Ég man einnig þegar ég kom fyrst aftur til Eyja eftir gos og fannst nöturlegt að sjá þriðjung bæjarins undir hrauni

24.Janúar'08 | 08:06

bogi Ágústsson

Í tilefni að í dag eru 35 ár liðinn frá upphafi eldgossins á Heimaey þá sendum við eina spurningum á nokkra þekkta einstaklinga í samfélaginu. Svörin við þessari spurningum munum við birta á næstu dögum.

Spurningin er þessi:

Manstu hvar þú varstu staddur þegar þú fréttir að byrjað væri að gjósa á Heimaey? 
Ég var tvítugur nemi í sagnfræði og íslensku við Háskóla Íslands á fyrsta ári og var að fara í próf þennan morgun.  Ég vaknaði um sjö-leytið og var hissa á að faðir minn skyldi kominn á stjá því hann var heima í fríi. Hann sagði mér að farið væri að gjósa í Eyjum og saman hlustuðum við á útvarpið uns ég þurfti að fara í prófið. Ágúst Jónsson, faðir minn, var á þessum tíma skipstjóri á Bakkafossi. Auðvitað leið okkur eins og ég geri ráð fyrir að flestum hafi liðið, við trúðum þessum fréttum vart. Okkar fyrsta hugsun var að sjálfsögðu öryggi Eyjamanna og þá sérstaklega ættingja okkar Sighvats Bjarnasonar, bankagjaldkera, Ellýjar konu hans og barna. Sighvatur var ætíð kallaður SB í fjölskyldunni.
Ég hafði heimsótt þau sem barn og dvalist hjá þeim þar sem eldri bærðurnir og frændur mínir Bjarni, Gísli og Viktor reyndu árangurslaust að kenna mér að spranga. En það amaði ekkert að þeim né öðrum Eyjamönnum, sem betur fer. Fljótlega varð ljóst ótrúlega vel hafði tekist að flytja alla íbúa heilu og höldnu til lands. Það sem mér er minnistætt er hversu gríðarleg samtaða var meðal allra landsmanna, allir vildu gera sitt til að hjálpa. 

Þegar prófunum var lokið vildi ég leggja mitt af mörkum og með því að gerast háseti á Gullfossi sem sendur var til Eyja sem gisti-og hvíldarstaður fyrir björgunarmenn. Ég vann öll mennta-og háskólaár mín á sumrin á sjónum sem háseti hjá Eimskip og var því vanur og taldi mig geta orðið að liði. Það reyndist óþarfi, skipið var fullmannað, en hins vegar vantaði háseta á Fjallfoss í hálfs mánaðar ferð til Evrópu. Ég skellti mér í þá ferð fyrst mín var ekki þörf í Eyjum. Á heimleiðinni lentum við í aftakaveðri og urðum að slá af og beita upp í vind. Sjöstjarnan frá Keflavík fórst í þessu veðri og það var ömurlegt að vita af tíu manns í tveimur gúmbátum á sömu slóðum og við vorum. Þau fórust öll.

Ég man einnig þegar ég kom fyrst aftur til Eyja eftir gos og fannst nöturlegt að sjá þriðjung bæjarins undir hrauni. Síðan á ég margar ánægjulegar minningar frá heimsóknum til Eyja ekki síst frá norrænum fréttastjórafundi sem við héldum í Eyjum fyrir svo sem áratug. Þetta var í maí og auðvitað tekin ákveðin áhætta með veður og flug. Það var svo sannarlega þess virði, veðrið var dásamlegt og við sigldum á spegilsléttum haffleti m.a. út í Bjarnarey og Elliðaey og fórum í land. Norrænir gestir okkar voru yfir sig hrifnir.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.