Sagan öll, eins og hún er.

2.Ágúst'07 | 22:01

Árni Johnsen, Þjóðhátíð, Brekkusöngur

Í þjóðhátíðarblaði Vestmannaeyja 2007 ræðir Árni Johnsen um brotthvarf sitt úr starfi kynnis á Þjóðhátíð á vægast sagt dapurlegan hátt.  Það er ekki óskaverkefni Þjóðhátíðarnefndar rétt fyrir hátíðina að þurfa að svara leirburði af þessu tagi, en hjá því verður ekki komist. Ummælin eru bæði ósönn og ærumeiðandi. Árni reynir líka að afla sér samúðar með því að skapa sér stöðu fórnarlambs í málinu og segir meðal annars
 ,, Það hlýtur alltaf að vera óvænt ef mönnum er hent fyrir borð ".
 
Sannleikurinn er sá að á Brekkusviðinu á sunnudagskvöldi árið 2005 þegar mikill fjöldi tónlistarmanna sem þátt tók í Þjóðhátíðinni söng ,, Lífið er yndislegt "meðan blysin loguðu, missti Árni illilega stjórn á skapi sínu. Árni fór um sviðið með formælingum og endaði á því að slá forsöngvarann og höfund lagsins Hreim Heimisson. Við þessa uppákomu fór allt úr böndunum., hljómsveitir neituðu meðal annars að spila. Það tók Þjóðhátíðarnefnd þó nokkurn tíma að róa vitni að árásinni og koma lagi á dagskrána.

Eins og ávallt voru allir fjölmiðlar staddir á hátíðinni og fréttir á Rúv greindu frá atburðinum strax kl. 01.00. Gjörsamlega friðlaust var fyrir fjölmiðlum alla nóttina. Í kjölfar hátíðarinnar fer af stað ótrúlegur farsi. Hreimur fullyrðir í fjölmiðlum að Árni hafi slegið sig, Árni neitar hins vegar staðfastlega. Þjóðhátíðarnefnd gerði ítarlega könnun meðal vitna að atburðinum sem öll voru á einn veg. Árni hafði slegið Hreim.

Á þriðjudegi eftir Þjóðhátíð og málið enn í fullum gangi í fjölmiðlum óskar Árni eftir fundi með Þjóðhátíðarnefnd. Á þeim fundi lagði Árni fram yfirlýsingu sem var eindregin stuðningur við hans málstað og óskaði eftir því að Þjóðhátíðarnefnd skrifaði upp á plaggið. Í ljósi þeirrar könnunar sem nefndin hafði gert var alls ekki stætt á því að kvitta á plaggið, Árni hafði slegið starfsmann nefndarinnar og farið með ósannindi í fjölmiðlum. Allir nefndarmenn neituðu.

Margir listamenn og skemmtikraftar settu sig í samband við nefndarmenn og tilkynntu að ef nefndin tæki ekki á málinu myndu þeir ekki starfa framar við hátíðina. Fjölmiðlar sóttu mjög hart á yfirlýsingu frá Þjóðhátíðarnefnd þessa daga. Það var hins vegar ekki fyrr en Hreimur Heimisson féllst á að falla frá hugsanlegri kæru á hendur Árna ef yfirlýsing sem innhéldi það rétta í málinu bærist frá Þjóðhátíðarnefnd að ákveðið var að aðhafast. Í kjölfar þess á fimmtudegi sendi nefndin frá sér yfirlýsingu þess efnis að hún harmaði framkomu starfsmanns hátíðarinnar í garð Hreims Heimissonar á brekkusviðinu á sunnudagskvöldinu. Árni var ekki nafngreindur í yfirlýsingunni. Þá loksins lygndi.

