Jafngildir 200 milljarða tekjutapi á höfuðborgarsvæðinu

18.September'07 | 10:26

arni

ÞAÐ er alveg klárt og kvitt að þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað í tengslum við kvótaskerðingu á þorski eru ekki boðlegar og þær eru því miður nánast dónaskapur og lítilsvirðing við stærstan hluta landsbyggðarinnar. Stokka verður spilin upp á nýtt og gera úttekt á málinu í samráði við sveitarfélögin, útvegsmenn og verkafólk.
 Það duga engin vettlingatök í þessum efnum eða úthlutun á einhverjum ruðum til sveitarfélaga, nánast með geðþóttaákvörðunum eins og virðist vera. Menn verða að gera sér grein fyrir því að málið er það alvarlegasta sem komið hefur upp á Íslandi í manna minnum.

Samsvarar 200 milljarða tekjuskerðingu
Menn verða að gera sér grein fyrir því að skerðing í þessum dúr aðeins í Grindavík, Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði þýðir það sama og um væri að ræða um 200 milljarða tekjuskerðingu á höfuðborgarsvæðinu á næstu þremur árum. Aðeins í þremur kvótahæstu verstöðvunum í þorski í Suðurkjördæmi, sem um leið eru í hópi 6 efstu verstöðva yfir landið, þá nemur skerðing í 3 ár yfir 10 milljörðum króna í tekjum og drift á ári og margfeldisáhrifin í sjávarplássunum eru margfalt meiri til hins verra en í umhverfi höfuðborgarinnar vegna fábreytni í atvinnu.

Gríðarlegur niðurskurður en augunum lokað
Þá er ótrúleg lítilsvirðing til dæmis við Grindavík að taka ekki á þróun þar af festu og myndarskap. Maður er nú orðinn alllangþreyttur á Vestfjarðaþulunni í þessu kvótadæmi öllu, að engir þjáist nema þeir. Vestfirðingar eiga allt gott skilið, en það eru fleiri sjávarþorp á Íslandi en á Vestfjörðum en það er óboðlegt að setja til að mynda 600 milljónir króna í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum en jafnvirði tyggigúmmípakka til Grindavíkur þó ekki væri nema í ljósi þess að 6000 tonna niðurskurður á þorskkvóta Grindvíkinga , úr 18.300 tonnum í 12.300, slagar upp í allan þorsk sem Vestfirðingar veiða á ári, ég undirstrika, bara að niðurskurðurinn hjá Grindvíkingum er svona mikill, og tekjumissir Grindavíkur á þremur árum og efnahagsleg áhrif verða nær 15 milljörðum króna, 15 milljörðum króna og svo eru menn að útdeila þeim einhverjum milljónum í umslagi í stað þess að taka upp viðræður um það hvað sé til ráða. Grindvíkingar hafa ýmsar hugmyndir bæði í nýsköpun, heilsugæslu og fleiri þáttum. Boðaðar mótvægisaðgerðir eru ekki einu sinni vasaútgáfa af því sem þarf að gera. Hið sama á við um mörg sjávarpláss á landinu, því áfallið dynur yfir í febrúar - mars þegar bátarnir koma til hafnar kvótalausir og verða bundnir unnvörpum fram á haust og tugir útgerðarmanna munu hætta. Til dæmis þetta atriði hefur ekkert verið skoðað. Svo dettur mönnum í hug að halda veiðileyfagjaldinu til streitu, gegn öllum mótrökum því veiðileyfagjaldið er hengingaról fyrir landsbyggðina fyrst og fremst, halda áfram ruglinu með byggðakvótann og ég veit ekki hvað og hvað. Það er eins og menn haldi að bátaeign landsmanna sé skuldlaus. Skuldirnar eru gríðarlegar. Það myndi eitthvað hvína í höfuðborgarbúum ef þeir sætu uppi með 70 milljarða tekjuskerðingu á einu ári. Þarna liggur alvara málsins.

Bullandi skakkaföll
Í Vestmannaeyjum nemur niðurskurðurinn um 4.000 tonnum með meðafla þannig að skerðingin þar og efnahagsleg áhrif eru um 10 milljarðar króna. Af 79 sveitarfélögum á landinu öllu eru Vestmannaeyjar kvótaríkasta sveitarfélagið þegar horft er til heildarkvóta í þorskígildum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja reið á vaðið og bauð stjórnvöldum viðræður um möguleika og aðgerðir til að bregðast við, en svarið var tölvupóstur upp á nokkrar millur, brandari miðað við eðli málsins. Í Höfn í Hornafirði er skerðingin um 2.500 tonn en varanlegur kvóti í stað 2000 tonna myndi kosta um 6 milljarða. Heildaráhrifin á Höfn eru því um 5-6 milljarðar í heild á þremur árum, gríðarlegt áfall fyrir um 2000 manna byggð og ljóst að þeir þurfa að draga saman, líklega með fækkun báta. Það þarf miklu meira en stuðning við Vatnajökulsþjóðgarð til að bregðast við þar og það þarf að byrja á því að ræða við heimamenn í fullri alvöru. Það eru skerðingar í Þorlákshöfn og Sandgerði og í Garðinum er skerðingin hátt í 2000 tonn og þar af 1400 tonn aðeins hjá Nesfiski þannig að heildarskerðingin er 4-5 milljarðar á þremur árum ef menn bæta ekki ráð sitt með nýjum ákvörðunum. Höfuðvandamálið er að módel Hafrannsóknastofnunar er mjög götótt og þess vegna þarf að setja nýjan hrygg í málið. Ríkisstjórnin á að hafa fulla burði til þess.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.