Víkin: Sjö tímar gjaldfrjálsir og niðurfelling á fæðisgjaldi

14.Júlí'22 | 11:41
leikt_hamarssk

Víkin er starfrækt í Hamarsskóla. Ljósmynd/TMS

Á fundi fræðsluráðs Vestmannaeyja í gær var tekið fyrir endurskoðun á leikskólagjöldum á Víkinni - 5 ára deild.

Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs og Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi fóru þar yfir minnisblað sem sent var út með fundargögnum með útfærslum á breyttri gjaldtöku Víkurinnar og útreikningum á kostnaði miðað við gefnar forsendur.

Í kjölfarið var lögð fram tillaga frá fulltrúum meirihluta E og H lista þar sem lagt er til að útfærslur eins og þær eru lagðar fram í minnisblaði miðað við sjö tíma gjaldfrjálsa og niðurfellingu á fæðisgjaldi verði samþykktar."

Skapi ósamræmi í gjaldtöku

Því næst lögðu fulltrúar minnihluta D lista fram tillögu þess efnis að fæðisgjöld verði ekki niðurfelld á Víkinni.

„Niðurfelling fæðisgjalda skapar ósamræmi í gjaldtöku. Gjald er tekið fyrir fæði á öðrum leikskólastigum og í grunnskóla Vestmannaeyja. Eðlilegt hlýtur að teljast að foreldrar greiði hóflegt gjald fyrir fæði barna sinna.

Greiðslur fyrir fæðisgjald gefa foreldrum aukið vægi og geta þannig haft frekar áhrif á þá þjónustu sem verið er að veita, sbr. úrval, gæði o.s.frv.

Með því að viðhafa fæðisgjöld verða áhrif tekjutaps vegna gjaldfrjálsrar 5 ára deildar minni á heildarrekstur sveitarfélagsins en sá kostnaður er um 5-6 milljónir árlega." segir í tillögu og greinargerð fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Var tillaga minnihlutans felld með þremur atkvæðum E og H lista gegn tveimur atkvæðum D lista.

Vildu láta skoða leiðir til að mæta því tekjutapi sem af ákvörðuninni hlýst

Þá kom fram önnur tillaga frá fulltrúum minnihluta D lista þar sem lagt var til að starfsmönnum fræðslusviðs yrði falið að skoða leiðir til að mæta því tekjutapi sem af ákvörðuninni hlýst til að hún verði ekki til þess að þyngja frekar rekstur sveitarfélagsins en útgjöld vegna fræðslumála eru langstærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins.

Var þessi tillaga minnihlutans einnig felld með þremur atkvæðum E og H lista gegn tveimur atkvæðum D lista.

Vilja stíga fyrstu skrefin í átt að gjaldfrjálsum leikskóla

Næst var gengið til atkvæða um upphaflega tillögu og var hún samþykkt samhljóða.

Í bókun frá meirihluta E og H lista segir að meirihluti E- og H- lista vilji stíga fyrstu skref í átt að gjaldfrjálsum leikskóla og gera Vestmannaeyjar enn betri búsetukosti fyrir ungt fólk. Með þessum sjö gjaldfrjálsum stundum er líka verið að stíga skref í þá átt að stytta vinnudag barna og búa til hvata, þar sem foreldrar greiða fyrir vistunar tíma umfram þessar gjaldfrjálsu stundir. Mikilvægt er að bjóða þar að auki uppá gjaldfrjálst fæði á 5 ára deildinni þar sem nemendur í leikskóla hafa ekki val um að koma með nesti líkt og nemendur í GRV. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og með þessu skrefi er verið að styrkja það skólastig og tryggja enn frekar að öll 5 ára börn geti notið þjónustu 5 ára deildarinnar.

Fagna því skrefi að leikskólagjöld við 5 ára deild GRV verði að hluta gjaldfrjáls

Í bókun frá minnihluta Sjálfstæðisflokks segir að undirritaðar fagni því skrefi að leikskólagjöld við 5 ára deild GRV verði að hluta gjaldfrjáls og samþykkja þá ákvörðun. Með því skrefi er 5 ára deildin sem hluti grunnskólans festur betur í sessi. Það er okkar von að þessi ákvörðun verði liður í því að stytta vinnudag yngstu nemenda GRV, fjölga samverustundum fjölskyldu og létta álögum á foreldra ungra barna. Undirritaðar hefðu þó talið eðlilegt að viðhafa hófleg fæðisgjöld líkt og fyrir aðra nemendur GRV ásamt því að hagrætt hefði verið á móti í rekstri sveitarfélagsins til að þyngja ekki frekar versnandi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Ráðið fól framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að vísa málinu til bæjarráðs til umfjöllunar þar sem um er að ræða aukinn kostnaði fyrir árið 2022. Einnig lagði meirihlutinn til að gert verði ráð fyrir breytingunni í vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. Ráðið fól framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að vinna reglur fyrir breytta gjaldskrá og leggja fyrir næsta fund ráðsins.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).