Ég er lang bestur í framlínunni

6.September'08 | 09:39

Hemmi Hreiðars Hermann Hreiðarsson

Hermann Hreiðarsson fyrirliði íslenska liðsins segir leik liðsins vera á uppleið en liðið mætir því norska í dag.
Leikurinn við Norðmenn er fyrsti leikurinn í undankeppni HM en leikurinn fer fram á Ulleval vellinum í Osló.

,,Stemningin er bara gríðarlega góð, við mætum í hvern einasta leik til að gera okkar allra besta og sýna hvað í okkur býr sem vantaði svolítið uppá í síðustu keppni," sagði Hermann í samtali við Fótbolta.net í gær.

,,Það vor fullt af jákvæðum punktum í leiknum gegn Aserbaídsjan þrátt fyrir að við höfum ekki unnið, við vorum að halda bolta vel, skapa okkur fín færi og það voru fínar fyrirgjafir að koma. Við förum fyrst og fremst fram á það af hvorum öðrum að við stöndum okkur og sýnum hvað í okkur býr."

Eftir að Ólafur Jóhannesson tók við landsliðinu hefur liðið spilað marga æfingaleiki og finnst Hermanni leikur liðsins sé á uppleið.

,,Það er engin spurning um að þetta er á uppleið, það er stígandi og við vitum og skilaboðin eru skýr frá stjóranum að æfingaleikir eru bara æfingaleikir en þetta er alvöruleikur. Ég get setið hérna í allan dag (Í gær) og röflað um hvað við erum góðir í fótbolta en það skiptir engu, það eina sem skiptir hvað við gerum í leiknum."

Íslenska liðið kom til Noregs á miðvikudag og hefur undirbúningur liðsins verið eins og best verður á kosið.

,,Þetta hefur gengið fínt, það eru leikmenn hérna með fótboltagetu og það hafa Norðmenn líka en það eru bara þessar 90 mínútur sem menn verða að sýna hvað í þeim býr og það telur þar."

Hermann var miðvörður í síðasta leik en hefur flesta leiki leikið sem vinstri bakvörður hvað finnst honum um það?

,,Ég er lang bestur í framlínunni en það sér það engin annar en ég," sagði Hermann í léttum tón. ,,Það skiptir mig ekki nokkru máli, ég er búinn að spila fleiri hundruð leiki sem miðvörður og fleiri hundruð leiki sem bakvörður og finnst það bara frábært verkefni."

,,Þetta verður skemmtilegur leikur, pressan er öll á þeim og við erum mættir hérna til að reyna að eyðileggja einhverja stemningu fyrir þeim."

Hermann mun bera fyrirliðabandið í undankeppninni en Eiður Smári Guðjohnsen hafði borið bandið þar á undan.

,,Það er mikill heiður en fyrst og fremst að fara í landsliðsbúninginn er heiður og maður labbar alltaf stoltur út að spila fyrir Íslands hönd. Að vera með fyrirliðabandið í þessari keppni það er gríðarlegur heiður og skemmtileg ábyrgð."

,,Það er ekkert skemmtilegt að tapa í fótboltaleik og vonandi verður þetta allt skemmtilegt , vonandi verður þetta skemmtielg keppni þar sem við erum að spila góða leiki og fá svolítið af stigum."

Mikil pressa er á norska liðið fyrir leikinn og telja menn hér í Noregi að allt annað þrjú stig fyrir þá sé slys.

,,Pressan er öll af þeim og þeir ætlast til þess að þeir taki þrjú stig af íslendingum, það er ósköp einfallt," sagði Hermann sem segir mikilvægt að halda markinu hreinu sem allra lengst.

,,Það vinnur með okkur, því lengur sem við höldum hreinu þá vinnur hver mínútan með okkur, þetta kemur allt í ljós á þessum 90. mínútum," sagði Hermann að lokum í samtali við Fótbolta.net.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.