Þessi atburðarás varð til þess að Þjóðhátíðarnefnd tók þá ákvörðun einróma að skipta um kynni. Það skal tekið fram að þetta er ekki í fyrsta og eina skiptið sem Árni missir stjórn á sér á Brekkusviðinu og sýnir af sér dómgreindarskort. Árna var svo tilkynnt ákvörðun nefndarinnar nokkrum vikum fyrir Þjóðhátíð á fundi í Herjólfsdal og farið yfir ástæður, sem eru þær sömu og hér hafa verið tíundaðar. Af virðingu við margra ára starf Árna við Þjóðhátíð var tekin sú  ákvörðun að leyfa honum að segja sig frá starfi kynnis sjálfur, hefja hátíðina sem auglýstur kynnir og kveðja á föstudagskvöldi og kynna arftakann. Þetta tókst vel og umræða fjölmiðla eingöngu jákvæð. Ágætur endir á erfiðu máli.

Það er því með ólíkindum að lesa ummæli Árna í Þjóðhátíðarblaðinu. Ummæli á borð við.
 ,, Það var broslegt þegar Páll Scheving tilkynnti mér á skyndifundi standandi á hlaupabrautinni í dalnum vilja hans og Tryggva Sæmundssonar gegn vilja Bigga Gauja formanns nefndarinnar. Þeir vildu að ég hætti sem  þulur en héldi áfram með Brekkusönginn. Þá sagði ég í rólegheitunum við Pál og ekki að ástæðulausu; - er pólitík í þessu , Palli? Hann byrsti sig ógurlega og sagði; - ef þú talar svona til mín þá færð þú ekkert að vera á Þjóðhátíð-. Þetta fannst mér hreystilega mælt því mér hafði aldrei dottið sjálfum  í hug að hægt væri að banna nokkrum að vera á Þjóðhátíð Vestmannaeyja.En þarna fékk ég svar við spurningu minni.

Fyrst af öllu þá funduðu Páll Scheving og Birgir Guðjónsson saman með Árna í Herjólfsdal og tilkynntu honum einróma ákvörðun nefndarinnar og færðu fyrir henni rök. Það hefur aldrei verið til ágreiningur um þessa ákvörðun innan nefndarinnar. Það er því makalaust af Árna halda því fram að nefndin hafi verið klofin á málinu.  Hins vegar er rétt hjá Árna að hann spurði Pál að því hvort pólitík væri í málinu, en helber þvættingur að Páll hafi brugðist við með þeim hætti er Árni lýsir. Páll sagði spurninguna ósanngjarna og að Þjóðhátíðarnefnd starfaði ekki þannig. Sem hún hefur aldrei gert.

Það er hreint magnað að Árni skuli halda því fram að pólitík hafi ráðið því að breytingar voru gerðar. Aldrei minnist Árni á það í viðtalinu í Þjóðhátíðarblaðinu að hann hafi slegið starfsmann á Brekkusviðinu árið áður og Páll og Birgir hafi farið yfir það með honum. Það er að vísu óþægilegra og passar illa hlutverki fórnarlambsins. Kannski finnst honum það ekki koma málinu við. Fer ekki að verða tímabært að líta í eigin barm. Stunda örlitla sjálfsgagnrýni í stað þess að fara fram með ósannindum og sverta mannorð þeirra sem þó reyndu að milda eins og kostur var áhrif af ömurlegri framkomu hans.

Þjóðhátíðarnefnd ber ábyrgð á framkvæmd hátíðarinnar. Það er mikilvægt fyrir Þjóðhátíðarnefnd að þeir sem veljast til stjórnunarstarfa á hátíðinni hafi stjórn á sjálfum sér. Það er einnig mikilvægt að stjórnendur leysi vandamál en framleiði þau ekki. Nefndin treysti sér einfaldlega ekki lengur til að bera ábyrgð á Árna Johnsen sem kynni á Brekkusviðinu. Það er lykilatriði í málinu. Lái okkur hver sem er.

Ummæli Árna í Þjóðhátíðarblaðinu eru aumkunnarvert yfirklór. Þjóðhátíðarnefnd kýs að skoða þau sem tæknileg mistök. 

Þetta er sagan og síðustu orð Þjóðhátíðarnefndar varðandi þetta mál.

Þjóðhátíðarnefnd.

Páll Scheving Ingvarsson
Birgir Guðjónsson
Tryggvi Már Sæmundsson

 

 

 

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Glæný fýlsegg

17.Maí'22

Er kominn með glæný fýlsegg. Upplýsingar í síma 8693499, Georg.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...