið þegar hann var spurður um framhald sitt hjá félaginu en samningur Hermanns við Portsmouth rennur út í sumar.

Ert þú tilbúinn að vera áfram hjá Portsmouth ef þið haldið ykkur uppi?
,,Já, það er engin spurning. Það er búið að vera mjög gaman síðan ég fékk tækifærið á nýjan leik og ég er ánægður ólíkt því sem var þegar ég var úti í kuldanum. Það hefur verið mikil stígandi í liðinu undanfarnar vikur en þetta er hvergi nærri búið. Við erum enn í bullandi fallbaráttu en næstu þrír leikir eru ákaflega mikilvægir sem eru á móti Hull, WBA og Bolton. Þetta eru allt sex stiga leikir og geta ráðið miklu um framhaldið," sagði Hermann en Portsmouth er sem stendur í 15. sæti, er þremur stigum frá fallsæti og á að auki leik til góða.

Toppbaráttan er orðin spennandi aftur en við hverju býst Hermann í þeirri baráttu? ,,Þetta er algjörlega í höndunum á Manchester United ennþá og ég hef trú á því að liðið rífi sig upp og standi uppi sem meistari í vor."

Yrði frábært að ná þremur stigum
Hermann leiðir íslenska landsliðið til leiks gegn Skotum á Hampden Park í Glasgow í afar þýðingarmiklum leik í undankeppni HM á miðvikudaginn en Íslendingar eru í harðri baráttu um að ná öðru sætinu í riðlinum.
Spurður hvort hann yrði ánægður með að fá eitt stig í leiknum sagði fyrirliðinn: ,,Já, já, ég sætti mig við allt annað en tap. Það yrði frábært að ná þremur stigum og eins og þetta hefur spilast er baráttan galopin um annað sætið. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik og það er eitthvað sem segir mér að þetta verði góð ferð hjá okkur til Skotlands. Við eigum harma að hefna og munum selja okkur dýrt," sagði Hermann Hreiðarsson.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...