Birkir Ívar: lætur gagnrýnina ekki finna bilbug á sér

17.Janúar'08 | 08:52

Birkir Ívar

Birkir Ívar Guðmundsson var að drekka sama viðbjóð og Róbert Gunnarsson gaf mér að smakka eftir fyrri leikinn gegn Tékkum, þegar ég talaði við hann eftir leikinn í gær. Birkir Ívar er annar af tveimur markmönnum sem fara út, hinn er hinn skeleggi Hreiðar Levý Guðmundsson, en við ræddum meðal annars um drykkinn góða, gagnrýni á markvörslu íslenskra markmanna, leikinn gegn Svíum og sitthvað fleira í maraþonviðtali sem svíkur þó engan.
Ég tjáði Birki fyrst af öllu, eins og mér rann skylda til, að tjá honum hvað Vignir Svavarsson sagði um hann í gær. Þeir kumpánar eru saman í herbergi en Vignir kallaði Birki leiðinlegan. "Sko, við getum alveg orðað þetta þannig að hann getur prísað sig sælan yfir því að fá að vera með mér í herbergi. Þannig þarf hann að þola mig en á móti kemur að ég þarf að þola hann sem er auðvitað töluvert verra," sagði Birkir Ívar.

"Það hefur verið sagt að ég sé leiðinlegasti handboltamaður í heimi, það hefur einnig verið sagt að Þórir Ólafsson sé lang-leiðinlegasti handboltamaður í heimi en það er mál manna að Vignir Svavarsson sé lang-lang-leiðinlegasti handboltamaður í heimi. Þannig er það bara," sagði Birkir og næst lá beinast við að spyrja hvaða ósiði Vignir hefði.

"Ég verð að segja að vera með honum í hótelherbergi er bara eins og að vera á Stórhöfða (syðsti hlutinn á Heimaey, ekki gatan; innskot blaðamanns). Það er stanslaust tólf vindstig. Það er því ver og miður ekki þetta yndislega sjávarloft sem leikur um mann á Stórhöfða heldur er það töluvert verra loftið, án þess að fara nánar út í það. Maður þarf að hafa ansi slæmt lyktarskyn til að þola þennan mann lengur en í nokkra daga," sagði markmaðurinn og fékk sér sopa úr brúsa sínum.

Eins og ég hef minnst á smakkaði ég þennan ótrúlega holla, en vonda, drykk hjá Róberti í gær. "Þetta er ekki það besta," viðurkenndi Birkir. "Þetta heitir Actimete (stafsetning blaðamanns gæti verið röng) og er eiginlega bara vítamín og steinefni og svona sitthvað sem líkaminn þarf á að halda."

Ég sá þegar Birkir mætti í Laugardalshöllina um klukkutíma fyrir leik. Hér segir af hverju hann mætti of seint en hann byrjaði leikinn og varði reyndar mjög vel. "Ég var að koma frá Noregi (þar sem hann var að spila með landsliði tvö) og hafði verið á ferðalagi frá því um 10 í morgun. Ég lenti of seint vegna ísingar í Keflavík og seinkunar um fimmleytið. Það var svo töf vegna skafrennings á Reykjanesbrautinni og því mætti ég helst til seint. Þetta var semsagt bara ekkert vesen," sagði Birkir í augljósri kaldhæðni.

"Undirbúningurinn var alveg eftir því. Ég borðaði tvö svona Croissant í flugvélinni, sem er ekki það næringarríkasta sem er hægt að fá, og það slokknaði eiginlega bara á mér eftir fyrri hálfleikinn. Ég var orðinn ansi þreyttur og nánast farinn að geispa á leiknum," sagði Birkir sem varði þó vel.

"Jájá, þetta gekk fínt. Ég var með tæplega 40% varin skot sem er mjög gott bara. Allt yfir 30% er góð markvarsla í þessum klassa sem við erum í," sagði Birkir.

Ég spurði hann næst út í þá gagnrýni sem markmenn á Íslandi fá oft á sig. Mönnum er skeggrætt um að þessi staða sé mesta áhyggjuefnið og slíkt. Birkir hlustar ekki mikið á gagnrýnina

"Mér finnst ég auðvitað vera bestur í heimi og þess vegna á ég ekki skilið neina gagnrýni sem ég fæ á mig nokkru sinni. Neinei, mér finnst þessi umræða vera hálf hallærisleg. Þetta er umræða sem á eiginlega ekki rétt á sér. Ef ég lít heilt yfir til dæmis á minn þátt frá því ég kom inn í landsliðið held ég að ég hafi staðið mig vel."

"Auðvitað kemur leikur og leikur þar sem ég finn mig ekki, eins og hjá öllum leikmönnum. Það er bara gangur lífsins og handboltans. Ég tek það ekki inn á mig þó svo að menn reyni að finna einhverjar skyndiskýringar, maður lifir með þessu. Maður þarf breitt bak til að vera markmaður, sumir eru reyndar með breiðan maga en það kemur þessu kannski ekkert við," sagði Birkir.

Eins og áður sagði var Birkir úti í Noregi þar sem hann spilaði með landsliði tvö. Leikið var í Þrándheimi og gist var á sama hóteli og liðið verður á fyrir EM. Mér lék forvitni á að vita hvernig aðstæður voru. "Það eru mjög góðar aðstæður þarna. Flestir ef ekki allir leikmenn liðsins þekkja þetta þarna. Hótelið er frábært og höllin er fín. Þetta verður kannski ekki eins flott og HM í Þýskalandi, enda búa 80 milljónum fleiri í Þýskalandi. En það er flott EM framundan," sagði Birkir Ívar Guðmundsson að lokum.

 

Sjá nánar á  Í blíðu og stríðu

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.